Lifað með öldinni, endurminningar Jóhannesar Nordal, er þrekvirki, enda þrettán ár í smíðum, að sögn höfundar. Sjálfur er höfundurinn að nálgast 100 ára afmælið. Þetta er stjórnmála- og hagsaga Íslands á 20stu öld. Þótt sjálfur sé Jóhannes ekki í heiminn borinn fyrr en á þriðja tug liðinnar aldar, nær minni hans til loka sjálfstæðisbaráttunnar með heimastjórn. Samband þeirra feðga, Jóhannesar og föður hans Sigurðar, helsta bókmenntapáfa íslendinga á fyrri hluta seinustu aldar, var mjög náið. Sigurður hélt dagbækur. Þeir feðgar skrifuðust á. Margir af leiðtogum sjálfstæðisbaráttunnar birtast okkur þess vegna sem heimagangar í sögunni.
Lesandinn getur leikið sér að því að telja alla þá stjórnmálaleiðtoga sem koma við sögu. Þeir koma og fara en Jóhannes blífur, nánast eins og hinn menntaði einvaldur.
Að loknu námi við London School of Economics haslar hann sér völl í Landsbankanum. Hann stýrir hagdeild bankans. Skrifar ársskýrslurnar. Landsbankinn er ekki bara viðskiptabanki heldur líka seðlabanki með einkarétt á seðlaprentun. Brátt verður Jóhannes seðlabankastjóri og gegnir því starfi í tæpa fjóra áratugi. Það á sér ekki hliðstæðu annars staðar í heiminum. En hann er líka stjórnarformaður Íslands. Formaður stóriðjunefndar. Stofnandi Landsvirkjunar. Samningamaður ríkisins við fjölþjóðlega auðhringa sem vilja nýta ríkulegar orkulindir íslendinga. En ekki bara þetta, hann er líka arftaki föður síns sem menningarpáfi. Stjórnarformaður vísindasjóðs – bæði hug- og raunvísinda. Útdeilir styrkjum. Stendur fyrir útgáfu fornrita. Kemur við söguna um „handritin heim“. Situr í stjórn Almenna bókafélagsins, sem er stofnað til að andæfa fyrirferð Moskvuhollra kommúnista í menningarlífinu. Vinnur með Ragnari í Smára vegna nýs Helgafells. Það er leitun að þeim vettvangi þar sem ráðum er ráðið, þar sem hann kemur ekki við sögu.
Um hvað snýst þetta allt saman eiginlega? Þetta snýst um pólitík og hagstjórn – þetta tvennt sem ekki verður sundur skilið. Veganestið fékk hann frá Bretlandi þar sem hann var við nám í allt að áratug frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Þar og þá stóð stríðið milli Keynes og Hayeks um hvaða skilyrðum hagkerfið þyrfti að fullnægja, sem undirstaða lýðræðis og réttarríkis: Óbeislað markaðskerfi með lágmarksríkisafskiptum eða blandað hagkerfi þar sem ríkið gegndi veigamiklu hlutverki við stjórnun og eftirlit með markaðsöflum. Það er að segja, þar sem ríkið héldi uppi samfélagslegri þjónustu, sem ekki væri hagnaðardrifin, t.d. hvað varðar aðgengi að menntun, heilsugæslu, auðlindanýtingu og almannasamgöngum, svo dæmi séu nefnd.
Í stríðslokin höfnuðu kjósendur í Bretlandi stríðsleiðtoganum Churchill og lyftu verkamannaflokknum til valda undir forystu Attlee. Þeir hófust þegar handa við að byggja upp velferðarríki sem m.a. byggði á hugmyndum Beveridge um aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu (National Health Service). Breski verkamannaflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem Jóhannes segist hafa tilheyrt. Hann lætur þess þó getið að honum hafi ekki hugnast ríkisforsjárhugarfar og þjóðnýtingaráform Attlee og félaga. Af þessu má e.t.v. draga þá ályktun að hugmyndafræðilegt veganesti Jóhannesar frá námssárunum hafi verið af því tagi sem við kennum við hægri krata.
