Eftir Jón Baldvin Hannibalsson
THOMAS PIKETTY, franski hagfræðingurinn víðfrægi, hefur svarað spurningunni: Hvers vegna hefur hinn hnattvæddi kapitalismi valdið sívaxandi ójöfnuði innan hinna þróuðu samfélaga samtímans? Hann hefur birt niðurstöðurnar í tveimur öndvegisritum: Capital in the 21st Century og Capital and ideology. Hann og samstarfsmenn hans hafa rannsakað fjallháa bunka af upplýsingum um efnið,sem leynast í hagtölum hinna þróuðu ríkja Evrópu og Ameríku seinustu tvær aldir. Svarið er að finna í eftirfarandi jöfnu:
r > g
Þetta þýðir í mæltu máli: Fjármagnstekjur – hagnaður, arður, vextir, leigutekjur o.s.frv. eru hærri en hagvöxtur til lengri tíma. Þetta þýðir, að kapitalisminn hefur innbyggða tilhneigingu til að safna auði á fáar hendur. Staðreyndir sýna, að samþjöppun auðs og fjármagnstekna í höndum fámennrar elítu fjármagnseigenda hefur aftur náð himinhæðum til jafns við það sem var upp úr fyrra stríði, í aðdraganda heimskreppunnar miklu milli 1930-40. Þetta hefur gerst í kjölfar valdatöku Reagans/Thatchers um 1980, á tímabili nýfrjálshyggjunnar, sem kennd er við Hayek/Friedman. Á þessu tímabili leysti nýfrjálshyggjan hið félagslega markaðskerfi af hólmi, en gullöld þess var upp úr seinna stríði fram undir 1980. Það var líka gullöld jafnaðarstefnunnar, því að lífskjör almennings fóru ört batnandi, hagvöxtur var ör, kreppur heyrðu til undantekninga og jöfnuður eigna- og tekjuskiptingar fór vaxandi.
Lesa meira