ÁRSHÁTÍÐ FRAMTÍÐARINNAR, 14. FEB. 2007: FÍLABEINSTURN EÐA FRAMLEGÐARFORRIT?

Ég var mættur í fyrsta tíma í sögu iðnbyltingarinnar í hagfræðideild Edinborgarháskóla ásamt með öðrum stúdentum víðs vegar að úr heiminum. Kennarinn var grallaralegur sláni frá Írlandi, margvís og meinhæðinn. Hann spurði þá sem þarna voru saman komnir, hvort þeir hefðu lært einhverja sögu áður.

1.
Innfæddir höfðu sumir lært sögu Breska heimsveldisins. Einhverjir sunnan landamæranna úr klassiskum enskum skólum höfðu lært um Hellas og Róm. Strákur frá Jamaíku hafði lesið sögu konkvistadoranna, þ.e. sögu spænskrar nýlendukúgunar í Suður Ameríku. Útlægur Armeni hafði lært sögu Ottomanheimsveldisins fram að falli þess með Ataturk.
Smám saman kom á daginn, að menn höfðu numið sagnfræðilegan bútasaum héðan og þaðan og frá ýmsum tímum. Þegar röðin kom að Íslendingnum, var enskan mér þá ekki tamari á tungu en svo, að ég þýddi orðrétt af hinu ástkæra ylhýra: “ I have studied Icelandic History and the General History of Mankind”. Við þessi orð tók Írinn bakföll af hlátri. Hann spratt upp úr sæti sínu fyrir enda borðsins, hneigði sig djúpt fyrir mér og gaf mér til kynna með stórkarlalegri sveiflu að setjast í sætið hans og taka við – um leið og hann sagði: “Loksins, loksins, þér eruð maðurinn, sem við höfum öll verið að bíða eftir”.

Lesa meira

HROKI OG HEIGULSHÁTTUR

Það mun vera leitun á byggðu bóli á Íslandi, þar sem mannanna verk eru jáfnólundarlega upp á kant við sköpunarverk náttúrunnar og Mosfellsbær. Það þarf ekki að príla hátt í hlíðar Helgafells til að skynja búsæld Reykja- og Mosfellsdals. Þar hefur verið víða gott undir bú. Varmá og Leirvogsá liðast um blómlegt undirlendið. Útsýnið er fagurt og fjallasýn háleit. Við erum hérna á fornum söguslóðum.

Í samanburði við þetta sköpunarverk náttúrunnuar verður að játa, í nafni sannleikans, að mönnunum hafa verið mislagðar hendur við að reisa sín mannvirki í sátt við umhverfið. Þjóðvegurinn – Vesturlandsvegur – klýfur byggðalagið í tvennt. Út um bílrúðuna blasir við vegfaranda kjarni vaxandi bæjarfélags: Kentucky Fried Chicken, Esso-bensínstöð (með samráði) og amrísk vídeóspóluleiga. Hraklegra getur það varla verið. Þetta er eins og sýnishorn um sjónmengun. Hvaða mannvitsbrekkur voru það, sem hugkvæmdist að hrinda hugmyndum sínum um mannlegt samfélag í framkvæmd með þessum hætti? Amrísk bílaborg þar sem þú fyllir tankinn og hámar í þig ruslfæðið inn um bílgluggann og pikkar upp innantóma afþreyingarspólu um leið og þú forðar þér burt af staðnum. Er þetta ekki síðbúin hrollvekja um Mr. Skallagrímsson in the deep south?

Lesa meira

MAGNÚS MAGNÚSSON – MINNING

Að áliðnu hausti árið 1958 – fyrir hartnær hálfri öld – strukum við Bryndís einn góðan veðurdag í dagrenningu um borð í gamla Gullfoss. Við stungum af frá foreldrum og aðstandendum á vit frelsisins. Ég var á leið til Edinborgar að læra til forsætisráðherra. Hún var á leið til Parísar að nema frönsku og lífskúnst. Leiðir okkar skildi í Leith, hinni lágreistu hafnarborg höfuðborgar Skotlands.

