Greinasafn

2018
 »mars

 »febrúar
 »janúar
2017
 »desember
 »nóvember
 »október
 »september
 »ágúst
 »júlí
 »júní
 »maí
 »apríl
 »mars
 »febrúar
 »janúar
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
2006
2005
2004
2003
2002
2001
2000
1999
1998
1997
1996
1995
1994
1993
1992
1991
1990
1989

Articles in English

2.11.2016
JBH interview Scotland

Read more

1.10.2016
Interviewed by the Lithuanian TV

Read more

14.9.2016
WHAT´S WRONG WITH EUROPE – AND WHY DON´T YOU FIX IT?

Read more

9.9.2016
WHAT CAN WE LEARN FROM THE NORDIC MODEL?

Read more

15.7.2016
Free Iran Grand Gathering 2016- Jón Baldvin Hannibalsson

Read more

All articles in English

26.7.2009

VINARBRAGÐ

Sú var tíð, að Litháum fannst, að þeir stæðu einir uppi í heiminum á örlagatímum. Stórveldin sögðu þeim að hafa sig hæga, og hið svokallaða alþjóðasamfélag vildi sem minnst af þeim vita. Þegar þeir leituðu ásjár í raunum sínum, voru fáir til að bænheyra þá.

Og þegar þeir sendu út neyðarkall vegna yfirvofandi blóðsúthellinga, var það bara einn af mörgum, sem þeir leituðu til, sem sinnti kallinu: Utanríkisráðherra NATO-ríkisins Íslands, eins og þeir gjarnan orðuðu það. Og þegar maður á bara einn vin í heiminum, þykir manni gjarnan meira til hans koma en ella. Þess vegna greiptu Litháar í eina steinblokkina, sem þeir notuðu til að víggirða þinghúsið í Vilníus: Til Íslands, sem þorði, þegar aðrir þögðu.

Mörgum Íslendingum virðist vera eitthvað ámóta innanbrjósts þessi misserin og Litháum var á árunum 1988-91. Okkur finnst við vera vinafáir og að alþjóðasamfélagið sýni okkur takmarkaðan skilning. Að vísu er ólíku saman að jafna lífsháska Litháa, hernuminnar þjóðar undir járnhæl Sovétvaldsins, og efnahagsþrengingum okkar Íslendinga, sem fyrir fáeinum misserum töldust vera í fínasta klúbbi ríkustu þjóða heims.

En það hafa greinilega orðið snögg umskipti á högum þessara tveggja þjóða. Litháar hafa fest sitt nýfengna sjálfstæði í sessi með inngöngu í bæði NATO og Evrópusambandið. Íslendingar hafa með fjárglæfrum og fyrirhyggjuleysi valdið sumum grannþjóðum sínum umtalsverðum skaða og steypt sjálfum sér í skuldafangelsi, sem við munum ekki losna úr í bráð. En það er þegar ógæfan knýr dyra, sem við komumst að því, hverjir eru vinir í raun. Og þeir gleyma ekki svo glatt vinum sínum í Vilníus. Össur hafði ekki fyrr afhent Carli Bildt, utanríkisráðherra Svía umsókn Íslendinga um aðildarviðræður við Evrópusambandið í Stokkhólmi en starfsbróðir þeirra í Vilníus, Vygaudas Usackas, var mættur í Reykjavík fyrstur ráðamanna frá Evrópusambandsríkjum

Hann hafði upp á vasann ályktun frá Seimas – þjóðþingi Litháa – sem samþykkt var einróma 23. júlí s.l., þar sem lýst var stuðningi við aðildarumsókn Íslendinga og skorað á aðrar þjóðir ESB að veita Íslendingum brautargengi. Í kaupbæti buðu Litháar að deila með Íslendingum reynslu sinni af aðildarsamningum við Evrópusambandið og að tala máli þeirra gagnvart öðrum aðildarþjóðum. Þeir gleyma ekki svo glatt vinum sínum í Vilnu, eins og ég sagði.

