9.4.2009
Hugleiðing í tilefni af Hudson: Viðbrögð við heimskreppu
Framsóknarmenn hafa fengið til landsins nýjan hagfræðigúrú frá Missouri sér til halds og trausts. Sá heitir Michael Hudson og fundaði með Framsókn og forvitnum gestum á Grand Hótel s.l. mánudagskvöld.
Kjörorði fundarins: “Lausnir handa okkur öllum” var varpað upp á vegg með stórri mynd af formanninum unga, Sigmundi Davíð. Ég hélt til að byrja með að Hudson ætlaði að sanna að tillaga Framsóknarflokksins um 20% afskrift á skuldum fólks og fyrirtækja væri kórrétt hagfræði – ef ekki siðfræði. En Hudson gekk miklu lengra. Það var helst á honum að heyra að þjóðir ættu alls ekki að borga skuldir sínar, enda hefðu þær yfirleitt ekki til þeirra stofnað. Það fylgir sögunni að Hudson er sérfræðingur í Sumer og Babylon, árþúsundum fyrir Krist. Þar tíðkaðist það, að sögn Hudson, að þegar nýir landstjórnamenn komust til valda voru allar skuldir afskrifaðar.
Af skúrkum og fórnarlömbum
Það er ástæðulaust með öllu að rengja sögu Hudson um Sumer. Hitt er verra að það hafði enginn haft fyrir því að segja Hudson undan og ofan af skuldastöðu Íslands eftir hrun. Í máli hans kom hvergi fram að hann gerði greinarmun á ríkisskuldum og skuldum með ríkisábyrgð (sovereign debt) annars vegar og skuldum einkaaðila hins vegar. Til dæmis virtist Hudson standa í þeirri trú að Íslendingar væru fórnarlömb Breta í Icesave deilunni. Það er sem kunnugt er misskilningur.
Íslenskir bankastjórar með íslensk bankaleyfi ráku íslensk bankaútibú í útlöndum á ábyrgð íslenskra stjórnvalda með lögbundinni innlánstryggingu fyrir sparifjáreigendur. Þessir íslensku bankastjórar yfirbuðu heimamarkaðinn með góðum árangri og kenndu við “tæra snilld.” Þetta var þeirra aðferð við að endurfjármagna skuldir íslensku bankanna eftir að aðrar fjármögnunarleiðir lokuðust. Hverjir voru skúrkarnir í þessu máli? Bankastjórar íslensku bankanna. Hverjir voru fórnarlömbin? Breskir og hollenskir sparifjáreigendur og að lokum íslenskir skattgreiðendur.
Við þurfum ekki annað en að setja okkur í spor Breta eða Hollendinga og ímynda okkur, hvernig við hefðum brugðist við, ef t.d. Hollendingar hefðu sett upp slíka yfirboðsbanka hér á landi og stungið svo af með þýfið. Hvað hefðum við sagt? Hvaða kröfur hefðum við gert til íslenskra stjórnvalda um að gæta hagsmuna íslenskra sparifjáreigenda? Og að sjá til þess, að hinir erlendur skúrkar fengju maklegt málagjöld. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hinn nýi hagfræðiráðgjafi Framsóknar, hr. Hudson, meini í alvöru að Íslendingar eigi að hundsa allar lög- og samningsbundnar skuldbindingar sínar gagnvart öðrum þjóðum. Stendur ekki skrifað að það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra?
Kapítalismi að amrískri fyrirmynd
Þó fór í enn verra þegar hr. Hudson fór að segja okkur frá því hvernig Evrópusambandið hefði rústað efnahag Eystrasaltsþjóða. Hann lýsti því, hvernig einkavæðingin þar eystra eftir fall kommúnismans hefði leitt til þess að gamla nómenklatúran (kommaelítan) hefði eignast lönd, fasteignir og fyrirtæki og jafnvel einkarétt á nýtingu takmarkaðra auðlinda. Þetta er reyndar það sama og gerðist í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna (og á Íslandi með gjafakvótunum og einkavinavæðingu ríkisbankanna). Að vísu allt í smækkaðri mynd við Eystrasalt og á Íslandi.