Þegar við gengum frá borði niður landganginn, beið þar mikilúðlegur maður og dreif okkur inn í amríska límúsínu, eins og um opinbera heimsókn væri að ræða. Þessi höfðingi hét Sigursteinn Magnússon, umboðsmaður SÍS í Evrópu og ræðismaður íslenska lýðveldisins á Skotlandi. Hannibal hafði þá haft spurnir af laumufarþegum um borð í Gullfossi og beðið gamlan glímufélaga sinn frá Akureyri að líta til með þeim.

Lesa meira

UM TJÁNINGARFRELSI Í RÉTTARRÍKI”SÁ YÐAR SEM SYNDLAUS ER……..”

Þann 18. október 2006 krafðist Jón Magnússon, hrl. þess, f.h. niðja Sigurjóns Sigurðssonar, f.v. lögreglustjóra, að ákæruvaldið höfðaði opinbert mál gegn Jóni Baldvini fyrir að hafa í sjónvarpsviðtali kallað Sigurjón Sigurðsson “lögreglustjórann alræmda”. Viðtalið var í tengslum við umfjöllun um leynilegar hleranir á símum ráðamanna á öldinni sem leið.
Með bréfi þann 1. mars s.l. vísaði ríkissaksóknari umræddri kröfu frá og vitnaði um rökstuðning til málsvarnarskjals Jón Baldvins. Þar sem málið varðar grundvallarsjónarmið um tjáningarfrelsi í réttarríki, á málsvarnarskjalið erindi við þá, sem láta sig tjáningarfrelsi varða.

1.

Ég vísa því á bug, að ég hafi gert mig sekan um ærumeiðandi ummæli um látinn föður kærenda, Sigurjón Sigurðsson, fv. lögreglustjóra.

Lesa meira

SALKA VALKA Í SAMFYLKINGUNNITELPAN FRÁ STOKKSEYRI

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir: Stelpan frá Stokkseyri –
Saga Margrétar Frímannsdóttur, 367 bls..
Bókaútgáfan Hólar, 2006

Þetta er sagan um Sölku Völku í sjávarplássinu, sem settist inn á þing. Sjávarplássið er Stokkseyri, og þessi Salka heitir reyndar Margrét Frímannsdóttir. Mamma hennar var einstæð móðir. Hún hafði smitast af berklum og gat því ekki á þeim tíma annast um dóttur sína og séð þeim báðum farborða. Stúlkan ólst því upp hjá fósturforeldrum sínum á Stokkseyri. Þrátt fyrir lítil efni er bjart yfir bernskuárum í sjávarplássinu. Að íslenskum sið ganga börnin þar að mestu sjálfala. Þau búa við frelsi, en verða snemma að taka þátt í lífsbaráttu hinna fullorðnu. Það er að lokum sá agi, sem kemur að utan.

Hún nýtur takmarkaðrar skólagöngu. Lýkur þó skyldunni og gott betur. Hún giftist snemma sjóara úr plássinu, sextán ára gömul, og byrjar að búa. Hún er lítt skólagengin, tveggja barna móðir og vinnur í fiski. Þetta gæti svo sem verið sagan öll. En hún er fórnfús og hjálpsöm og vill leggja öðrum lið, enda alin upp í þeim anda. Hún virðist hafa veikst af hinni pólitísku veiru, nánast frá blautu barnsbeini, enda Björgvin frændi formaður verkalýðsfélagsins á staðnum í marga áratugi. Hún hefur sterka réttlætiskennd. Það þýðir að vera til vinstri. Á Stokkseyri þýddi það á þessum tíma að vera í Alþýðubandalaginu.

