Minningarorð um Finn Gunnlaugsson frá Hvilft í Önundarfirði

Það snertir okkur djúpt, þegar við heyrum af andláti nemenda okkar – við hugsum alltaf til þeirra sem unga fólksins, sem á lífið framundan.

Við hugsum til áranna fyrir vestan – þegar verið var að skapa Menntaskólann á Ísafirði frá grunni – sem blómaskeiðs. Frá upphafi voru vonir bundnar við, að með stofnun skólans mundi Vestfjörðum haldast betur á ungu atgervisfólki. Þær vonir, einar og sér, voru kannski ekki raunhæfar. Meira þurfti að koma til. Engu að síður hefur skólinn átt sinn þátt í því að gera flóru mannlífsins, einkum í höfuðstað Vestfjarða, fjölbreyttari og lífvænlegri.

Við eigum margar góðar minningar frá samverustundum okkar með því unga fólki, sem tilheyrði brautryðjendakynslóðinni. Í þeim hópi voru systkinin frá Hvilft í Önundarfirði. Bæjarheitið er sérstakt, og persónuleiki systkinanna, Halldóru, Maríu og Finns, ekki síður. Þau voru eftirminnileg, andlega forvitin, leitandi – tilbúin að fara ótroðnar slóðir. Finnur var félagslyndur, tók þátt í leiklistarstarfi, lét að sér kveða á málfundum, var virkur í andlegu lífi þessa litla skólasamfélags. Við geymum um hann góðar minningar og flytjum þér, systkinunum frá Hvilft og fjölskyldunni allri hugheilar samúðarkveðjur.