En Hr. Hudson vildi kenna Evrópusambandinu um að með þessu var lagður grundvöllur að ójafnaðarsamfélagi eftir fall kommúnismans. U.þ.b. 1% hinna ofurríku eignaðist mikinn meirihluta auðsuppsprettu þessara þjóða á sama tíma og almenningur bjó við kröpp kjör. Þetta er í stórum dráttum rétt lýsing hjá hr. Hudson. Eystrasaltsþjóðirnar sitja uppi með nýríkar elítur í ójafnaðarþjóðfélögum, rétt eins og vð Íslendingar. Hinsvegar eru það hreinar ýkjur að þetta hafi verið Evrópusambandinu að kenna. Eystrasaltsþjóðirnar endurheimtu sjálfstæði sitt árið 1991. Þær gengu ekki í Evrópusambandið fyrr en 13 árum síðar, árið 2004. Þær búa enn við “sjálfstæða” gjaldmiðla, sem þær hfa bundið við mastur evrunnar.
Hvert leituðu forystumenn Eystrasaltsþjóða að fyrirmyndum um hagvaxtarmódelið sitt? Til Ameríku. Þeir trúðu á Washingtonviskuna. Þeir tóku upp frjálshyggjumódelið. Ríkisafskipti í lágmarki. Markaðslausnir á öllum sviðum. Einkavæðing, lágir skattar, forréttindi fyrir erlent fjármagn. Fjármagnið kom reyndar einkum frá grannþjóðum, þ.e. frá Norðurlöndum. Norðurlandamenn eiga banka, fjármálastofnanir, tryggingarfyrirtæki, hótel, ferðabransa, spilavíti og smásöluverslun.
Það er engin leið að kenna Evrópusambandinu um þá erfiðleika sem Eystrasaltsþjóðirnar eiga nú við að glíma á efnahagssviðinu. Þetta er sjálfskaparvíti. Þeir leituðu ekki fyrirmynda í norræna módelinu. Þeir létu undir höfuð leggjast að skattleggja hina nýríku í þágu skólakerfis og velferðarsamfélags. Þeir trúðu því að frjálshyggjuformúlan tryggði þeim öran hagvöxt. Þeir trúðu því sem þeim var sagt að “The European Social Model” – velferðarríkið evrópska – væri úrelt og heyrði til liðinni tíð. Ekkert af þessu er Evrópusambandinu að kenna.
Samanburður: Ísland og Eystarasaltsþjóðir
Eystrsasaltsþjóðir mega að vísu þakka sínumn sæla fyrir að þrátt fyrir aðsteðjandi heimskreppu og fjárflótta er ekki eins illa fyrir þeim komið og okkur Íslendingum, þrátt fyrir allt. Hvers vegna ekki? Eru þetta ekki veikburða smáþjóðir með sjálfstæðan gjaldmiðil rétt eins og við? Að vísu. En sá er munurinn að bankar og fjármálastofnanir eru að mestu í eigu útlendinga (Skandínava) . Það þýðir að Eystrasaltsþjóðir sitja ekki uppi með neitt “Icesasve.” Skandínavarnir verða að taka á sig hrun sinna eigin banka.
Þótt fólk og fyrirtæki séu skuldug í erlendum gjaldeyri, þá er gjaldmiðillinn þeirra ekki hruninn eins og íslenska krónan.Gjaldmiðlarnir eru nefnilega bundnir við evruna. Það er að vísu dýrt fyrirkomulag og kallar á öfluga gjaldeyrisvarasjóði. En erlendu skuldirnar hafa ekki tvöfaldast við gjaldmiðilshrun eins og á Íslandi. Það er vörn við vá. Og hvaða lausnir eygja þeir í framtíðinni? Þeir eiga tveggja kosta völ:
Annars vegar “íslensku leiðina” með gengisfellingu, óðaverðbólgu, ofurvöxtum , tvöföldun skulda í innlendum gjaldmiðli, fjöldagjaldþrot, eignamissi, kerfishrun og “fullveldisafsal til AGS.”. Eða að halda fast við markaða stefnu um að verjast áhlaupinu með upptöku evru – alþjóðlega trausts gjaldmiðils – sem verði burðarás í endurreisninni. Þetta má heita lán í óláni. Það er ekki tilviljun að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sér það helst þjóðum Mið- og Austur- Evrópu til bjargar, undan fjárflótta áhættufjármagns, að leita skjóls í evrunni. Kannski snillingarnir hjá AGS hafi lært eitthvað af Asíukreppunni 1997-98? Alla vega mönnuðu þeir sig upp í að biðjast afsökunar á mistökum sínum þá.