Lesa meira

VITJUNARTÍMI

Kosningaúrslitin 1978 – fyrir tæpum 30 árum – voru eins og pólitískur jarðskjálfti, a.m.k. 7.5 á Richter. Það skalf allt og nötraði. Hefðbundin helmingaskiptastjórn Sjálfstæðisframsóknarflokksins var við völd, þá sem nú. Stjórnmálaforystan í landinu bar sýnileg þreytumerki, eftir að hafa hjakkaði í sama farinu árum saman, án árangurs. Undir niðri kraumaði óánægja, sem braust upp á yfirborðið í kosningunum. Tvíflokkur helmingaskiptanna galt afhroð. A-flokkana vantaði aðeins þrjá þingmenn í starfhæfan meirihluta. Það þótti næstumþví bylting. Kosningaúrslitin voru krafa um breytingar. En skilaboð nýrrar kynslóðar komust ekki til skila. Stjórnmálaforystan var ekki vandanum vaxin. Sjáandi sá hún ekki og heyrandi heyrði hún ekki. Þess vegna fór sem fór. Tómt klúður.

Ung kynslóð og óþreyjufull var að hasla sér völl í aðdraganda þessara kosninga. Þar fór fremstur í flokki Vilmundur Gylfason. Hann hafði allt aðra sýn á þjóðfélagið en þeir kerfiskallar, sem sátu á fleti fyrir og vörðu sérhagsmuni hins pólitíska samtryggingarkerfis af gömlum vana. Þeir skildu varla, hvað var á seyði. Ef krafan var ekki um frjálsar ástir, þá var hún a.m.k. um opin prófkjör, frjálsa fjölmiðla, beint kjör forsætisráðherra, vinnustaðasamninga um kaup og kjör, frjálsan opnunartíma verslana (og svokallaðra skemmtistaða) og sitt hvað fleira. Þetta hljómaði róttækt og þar af leiðandi hættulegt. En kerfið varð klumsa. Það stóð þetta áhlaup af sér. “Arkitekt kosningasigursins” var settur utan garðs. Og lífið hélt sinn vanagang.

Lesa meira

MAÐUR AÐ MEIRI

Morgunblaðið skýrir lesendum sínum frá því á forsíðu 22. okt. s.l. í heimsfréttarstað, að sá grunur hafi “læðst að” formanni Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde, að óprúttnir aðilar reyni að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn almennt og sér í lagi vin hans og vopnabróður, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, vegna prófkjörs flokksins nú um helgina.Samkvæmt fréttinni varaði formaðurinn söfnuð sinn við þessum óprúttnu aðilum og skoraði á Sjálfstæðismenn að slá skjaldborg um hinn höfuðsetna dómsmálaráðherra. Var helst á formanninum að skilja, að ekki mundi af veita, enda þess skemmst að minnast, að dómsmálaráherrann reið ekki feitu hrossi frá atlögu sinni að Reykjavíkurlistanum og Ingibjörgu Sólrúnu, borgarstjóra um árið, þrátt fyrir dyggilegan stuðning þáverandi formanns.

En hverjir eru þessir “óprúttnu aðilar”? Sem betur fer þarf ekki lengi að leita þeirra, því að þeir hafa ekki séð ástæðu til að fara huldu höfði. Þeir eru Þór Whitehead, sagnfræðingur, Andri Óttarsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og Borgar Þór Einarsson, formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS). Það verður að segja þessum mönnum til hróss, að þeir sigla ekki undir fölsku flaggi og vega ekki úr launsátri, eins og hlerunarsérfræðingar leyniþjónustunnar vega að fórnalömbum sínum. Óhróðursmenn koma sjáldan fram undir fullu nafni, eins og þeir vita manna best í Valhöll.

Lesa meira

ATHAFNASKÁLD Á ALÞINGI

Frægasti konsertpíanisti Pólverja á fyrri hluta seinustu aldar hét Paderevski. Þegar pólska ríkið var endurreist við lok fyrra stríðs, vildu Pólverjar virkja frægðarljóma tónsnillingsins sér til framdráttar, og gerðu hann að fyrsta forseta hins endurreista ríkis. Sem slíkur mætti Paderevski f.h. Pólverja á friðarráðstefnuna í Versölum til fundar við aðra þjóðaleiðtoga. Þegar hann var kynntur fyrir Clemenceau, forsætisráðherra Frakka, heilsaði forsætisráðherrann honum virðulega, en sagði síðan með votti af franskri kaldhæðni: “Aha, tónlistarsnillingur orðinn að pólitíkus – er þetta ekki mikil lækkun í tign?”