Hagfræðingar nútildags kenna tímabilið frá stríðslokum fram undir áttunda áratuginn (Thatcher/Reagan) við gullöld velferðaríkissins í anda jafnaðarstefnu. Sjálfur var Keynes aðalsamningamaður hins hnignandi breska heimsveldis við arftaka Roosevelts (New Deal) um stofnanir og alþjóðareglur alþjóðakerfisins eftir stríð (Bretton-woods). Bandaríkin voru á hátindi auðs, valda og áhrifa. Sigurvegarar stríðsins, bandalagsþjóðir gegn fasisma, stofnuðu hinar Sameinuðu þjóðir, þar sem sigurvegararnir áskildu sér neitunarvaldi í Öryggisráði. Hagskipunin skyldi byggð á fastgengi gjaldmiðla, miðað við dollar, og stofnunum eins og Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem áttu að vera máttarstólpar og framkvæmdaraðilar alþjóðakerfisins.
Árangurinn lét ekki á sér standa. Við tók blómaskeið efnahagslegra umbóta, stöðugleika og hraðbatnandi lífskjara, innan ramma hins blandaða hagkerfis og frjálsra milliríkjaviðskipta, sem þjóðríkin sömdu um sín í milli. Marshall-aðstoðin átti þátt í að endurreisa Evrópu úr rústum heimsstyrjaldarinnar. Þótt íslendingar hafi sloppið við eyðileggingu styrjaldarátaka og m.a.s. notið stríðsgróða í ríkum mæli, vorum við líka þiggjendur Marshall-aðstoðar við uppbyggingu innviða, ekki síst í orkugeiranum.
Þungamiðjan í þessu mikla ritverki Jóhannesar er frásögn hans af Viðreisnarstjórninni, ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks, sem sat við völd í þrjú kjörtímabil 1959-1971. Viðreisnarstjórnarinnar er minnst fyrir það að hún gerði tilraun til „kerfisbreytinga“. Allt fram að þeim tíma höfðu íslendingar, nánast einir þjóða í V-Evrópu viðhaldið hafta- , skömmtunar- og leyfisveitingakerfi kreppuáranna. Hvers vegna? Sjálftæðisflokkurinn hafði setið í öllum ríkisstjórnum frá árunum 1944-1956 eða m.ö.o. í meira en áratug eftir stríð. Þetta var flokkur sem boðaði einkaframtak, markaðslausnir og lágmarksríkisafskipti af efnahagslífinu. Reynslan af þátttöku flokksins, einnig þar sem hann fór með stjórnarforystu, var þveröfug á við það sem hann boðaði. Það er á þessum árum sem „helmingaskiptareglan“ verður grundvallarregla íslenskrar stjórnsýslu. Ríkisafskipti á öllum sviðum voru grundvallarreglan. Ráðandi flokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, neyttu aðstöðu sinnar í ríkisstjórn til að skipta flestum gæðum milli sín, þ.e. á milli fyrirtækja og einstaklinga sem tilheyrðu þessum flokkum. Þetta var fyrst og fremst ríkisforsjárkerfi. Fjármálakerfið (ríkisbankar og atvinnuvegasjóðir) var ríkisrekið. Bankastjórar voru pólitískt ráðnir og fulltrúar flokkanna skipuðu í bankaráðin. Innflutningur var háður leyfum og einokunarfyrirtæki í tengslum við flokkana réðu útflutningnum. Tryggingar voru ýmist ríkisreknar eða á vegum fyrirtækja í tengslum við flokkana. Þjónusta við almenning, hvort heldur var lánveitingar eða lóðaúthlutanir, réðst af flokksaðild. Gengi þjóðargjaldmiðilsins var pólitískt ákveðið. Skömmtunarkerfið var orðið svo rammgert að einstaka tegundir útgerðar (togaraútgerð, línubátar, síldveiðar o.s.frv.) bjuggu við sérstaka gengisskráningu og nutu styrkja eða niðurgreiðslna (millifærslna) til að halda sér á floti.