ESB: Varnarbandalag gegn hamfarakapítalisma
Mér heyrðist kjarninn í málflutningi Michaels Hudson vera þessi: Fjármálakerfi heimsins hefur vaxið framleiðslukerfinu yfir höfuð. Pappírsauðurinn – sem er ekkert annað en krafa á hin raunverulegu verðmæti framleiðslukerfisins – er orðinn a.m.k. tífaldur á við hina raunverulegu þjóðarframleiðslu heimsins. Þessi ofvöxtur pappírsauðsins í höndum “the corporate elite” er orðin að meinsemd sem má líkja við engisprettufaraldur í dýraríkinu. Engisprettufaraldur skilur hvarvetna eftir sig sviðna jörð.
Auðræðið – ránsfengskapitalisminn ameríski – hefur vaxið þjóðríkjunum yfir höfuð. Þau hafa enga burði ein og sér til að standast hamfarirnar. Hudson heldur því fram að Evrópusambandið sé hluti af vandanum. Hann heldur því fram að Íslendingum muni farnast best í þessu hættulega umhverfi einir á báti. Ég segi: Við höfum þegar sopið seyðið af slíkri tilraun. Smáþjóðir heimsins hafa ekki burði til að standast áhlaup hamfarakapitíalismans einar og sér. Smáþjóðir Evrópu verða að snúast til varnar með samstöðu. Evrópusambandið – og alveg sérstaklega gjaldmiðilssamstarfið á evrusvæðinu – er varnarbandalag gegn hamfarakapítalismanum.
Yfirstandandi heimskreppa þýðir að nú reynir á, hvort þetta fjölþjóðlega samstarf stenst áhlaupið. Verði sú raunin, að evrusvæðið standi af sér áhlaupið, þá mun Evrópusambandið koma sterkara út úr kreppunni en nokkru sinni fyrr. Framtíðin mun brátt leiða það í ljós. En eitt er víst: Einar og sér munu smáþjóðir Evrópu ekki standast þær efnahagslegu hamfarir af mannavöldum sem hnattvæðing ameríska bófakapítalismans hefur hleypt af stað. Kannski er til of mikils mælst að maðurinn frá Missouri sé með á þessum nótum.
Jón Baldvin Hannibalsson (Höf. lagði stund á samanburð hagkerfa sem Fullbright-styrkþegi við Harvard 1976-77)

Deila á Facebook
Ummæli við grein
9.4.2009 02:03:59
Viggó Jörgensson Sæll Jón.
Þú fyrirgefur fáfræði mína. Mér hefur ekki þótt yfirstéttin í Bretlandi kunna neitt fyrir sér til framfærslu nema að stela. Í Indlandi, Afríku, Asíu og í seinni tíð með fínni aðferðum í gegnum skattaparadísir. Auk þess að stunda alls konar bellibrögð eins og skortstöðutökur og fleiri vélabrögð.
Mér sýnist að um helmingur af skattaparadísum heimsins sé eða hafi verið undir breskum fána. Fjöldi ESB þjóða hefur einnig lært þessi nútímaviðskipti af Bretum.
Ég leyfi mér að halda því fram að þessi sama breska yfirstétt stjórni öllu sem hún vill. Að allar ákvaðanir séu teknar í þykkum vindlamekki kringum Chesterfield stólana í klúbbunum fínu í Lundúnum, hvar þingmennirnir bugti sig og beygi.
Er það trúverðugt að ESB geti nokkuð gert í alvöru til að uppræta orsakir hamfarakapitalismans?
9.4.2009
Jón Baldvin Hannibalsson Heill og sæll, Viggó.
Ég lærði mína hagfræði í gamla daga við breskan (skoskan) háskóla. Um sumt - t.d. hina angló/amerísku heimsvaldastefnu - lærði ég meira af vinum mínum í Labour and Socialist Club,...
en þeir komu víðs vegar að úr breska heimsveldinu (Indlandi og Pakistan, Singapore og Malasíu, Afríku og Karíbahafinu). Samt má ekki gleyma því að sú var tíð að Bretland var "the workshop of the world."Það er að vísu löngu liðin tíð. Bandaríkin fóru fram úr gömlu Evrópu upp úr aldamótunum 1900. Evrópa brotlenti í tveimur heimsstyrjöldum. Frá og með lokum seinni heimstyrjaldar hefur bandaríski kapítalisminn verið heimsyfirráðaafl. Hamfarakapítalisminn (fjármálakerfi sem vaxið hefur framleiðslukerfinu yfir höfuð) á ætt sína og óðul í Ameríku. Höfuðstöðvarnar eru við Wall Street. Stjórntæki heimskapítalismans - IMF, World Bank og WTO - allt er þetta undir amerískri stjórn.