Víst er það, að tónlistin er æðst allra listgreina. Hún er eina tungumálið, sem mannkynið á sameiginlegt þvert á þjóðerni og landamæri. Í samanburði við tónlistina er pólitíkin – list hins (ó)mögulega – lítillát aukabúgrein. Samt hefur tónlistin á stundum blómstrað í skjóli upplýstra stjórnvalda. Hið eiginlega stórveldistímabil Þýskalands er kennt við Bach og Beethoven fremur en við Bismark.

Lesa meira

VIÐ BROTTFÖR HERSINS: SJÁLFSTÆÐ UTANRÍKISSTEFNA?

Brottför bandaríska hersins af íslandi þann 30. sept. s.l. markar tímamót í Íslandssögunni. Vera hersins á Íslandi klauf þjóðina þegar í tvær andstæðar fylkingar. Samkomulag núverandi ríkisstjórnar við Bandaríkjastjórn um það sem við tekur er, að mati greinarhöfundar, ekki frambúðarlausn. Samkomulagið vekur í reynd fleiri spurningar en það svarar um öryggismál þjóðarinnar í framtíðinni.

Brottför hersins markar þáttaskil. Við erum nú að byrja nýjan kafla í Islandssögunni. Íslendingar þurfa að taka öryggis- og varnarmál þjóðarinnar í framtíðinni til gegngerrar endurskoðunar. Ytri aðstæður og viðhorf í heimsmálum eru nú öll önnur en var, þegar núverandi fyrirkomulag var mótað. Nú þurfum við sameiginlega að leita svara við þeirri spurningu, hvar Íslendigar eigi heima í fjölskyldu þjóðanna í framtíðinni að loknu köldu stríði andstæðra hugmyndakerfa. Þau Bandaríki,sem nú bjóða heiminum birginn, eru öll önnur en þau, sem voru “vopnabúr lýðræðisins” á árum seinni heimsstyrjaldar. Samrunaferlið í Evrópu hefur gerbreytt heimsmyndinni í okkar heimshluta. Í ljósi þessara og annarra breytinga í umhverfi okkar, þurfum við nú að hugsa ráð okkar upp á nýtt. Þeirri umræðu verður ekki slegið á frest. Þessi grein, og önnur í framhaldinu, eru framlag höfundar til til þeirrar umræðu.

Lesa meira

BROTTFÖR HERSINS: ÍSLAND OG BANDARÍKIN, EIGUM VIÐ SAMLEIÐ?:

Þann 15. mars s.l. tilkynntu bandarísk stjórnvöld einhliða þá ákvörðun sína að binda endi á veru varnarliðsins hér á landi eftir um sex áratuga nær óslitna dvöl í landinu. Eftir sátu þáv. forsætis- og utanríkisráðherrar Íslands, vígsnautarnir úr Írakstríðinu furðu lostnir og vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Þeir höfðu reynt að telja sjálfum sér og öðrum trú um að samningaviðræður væru í gangi, á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Allt í einu stóðu þessir menn uppi eins og glópar frammi fyrir orðnum hlut. Þeir höfðu gert sig seka um rangt stöðumat, óleyfilega trúgirni og dómgreindarbrest.

Einhliða ákvarðanir Bandaríkjastjórnar.

Hið ranga stöðumat fólst í því að loka augunum fyrir því að ákvörðunin var fyrir löngu tekin í Pentagon um heimkvaðningu varnarliðsins. Trúgirnin birtist í því að þessir menn héldu, að þeir væru teknir alvarlega í samningaviðræðum. Svo reyndist ekki vera. Dómgreindarbrestur má það heita að beita hótunum – um uppsögn varnarsamningsins – en standa svo ekki við það, þegar á reyndi. Hótunin reyndist marklaus. Núverandi forsætisráðherra bætti ekki úr skák þegar hann lýsti því yfir, að í varnarmálum ættu Íslendingar “ekki annarra kosta völ” en að leita á náðir Bandaríkjamanna. Það var ekkert “plan-B,” frekar en í Írak. Þar með eyðilagði hann samningsstöðu sína.

Lesa meira