„Tvær plágur hafa riðið yfir þetta land. Helvítis minkurinn – og helvítis kommúnisminn“.
Þetta voru fyrstu orðin sem Ellert gamli, skútuskiptstjóri í hálfa öld, beindi til mín, þegar ég var leiddur fyrir ættarhöfðingjann í fyrsta sinn. Það var haft fyrir satt, að hann væri svo forhertur íhaldsmaður, að við eldhúsdag frá Alþingi þaggaði hann niður í öllum öðrum en Ólafi Thors. Ellert mágur minn – elsti bróðir Bryndísar – bar nafn ættarhöfðingjans, afa síns.
Ellert var atgervismaður rétt eins og afi. Hann fetaði snemma í fótspor föður síns og varð fræknasti knattspyrnumaður í röðum samtímamanna sinna. Hann gerði garðinn frægan með gullaldarliði KR.
KR var hans alma mater, uppeldisstöð, þjálfunarbúðir og fótgöngulið, þegar á reyndi (í prófkjörum) síðar á lífsleiðinni. Þaðan lá greið framabraut gegnum Heimdall, S.u.S, lagadeildina og inn á Alþingi, þar sem hann tók sæti yngstur þáverandi þingmanna. Til er mynd af honum og Hannibal – þeim yngsta og þeim elsta á þingi. Leiðin framundan virtist bein og breið til áhrifa og valda.
Lesa meira