Til minningar um Hallgrím Svein Sævarsson

Hann kom hingað að Álfhóli þann 13. september síðastliðinn, daginn sem bókin mín – Brosað gegnum tárin, – kom út. Húsið var fullt af fólki. Allir í góðu skapi.

Ég hafði aldrei séð hann áður, en oft talað við hann í síma. Ég vissi, að hann var ljóðelskt tónskáld, sem átti sér þann draum að gera ljóðin ódauðleg, sveipuð fögrum tónum, sem komu úr hans eigin hugarheimi. Hann hafði næmt eyra, vissi hvað hann vildi – ekki endilega ljóð – heldur bara fallegan texta. Og hann langaði til að koma í heimsókn. En við vorum stödd á fjarlægri strönd, og hann átti ekki heimangengt.

Svo stóð hann allt í einu þarna við útidyrnar, klæddur gamalli úlpu og gatslitnum skóm, sem hann fór úr og setti undir fatahengið. Hann þurfti ekki að kynna sig, ég þekkti hann strax og bauð hann velkominn. Hann skar sig úr hópi gesta, svo umkomulaus og einmana í mannfjöldanum. Frá honum stafaði mikil hlýja, og hann horfði á mig stórum barnsaugum, með úfið hár og framréttar hendur. Í höndum hans voru tveir litlir útskornir og undurfagrir fuglar – himbrimi og hrafn. „Þeir eru fyrir þig“, sagð‘ann, „í tilefni dagsins“.

Þessir fallegu fuglar fengu strax pláss innan um bækur og kerti í stofunni. Þeir bera af öðrum fuglum, bæði innan dyra og utan, fíngerir og gljáandi – garga aldrei, gera engar kröfur. Rétt eins og þessi ungi maður, sem missti af rútunni um kvöldið og fékk að hvílast hjá okkur þessa nótt.

Hann verður mér ógleymanlegur í einsemd sinni.