Ég laðaðist ósjálfrátt að Dóru. Hún var gömul sál í ungum líkama, vitrari en við hinar, æðrulaus þegar eitthvað bjátaði á.
Lesa meiraDóra Jakobsdóttir Guðjohnsen, minning
Dóra kom óvænt inn í líf mitt, þegar ég var bara sextán og nýsloppin inn í MR – Lærða skólann í Reykjavík – feimin og hlédræg. Hún var hávaxin, grannholda, laus við allt tildur og full sjálfstrausts. Hún var satt að segja allt öðruvísi en flestar hinar stelpurnar í bekknum, bæði frumleg í hugsun, skemmtilega sérviskuleg og býsna fyndin þegar vel lá á henni. Og ekki skorti hana sjálfstraustið. Hún leyfði sér jafnvel að sproksetja kennarann, sem gerði því skóna að við værum bara komnar í MR sem biðsal hjónabandsins, í leit að hinum rétta – eða þá til að ná máli sem flugfreyjur í háloftunum!