Ein tilraun, sem kennd hefur verið við Benjamín Eiríksson, hagfræðing, var gerð til þess að brjótast út úr þessu kerfi fyrir 1950 en skorti atbeina stjórnmálaforystunnar til þess að skila árangri. Tilraunin fór því út um þúfur. Viðreisnarstjórnin var því önnur atlota að kerfisbreytingum. Grundvallaratriði kerfisbreytingarinnar var að skrá gengi gjaldmiðilsins rétt. Að afnema það flókna kerfi millifærslna, styrkja og niðurgreiðslna í sjávarútvegi. Að afnema leyfisveitingar í innflutningi – gera innflutningsverslunina frjálsa. En eftir sem áður var því þröng takmörk sett, hversu langt var unnt að ganga í frjálsræðisátt. Fjármálakerfið var áfram ríkisrekið. Útflutningurinn var áfram í höndum einokunarfyrirtækja (SH, SÍF og SÍS). Hinni ábátasömu þjónustu við varnarliðið var áfram skipt til helminga milli fyrirtækja á vegum ráðandi flokka – Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Við þurftum enn að bíða mörg ár áður en þótti tækt í fríverslun í alþjóðaviðskiptum. Það tókst ekki fyrr en með EES-samningunum 1994.
En hverjir voru helstu hugmyndafræðingar Viðreisnarinnar? Það fer ekki milli mála, skv. frásögn Jóhannesar, í þessari bók. Þeir voru þrír: Gylfi Þ. Gíslason, hagfræðingur og formaður Alþýðuflokksins (viðskipta- og menntamálaráðherra Viðreisnarstjórnar), Jónas H Haralz, forstjóri Þjóðhagsstofnunar og Jóhannes Nordal, Seðlabankastjóri. Jóhannes skýrir frá því (bls. 371) að smá saman hafi sú regla fests í sessi að þeir þremenningarnir komu saman til fundar í Seðlabankanum vikulega til þess að ræða helstu mál á dagskrá ríkisstjórnarsamstarfsins. Einstakar tillögur þeirra um kerfisumbætur voru svo fyrirferðamiklar á fundum ríkisstjórnarinnar að Bjarni Benediktsson, þá dómsmálaráðherra, kvartaði undan því að ekkert kæmist að nema efnahagsmálin. Það er ljóst að í þríeykinu var að finna bæði hugmyndasmiði og talsmenn umbóta.
Í ljósi þeirrar spennu sem nú er ríkjandi milli Seðlabanka og aðila vinnumarkaðarins er fróðlegt að rifja upp að gengisfellingar Viðreisnarinnar í upphafi og afleiddar lífskjaraskerðingar leiddu til langvarandi verkfalla og átaka á vinnumarkaði. Öfugt við það sem vænta mátti náðist að lokum samkomulag um einskonar „lífskjarasamning“, þ.e. hóflegar launahækkanir gegn því að ríkið beitti sér fyrir risavaxinni áætlun um íbúðabyggingar (Breiðholt) á viðráðanlegu verði fyrir launafólk. Aðalsamningamaður f.h. ríkissins við verkalýðshreyfinguna um þessa lausn, var sjálfur Seðlabankastjórinn Jóhannes Nordal sem samdi við Guðmund Jaka f.h. verkalýðshreyfingarinnar. Guðmundur hefur sjálfur sagt frá því að til undirbúnings þessum samningum leitaði hann reglubundið í smiðju Finnboga Rúts Valdimarssonar sem lagði með honum á ráðin um niðurstöðuna.