2. Evrópa er post-colonial. Evrópusambandið stefnir ekki að heimsyfirráðum. Til þess hefur Evrópa hvorki pólitískan vilja né hernaðarlega burði. Aðferðafræði ESB er samningar á grundvelli laga og réttar. Það hentar vel hagsmunum smáþjóða. Þótt Evrópusambandið sé viðskiptastórveldi er það hernaðarlegur dvergur. Það er fínt. Fyrir utan að vera friðarafl er ESB líka jafnaðarafl. ESB hefur gert meira en nokkur fjölþjóðastofnun önnur í sögunni til að lyfta hinum fátækari þjóðum upp á lífskjarastig hinna ríku. Þetta getur þú sannfærst um með því að skoða hagþróun Íra, Portúgala, Spánverja, Ítala, þjóða Mið- og Austur-Evrópu, Eystrasaltsþjóða og smáþjóðanna á Balkanskaganum. Berðu þetta svo saman við samskipti Bandaríkjanna við þjóðir Mið- og Suður-Ameríku og í Karíbahafinu. Þá sérðu að á þessu tvennu er eðlismunur. Því má svo við bæta að Evrópusambandið hefur fóstrað fleiri þjóðir frá einræðis- og alræðisstjórnarfari til lýðræðis en nokkur önnur fjölþjóðastofnun í sögunni. Allt ! hefur það gerst án hernaðaríhlutunar - fyrir utan stöðvun þjóðernishreinsana í Kosovo, þar sem ESB reyndar brást, svo að NATO varð að vinna skítverkið.
3. Ég er að vísu sammála þér um það að breska yfirstéttin hefur seinustu mannsaldrana lifað á fornri frægð sem "rentier-class", þ.e. afætur af iðju annarra sem samsafn auðnuleysingja
9.4.2009 05:55:37
Orri Òlafur Magnusson sammála
9.4.2009 06:27:27
bor Takk fyrir góða grein.
9.4.2009 09:36:01
Maríanna Takk fyrir þetta. Frábært að þú miðlar okkur af reynslu þinni og þekkingu. Ég hafði t.d. ekki hugsað út í stöðu Eystrasaltsríkjanna á þennan hátt. Vona að Norræna velferðarmódelið verði fleiri þjóðum hugleiknara eftir frjálshyggjubóluna.
9.4.2009 13:17:45
Kristján Torfi Það er urmull af þversögnum og undarlegum röksemdum í þessum pistli.
Hvað er t.d. athugavert við þetta: "En Hudson gekk miklu lengra. Það var helst á honum að heyra að þjóðir ættu alls ekki að borga skuldir sínar, enda hefðu þær yfirleitt ekki til þeirra stofnað."
Stofnaði þjóðin, ríkið eða almenningur til skulda bankanna? Á þjóðin að vera ábyrg fyrir því erlenda fjármagni sem notað var til að kaupa eignir erlendis? (er þetta einhverskonar nýfjármagnskratismi sem þú talar fyrir undir kjörorðunum "Almenningur á að borga skuldir óreiðumanna"?)
Kjarninn í málflutningi Hudson eru skuldir. Hann er einfaldlega að viðurkenna hið augljósa að hvorki Ísland né aðrar vestrænar þjóðir munu geta i staðið undir skuldafjallinu.
Varðandi Evrópusambandið. Ef þú horfir á vandann í gegnum skuldagleraugun þá blasir við að ESB er í mun verri málum en USA. Gírunarhlutfall bandarískra bankakerfisins er 1:30 en í ESB er hlutfallið 1:61. Evrópa hefur ekki bara "tileinkað sér heimsfaraldskapítalisma Ameríku" heldur gíraði hún sig tvisvar sinnum dýpra niður í svaðið. USA er langt komin (nær hálfnuð) í að afskrifa/þjóðnýta skuldir bankanna sinna, Evrópa er varla byrjuð.
Þetta er náttúrlega bara endemis vitleysa og með ólíkindum: "Eystrsasaltsþjóðir mega að vísu þakka sínumn sæla fyrir að þrátt fyrir aðsteðjandi heimskreppu og fjárflótta er ekki eins illa fyrir þeim komið og okkur Íslendingum, þrátt fyrir allt."