Við Bryndís hittum utanríkisráðherrann í félagsskap forystufólks litháiska samfélagsins á Íslandi s.l. laugardagskvöld. Hann er gamall kunningi okkar frá fyrri tíð, m.a. var hann um skeið samtíma okkur í Washington D.C., þar sem hann gegndi starfi sendiherra Litháen í Bandaríkjunum. Samningaviðræður Litháa við Evrópusambandið um aðild stóðu yfir í þrjú ár. Fyrsta árið var Vygaudas Usackas formaður samninganefndarinnar. Hann býr því persónulega yfir mikilli reynslu af samskiptum við harðsnúnustu samningamaskínu heims, sem er Evrópusambandið.

Það er ómetanlegt fyrir okkur að njóta þessarar reynslu. Í spjalli okkar kom fram, að Litháar ákváðu strax í upphafi að ráða í sína þjónustu sérfræðinga úr innsta hring Evrópusambandsins með mikla reynslu af innri starfsháttum þess og samskiptaneti. Þannig réðu þeir t.d. fv. kommissar landbúnaðarmála (Dana), fv. kommissar þróunar- og byggðamála (Breta) og Þjóðverja, sem hafði verið einn nánasti samstarfsmaður Delors við undirbúning og síðar framkvæmd peningamálasamstarfsins. Aðstoð þessara sérfræðinga reyndist, að sögn, ómetanleg. Sjálfur sagði Vygaudas, að 70% af tíma hans og annarra samninganefndarmanna Litháa hafi farið í undirbúingsvinnu heima fyrir, ekki hvað síst til þindarlausra fundarhalda með hagsmunaaðilum heima fyrir og til kynningarstarfs meðal almennings. Af þessu getum við mikið lært.

Ég sagði áðan, að það hefðu orðið mikil umskipti á högum þessarar tveggja þjóða á seinustu misserum. Það fengum við staðfest með öðrum hætti, þegar við Bryndís heimsóttum Vilníus fyrr í þessum mánuði til að vera svaramenn í brúðkaupi gamals vinar. Þessi vinur okkar heitir Ramunas Bogdanas. Fundum okkar bar saman fyrir 20 árum, þegar Ramunas var einn nánasti aðstoðarmaður Landsbergis, sjálfstæðishetju þeirra Litháa. Ramunas er málvisindamaður að mennt. Hann hefði aldrei farið út í pólitík, nema af því að þetta voru örlagaríkir tímar, þar sem framtíð sjálfstæðis- og þjóðmenningar Litháa var að veði.

Pólitískur flóttamaður

Þegar sovéska hernámsliðið lét til skarar skríða gegn Litháum í janúar 1991, brutust sérsveitarmenn inn á heimili Ramunas og hugðust handtaka hann og ákæra fyrir landráð. Þeir gripu í tómt, en Ramunas fór huldu höfði næstu vikur. Þar sem tvísýnt þótti um öryggi konu hans og ungra sona, varð það að ráði, að ég bað starfsbróður minn norskan, Thorvald Stoltenberg, að tryggja ffjölskyldunni hæli sem pólitískum flóttamönnum í Noregi, meðan óvissa ríkti um örlög þjóðarinnar. Thorvald brást við vel og drengilega. Við sáum hins vegar ekki fyrir, að þessi litla fjölskylda vinar míns myndi festa rætur í Noregi og að synirnir yrðu að lokum norskir ríkisborgarar. Það var ekki meiningin í upphafi.

En þetta voru erfiðir tímar. Málvísindamaðurinn ungi, sem sem þurfti að fara í felur undan ofbeldisseggjum KGB í heimalandi sínu, átti ekki fimmeyring með gati og gat ekki séð fjölskyldu farborða á sama tíma og hann vann myrkranna á milli með Landsbergis og fleiri góðum mönnum við að frelsa þjóðina undan oki Sovétvaldsins. Þegar þessum örlagaríku átökum lauk og við tók venjuleg pólitík, gerðist Ramunas fráhverfur stjórnmálaþátttöku. Hann þoldi hvorki óheilindin né óhróðurinn og honum bauð við spillingunni, sem hertók pólitíkina í landinu í staðinn fyrir hernámsliðið. Honum fannst sér ekki samboðið að vera keypt þý.

Hann fór út í bisniss. Fyrsta verkefnið var að safna brotajárni af sorphaugum Sovétsins og bræða í málm til útflutnings. Seinna fór hann út í timburútflutning og framleiðslu- og framkvæmdir í byggingariðnaðinum. Eftir að þjóðnýttu landi var aftur skilað til fyrri eigenda, varð Ramunas ríkur, af því að byggja upp ný úthverfi í Kaunas á gamalli jörð afa síns.