Sem fyrr sagði voru því takmörk sett hversu langt Viðreisnarstjórnin gat gengið í frjálsræðisátt. Það strandaði á sérhagsmunavörslu Sjálfstæðisflokksins. Dæmi um það var hin pólitíska fyrirgreiðsla hins ríkisrekna fjármálakerfis og hið ósnertanlega landbúnaðarkerfi þar sem ríkisforsjá var fest í sessi og niðurgreiðslur auknar. Það átti eftir að líða langur tími þar til kerfisbreytingin var leidd til lykta með EES samningunum 1994.
Svo kom bakslagið: Framsóknaráratugurinn – óðaverðbólgan, sem náði hámarki í 130% verðbólgu á ársfjórðungi í ríkissstjórn Framsóknar og Alþýðubandalags undir forystu Gunnars Thoroddsen. Reyndar var áður reynt að ráða niðurlögum verðbólgunnar með því að innleiða verðtrygginguna skv. Ólafslögum 1979. Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist hafa samið þau lög við eldhúsborðið heima hjá sér. Það er reyndar nokkuð málum blandið. Sannleikurinn er sá að við Vilmundur Gylfason eyddum haustmánuðum 1978 í að setja saman frumvarpsbandorm um ráðstafanir í efnahagsmálum þar sem verðtrygging langtímafjárskuldbindinga var helsta nýmælið. Við leituðum víða fanga við að setja þetta saman en Gylfi Þ. Gíslason skrifaði greinagerðina. Þegar þingflokkur Alþýðuflokksins þorði ekki að gera bandorminn að sínum birtum við hann í Alþýðublaðinu á aðfangadag jóla. Þar með fékk Ólafur efnið upp í hendurnar en neyddist til að flytja málið sem þingmannsfrumvarp að því að hann fékk ekki stuðning ríkisstjórnarinnar. Þetta átti að vera skammtímaráðstöfun til að kveða niður verðbólgudrauginn í eitt skipti fyrir öll og bjarga lífeyrissjóðum launþega frá því að brenna á því báli. Þetta fór ekki að skila árangri fyrr en í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar 1988-1991. Þá tókst, í kjölfar þjóðarsáttar, fyrst að koma verðbólgunni niður í eins stafstölu, í fyrsta sinn. Það var reyndar þessi vinstri stjórn Steingríms sem kláraði kerfisbreytinguna, sem Viðreisnarstjórnin skildi við hálfkaraða. Það gerðist með EES samningnum sem var að mestu fullsaminn í tíð þeirrar ríkisstjórnar þótt hann tæki ekki gildi fyrr en 1994. Það eru reyndar mestu mistök sem gerð hafa verið í íslenskum stjórmálum þegar Framsókn og Alþýðubandalag hlupust undan ábyrgð sinni á EES samningunum fyrir kosningar 1991. Þar með neyddu þessir flokkar mig til að bjarga EES samningnum með því að semja við Sjálfstæðisflokkinn; tryggja stuðning hans við EES, sem hann hafði verið andvígur í stjórnarandstöðu. En verðið var að gera Davíð Oddsson að forsætisráðherra. Það var dýru verði keypt, eins og kom á daginn síðar. Steingrímur viðurkennir þessi mistök í ævisögu sinni. Stjórnmálaþróun seinni áratuga á Íslandi hefði orðið öll önnur en varð vegna þessara mistaka.
Það var um þetta leiti sem Jóhannes lét af störfum sem Seðlabankastjóri eftir að hafa gegnt því mikilvæga starfi á fjórða áratug. Er hann ánægður með árangurinn? Boðskapurinn var alla tíð að standa vörð um stöðugleika gjaldmiðilsins og að skapa fólki og fyrirtækjum traust og fyrirsjáanlegt efnahagsumhverfi til frambúðar. Ég læt lesandanum eftir að dæma um hvernig til hefur tekist.
En Jóhannes getur þakkað sínum sæla fyrir, að hann ber enga ábyrgð á hruninu sem sópaði burt eftirmönnum hans úr stjórnarráði og Seðlabanka í fyllingu tímans.