Ritað dagana sem heimsókn forseta, ráðherra og borgarstjóra Eystrasaltríkjanna stóð yfir í Reykjavík, þann 25.8. – 27.8.2022
- Jón Baldvin var hunsaður frá upphafi.
Ég man það eins og það hefði gerst í gær. Þetta var um miðja nótt í janúar 1991. Niðamyrkur allt um kring. Og síminn hringdi. Kunnugleg rödd sagði: „Jón Baldvin, nú er stundin runnin upp. Þetta er neyðarkall frá Vilníus.“ Þessa rödd átti Vytautas Landsbergis, forseti Þjóðþingsins í Vilníus. Honum var mikið niðri fyrir. Ég heyrði hvert orð sem hann sagði: „Rússarnir hafa ákveðið að láta til skarar skríða“. Ég man, að það fór um mig hrollur við tilhugsunina – Rússarnir – til skarar skríða!
„Þú verður að koma strax – nærvera NATO-ráðherra skiptir máli. En enginn þeirra hefur svarað ákalli mínu“.
Þessir örlagaríku dagar í Litáen í janúar 1991, þegar farsímar og tölvur voru enn óþekkt fyrirbæri, heyrði ég ekkert í manninum mínum, frá því hann kvaddi mig með kossi um niðdimma nótt og þar til hann sneri til baka – heill á húfi – sjö dögum seinna.
Lesa meira