Þetta eru dæmigerð umskipti sem orðið hafa á högum margra Litháa. Þeir hafa á örfáum árum hafist frá örbirgð til bjargálna og jafnvel dágóðra efna. Á sínum tíma átti Ramunas ekki fyrir farinu til Íslands. Núna vorum það við, sem áttum í mesta basli með að herja út evrur til þess að geta samfagnað honum á brúðkaupsdeginum.

Jón Baldvin Hannibalsson (Höf. er heiðursborgari í Vilníus)

Deila á Facebook

Ummæli við grein

26.7.2009 17:09:03
ASE
Hafði gaman að því að lesa þennan pistil. Langar að nota tækifærið og þakka þér fyrir skemmtilega skrifaða og fróðlega pistla í gegnum tíðina. Takk fyrir mig.
28.7.2009 22:39:48
Svanur Sigurbjörnsson
Það er ánægjulegt að heyra af þessu því þegar maður lítur yfir stjórnmálasviðið síðastliðin 20 ár er ekki svo ýkja margt að gleðjast yfir. Sá sjálfsagði stuðningur sem þú hafðir forystu um að veita sjálfstæðisbaráttu Litháa fyrir okkar hönd varð einstakur því kjarkleysi og hagsmunapólitík annarra þjóða varð svo augljós þegar Ísland ein þjóða lét mannréttindi ráða för sinni.
Stuðningur Lithá á nú eftir að reynast okkur mikilvægur. Mikilvægi vináttunnar er sjaldan ofmetin. Bestu kveðjur og þakkir - Svanur
29.7.2009 08:27:04
Ingunn Guðnadóttir
Komdu sæll Jón Baldvin.
Takk fyrir þennan pistil. Ég hlustaði á samtal sem þið áttuð, þú og Sigurður G Tómasson fyrir nokkru. Um för þina til Litháen. Það var alveg ný upplifun fyrir mig að hlusta á. Og mjög skemmtilegt.

Takk fyrir pistlana þína.

kveðja...Ingunn
5.8.2009 19:20:09
Freyja
Hefur greinilega verið fróðlegt, gott og gaman - takk. kv. Freyja og co.
8.8.2009 13:32:00
Einar Einarsson
Sæll.

Það sem okkur vantar á þessum tímum eru menn sem hafa kjark til að mæta stálinu (kúgunarvaldinu) með hnefanum.
Gamla brýnið jhb er maðurinn.

Góðar stundir
15.8.2009 14:08:34
Óðinn Hilmisson
Komdu sæll kæri vinur .
Þessi skrif minna mig á góða tíma þar sem litla Ísland varð risastórt fyrir umheiminum með góðverki sínu og frelsaði þrjár þjóðir með kjarki sínum.
Við erum einmitt oft stærri en við höldum í samskiptum við aðrar þjóðir og ættum að hafa það hugfast þegar við göngum í ESB.
Ps. Gaman væri að heyra söguna um ákvarðanatöku Íslenskra stjórnvalda áður en þú meistari færðir þeim frelsið.
að lokum bið ég að heilsa þér og þinni fjölskyldu sem ég ber mikla virðingu fyrir og njótið baráttuþreksins fyrir Íslenska þjóð og samvinnu þjóðanna.
15.8.2009 21:28:22
Kristinn
Sæll!
Það er gaman að heyra að þú ert ekki dauður úr öllum æðum. Sem mikill aðdáandi og stuðningsmaður þinn í gegnum tíðina, sé ég aðeins eina leið fyrir ríkisstjórn JS í samningaferlinu við ESB.
Það er að þú verðir skipaður formaður samninganefndarinnar. Ég vil meina að ENGINN núlifandi Íslendingur þekki betur til þeirra verka en þú. Ég veit að þú ert það mikill Íslendingur í þér að þú færir aldrei að "selja" landið fyrir Evrur.
Ég vona að það láti fleiri heyra í sér um þetta málefni.
Baráttuhveðjur frá Evrópusinna

Skrifa ummæli

Nafn
Netfang
Skilaboð
Skráðu inn þetta orð
í þennan reit