Jón Baldvin hefur orðið:
Þessi súrrealiska sviðsmynd átti sér stað í veðurblíðunni hérna á torginu í gær.
Við Bryndís vorum að bjóða hana Önnu, vinkonu Kolfinnu frá Úkraínu, velkomna frá hörmungum stríðsins – griðastund. Það var Pálmasunnudagur og margt um manninn í hátíðarskapi á torginu. Sól og blíða. Allt í einu tökum við eftir því, að ókunnugur maður í viðhafnarklæðum birtist á torginu og stefndi beint að okkur. Hann gengur hægum en virðulegum skrefum að borðinu og einblínir festulega á okkur – þ.e.a.s að Bryndísi. Smám saman áttum við okkur á því, að maðurinn er að syngja eitthvað. „Volare – uh, uh, uh – cantare – uh,uh,uh. Allt í einu rennur upp fyrir okkur, að þetta er vinsæll, ítalskur slagari, frá sjöunda áratug seinustu aldar. Við gátum meira að segja tekið undir viðlagið. Það var af því, að hann Púlli, bekkjarbróðir okkar, sem stúdereraði arkitektur í Róm, gerði það að gamni sínu að þýða texta vinsælla ítalskra dægurlaga og senda Hauki Mortens. Sá kunni gott að meta og söng þetta á Borginni við góðar undirtektir. En – hvers vegna var maðurinn að raula þetta yfir okkur og hafði ekki augun af Bryndísi á meðan? Allt í einu rann það upp fyrir mér, að maðurinn var rígfastur – í miðju stórveldistímabili ítalskra kvikmynda milli fimmtíu og sextíu á liðinni öld. Það var þegar Fellini og Antonioni gerðu garðinn frægan,og prímadonnur þeirra öðluðust heimsfrægð: Anna Magnani, Gina Lolobrigida og Soffía Loren urðu heimagangar í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Maðurinn sá á svipstundu, að þarna sat ein af þeim. Hann gat bara ómögulega munað, í hvaða mynd hún hafði leikið!
Þegar maðurnn var á bak og burt, staðfesti þjónninn, að afi hans hefði sagt honum, að sá gamli hefði verið stjarna á sínum tíma – eins konar Haukur Mortens Ítalíu. Hann birtist okkur þarna eins og afturganga frá liðinni tíð – glæsiskeiði, sem aldrei kemur aftur.