Þá er þetta rangt: "Kannski snillingarnir hjá AGS hafi lært eitthvað af Asíukreppunni 1997-98? Alla vega mönnuðu þeir sig upp í að biðjast afsökunar á mistökum sínum þá." Vandamál Austur Evrópu eru nákvæmlega eins og vandi Asíu fyrir áratug. Autur Evrópa hefur skuldsetti sig upp fyrir haus í erlendri mynt. Nema nú er skuldirnar ekki í dollurum heldur evrum. Hvorki ESB né AGS hafa lært nokkuð skapaðan hlut.
Nú þegar Seðlabanki USA þarf að fjármagna ríkishalla Bandarríkjanna þá gengur þetta ekki heldur upp: "Smáþjóðir heimsins hafa ekki burði til að standast áhlaup hamfarakapitíalismans einar og sér." Enginn getur staðið undir þessum skuldum og það breytir engu hvort þú er stór eða lítill. Ósjálfbær skuldasöfnun er ósjálfbær skuldasöfnun. ESB og evran hafa ekki einu sinni tækni né stofnanir (t.d. fjármálaráðuneyti) til þess að takast á við vandann. Það hafa Íslendingar rétt eins og Bandaríkin. Við þurfum bara að horfa vestur og hafa hugrekki til að beita þessum tækjum eins og Obama.
10.4.2009
Jón Baldvin Hannibalsson Til Kristjáns Torfa:
“Er þetta einhvers konar nýfjármagnskratismi sem þú talar fyrir undir kjörorðunum “almenningur á að borga skuldir óreiðumanna””? - Þetta er skætingur sem ekki er svaraverður.
Athugasemdir þínar að öðru leyti verðskulda þessi svör:
1. Ég hef að sjálfsögðu hvergi haldið því fram að ríkið (skattgreiðendur) eigi að greiða skuldir einkaaðila. Einmitt þess vegna gagnrýndi ég Hudson fyrir að gera ekki skýran greinarmun á ríkisskuldum og skuldum með ríkisábyrgðum (“sovereign debt”) og skuldum einkaaðila.
Dæmi: Sparifjáreigendur, breskir og hollenskir hjá Icesave, voru í góðri trú um að einstaklingsbundnar sparifjárinnistæður þeirra nytu lögbundinnar tryggingar. Það er rétt skv. íslenskum lögum. Íslenskum stjórnvöldum (þ.m.t. eftirlitsstofnunum) var fullkunnugt um þetta. Um það ríkti engin óvissa. Það var á valdi íslenskra stjórnvalda að firra íslenska skattgreiðendur þeirri áhættu að innistæðutryggingin lenti á þeim. Þau brugðust. Það er lýðskrum af verstu sort í bland við þjóðrembu, þegar íslenskir stjórnmálamenn, sem brugðust umbjóðendum sínum og sváfu á vaktinni, reyna að kenna öðrum um. Það er síðasta sort að varpa eigin sök á aðra með því að kynda undir útlendingahatri. Það er það seinasta sem við höfum efni á þessi misserin. Eina spurningin sem enn er ósvarað í þessu máli er, hversu mikið má innheimta upp í skuldina af útistandandi eignum Landsbankans. Jú, og eitt í viðbót: Hvaða kjör fást á þeim lánum sem Bretar og Hollendingar bjóða íslenska ríkinu til að standa við innistæðutrygginguna (ca. 650 milljarðar íkr.)? Þar munar miklu hvort vextirnir verða með “Íslandsálagi” ( allt að 7% með áhættuálagi) eða hvort miðað verður við vexti Englandsbanka sem eru að nálgast núll. Munurinn getur numið allt að útflutningsverðmæti sjávarafurða á ári. Það munar um minna. Hverjir stofnuðu til þessara skulda? Bankastjórar hins einkavædda Landsbanka. En þeir gerðu það í skjóli þess að innistæðurnar væru lögum samkvæmt tryggðar af ríkinu. Ríkið hafði ýmis úrræði til að firra skattgreiðendur þessari áhættu og ábyrgð, en “ríkið” brást. Þetta skýrir hvers vegna banka- og gjaldmiðilshrunið velti skuldum yfir á ríkið (skattgreiðendur). Dæmi: (1) ríkisábyrgðin vegna Icesave, (2) útlánatap Seðlabankans, (3) lántaka vegna gjaldeyrisforða Seðlabankans til að halda uppi gengi krónunnar, (4) endurfjármögnun ríkisbanka, (5) ríkisábyrgð á innistæðum íslenska bankakerfisins, (6) ríkisábyrgð á skuldum ríkisstofnana (einkum innan orkugeirans) í erlendum gjaldeyri. Fleira mætti tína til. Dr. Beauter, einn fremsti sérfræðingur heims í fjármálakreppum og skuldasúpum, telur að skuldir ríkisins , þ.e. skattgreiðenda, verði þegar upp verður staðið, u.þ.b.sem svarar 1½ þjóðarframleiðslu
2. Og þá er komið að kjarna málsins varðandi málflutning Hudson. Hingað til höfum við bara verið að tala um ríkisskuldir. Allt sem heitir skuldir einkaaðila, þar með talið risavaxnar erlendar skuldir hinna einkavæddu banka, er þar fyrir utan. Bankarnir urðu einfaldlega gjaldþrota. Þeir eru nú þrotabú. Erlendir kröfuhafar þeirra geta bara innheimt upp í kröfur það sem fæst fyrir eignir bankanna. Þessar skuldir einkaaðila koma ríkinu (les skattgreiðendum) ekkert við. Um það er enginn ágreiningur. Gagnrýni mín á Hudson var um það að umræða hans um skuldasúpu þjóðríkja eftir banka- og gjaldmiðilshrun var ófagleg og ófullnægjandi þar sem hann gerði engan greinarmun á ríkisskuldum, skuldum sem ríkisstjórnir í umboði almennings í lýðræðisríkjum hafa stofnað til og bera ábyrgð á, annars vegar, og skuldum einkaaðila hins vegar. Að sjálfsögðu ber okkur (skattgreiðendum) engin skylda til að borga skuldir einkaaðila. Þeir tóku lán og fengu mikinn arð af fjárfestingum sínum. Þeim ber líka að standa undir tapi ef fjárfestingarnar bregðast. Þeir einkavæddu gróðann og eiga ekki að komast upp með að þjóðnýta tapið. Þú, Kristján Torfi, lofar fordæmi Obama um að þjóðnýta tap einkaaðila, sem þýðir að varpa skuldunum yfir á herðar skattgreiðenda í framtíðinni. Ég hallast fremur að því grundvallarsjónarmiði Merkel Þýskalandskanslara að þeir sem hirtu gróðann eigi sjálfir að bera tapið.
3. .Ég stend við allt sem ég sagði um samanburð við stöðu Eystrasaltsþjóða annars vegar og okkar Íslendinga hins vegar. Þeir eru betur settir að því leyti að gjaldmiðlar þeirra, tengdir evru, hafa ekki hrunið, sem þýðir að erlendar skuldir hafa ekki tvöfaldast í erlendum gjaldmiðli með öllum þeim afleiðingum sem því fylgir og Íslendingar þekkja manna best. Það er einfaldlega rangt sem þú segir, Kristján Torfi: “... það breytir engu hvort þú ert stór eða lítill.” Það breytir öllu hvort skuldirnar eru í eigin gjaldmiðli eða ekki. Það breytir öllu hvort þú ert hluti af stóru myntsvæði með alþjóðlegan gjaldmiðil sem stenst áhlaup hersveita græðginnar eða ekki . Það breytir öllu hvort þú ert varnarlaus fyrir engisprettufaröldrum heimskapítalismans – jafnvel svo mjög að “jöklabréf” spekúlanta í vaxta- og gengismun leggja þig að velli – eða ekki. Það er þess vegna sem þjóðir Mið- og Austur-Evrópu eru verr staddar en aðildarþjóðir evrusvæðisins sem byggja á traustari vörnum.
4. Þýskur hagfræðingur með áratuga reynslu í Austur-Evrópu orðar þetta svona: “Niðurstaðan er þessi: Alþjóðlegir fjárfestar ættu að hafa áhyggjur af flestu öðru en upplausn evrusvæðisins. Evrópuríki, utan evrusvæðisins, eins og t.d. Pólland og Ungverjaland, taka nú út þjáningar af því að gjaldmiðlar þeirra eru undir miklu álagi. Þessar þjóðir reyna af öllum kröftum að komst undir verndarvæng evrunnar. Lexía heimskreppunnar fyrir þessar þjóðir er sú að þær þurfa að leggja harðar að sér til að uppfylla skilyrðin fyrir þátttöku í evrusvæðinu. Sjálf kreppan getur orðið þeim hvati til að taka sig á. Gefist þau ekki upp á miðri leið og nái þess í stað markmiði sínu, mun evrusvæðið í heild að lokum koma sterkara út úr kreppunni en áður.” (Holger Schmieding, Global Investor, 23.03.09.)
Ég hef engu við þetta að bæta.
Skrifa ummæli