JÓHANNESARGUÐSPJALL (hið nýja)

Lifað með öldinni, endurminningar Jóhannesar Nordal, er þrekvirki, enda þrettán ár í smíðum. Sjálfur er höfundurinn að nálgast 100 ára afmælið. Þetta er stjórnmála- og hagsaga Íslands á 20stu öld. Hvað ætli Jóhannes hafi lifað af marga forsætis- og fjármálaráðherra á sinni tíð? En alltaf blífur Jóhannes – okkar útgáfa af hinum menntaða einvalda.

Honum dvaldist við námið í London, m.a. vegna þess að hann smitaðist alvarlega af berklum og var vart hugað líf. Ætli sú lífsreynsla hafi ekki eflt hann að viti og þroska? Að lokinni þessari eldskírn lukust dyr Landsbankans upp fyrir honum. Landsbankinn var þá líka seðlabanki með einkarétt á seðlaprentun. Hann var Seðlabankastjóri á 4ða áratug – heimsmet, ekki satt?

BRAUTRYÐJANDI

Hann ruddi brautina á fleiri sviðum. Hann var hinn eiginlegi stjórnarformaður Íslands. Formaður stóriðjunefndar. Stofnandi Landsvirkjunar. Samningamaður ríkisins við sérfræðinga fjölþjóðlegra auðhringa sem vildu nýta ríkulegar orkulindir íslendinga. Jóhannes stýrði samningunum fyrir okkar hönd, bæði um orkuverð og skattgreiðslur.

Um leið var hann arftaki föður síns sem einskonar menningarpáfi. Stjórnarformaður vísindasjóðs – bæði hug- og raunvísinda. Útdeildi styrkjum. Stóð fyrir útgáfu fornrita. Sat í stjórn Almenna bókafélagsins. Það var stofnað til að andæfa fyrirferð Moskvuhollra kommúnista í menningarlífinu. Vann með Ragnari í Smára við að vekja menningarritið Helgafell aftur til lífsins. Áhrifa hans gætti víða – ekki síst bak við tjöldin.

Um hvað snýst þetta? Þetta snýst um pólitík og hagstjórn – þetta tvennt sem ekki verður sundur skilið. Með hvaða veganesti snéri hann heim? Hugmyndafræðistríðið um hvers konar þjóðfélag geisaði á þessum árum í elítuháskólunum bresku: Óbeislað markaðskerfi (auðræði) eða blandað hagkerfi þar sem markaðurinn lyti samfélagslegri stjórn. Hayek hélt því fram að ríkisafskipti væru ævinlega af hinu illa og enduðu í alræði.

Keynes sýndi fram á að markaðurinn leiðrétti sig ekki sjálfur. Hann yrði að lúta samfélagslegri stjórn í lýðræðisríki, sem vildi halda uppi fullri atvinnu og stemma stigu við miskiptingu auðs og tekna. Keynes vs. Hayek? Hvorum fylgdi Jóhannes að málum? Jóhannes segist sjálfur hafa verið flokksbundinn í breska verkamannaflokknum. Ég les það milli línanna að Jóhannes hafi verið einhvers konar hægri krati.

HUGMYNDAFRÆÐINGAR VIÐREISNARSTJÓRNARINNAR

Þungamiðjan í þessu mikla ritverki Jóhannesar er frásögn hans af Viðreisnarstjórninni, ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks (1959-1971) – þrjú kjörtímabil. Viðreisnarstjórnarinnar er minnst fyrir það að hún gerði tilraun til „kerfisbreytingar“. Allt fram að þeim tíma höfðu íslendingar, nánast einir þjóða í V-Evrópu, viðhaldið hafta- , skömmtunar- og leyfisveitingakerfi kreppuáranna. Þetta var einskonar blanda af hálfsovésku ríkisforsjárkerfi og suður-amerískum „vensla-kapítalisma“ (hvorttveggja spillt fyrirgreiðslukerfi).

Sjálftæðisflokkurinn hafði setið í öllum ríkisstjórnum frá árunum 1944-1956 eða m.ö.o. í meira en áratug eftir stríð. Þetta var flokkur sem boðaði einkaframtak, markaðslausnir og lágmarksríkisafskipti af efnahagslífinu. Reynslan af þátttöku flokksins, einnig þar sem hann fór með stjórnarforystu, var hinsvegar þveröfug á við það sem hann boðaði.

Það er á þessum árum sem „helmingaskiptareglan“ verður grundvallarregla íslenskrar stjórnsýslu. Ríkisafskipti á öllum sviðum voru allsráðandi. Ráðandi flokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, neyttu aðstöðu sinnar í ríkisstjórn til að skipta flestum gæðum milli sín á áhrifasvæðum, annars vegar kennt við einkaframtak en hitt við SÍS.

Fjármálakerfið var ríkisrekið. Bankastjórar voru pólitískt ráðnir. Innflutningur var háður leyfum og einokunarfyrirtæki í tengslum við flokkana réðu útflutningnum. Shell tilheyrði íhaldinu, en Esso SÍS. Gróðanum af hermanginu var skipt milli verktakafyrirtækja flokkanna. Mannaráðningar í opinbera kerfinu fóru eftir flokksskírteinum. Lánveitingar og lóðaúthlutanir sömuleiðis.

„KERFISBREYTING“

Gengi þjóðargjaldmiðilsins var pólitískt ákveðið. Undir lokin kvað svo rammt að ríkisforsjánni að einstaka tegundir útgerðar bjuggu við sérstaka gengisskráningu og nutu styrkja eða niðurgreiðslna til að halda sér á floti. Þegar allt var komið í óefni og samkeppnishæfni útflutningsins þrotin, var gengið fellt eftir þörfum. Efnahagslífið gekk í rykkjum og skrikkjum. Pólitíkin snerist um að redda hlutunum á seinustu stundu.

Viðreisnarstjórnin markaði tímamót að því leyti, að hún reyndi að uppræta þetta ófremdarástand. Hún boðaði kerfisbreytingu. Grundvallaratriðið var að skrá gengi gjaldmiðilsins rétt. Að afnema þetta flókna kerfi millifærslna, styrkja og niðurgreiðslna. Að afnema leyfisveitingar í innflutningi – gera innflutningsverslunina frjálsa.

En eftir sem áður var því þröng takmörk sett, hversu langt var unnt að ganga í frjálsræðisátt. Það strandaði á Sjálfstæðisflokknum. Fjármálakerfið var áfram ríkisrekið. Útflutningurinn var áfram í höndum einokunarfyrirtækja (SH, SÍF og SÍS). Við þurftum enn að bíða mörg ár áður en Ísland þótti tækt í fríverslun í alþjóðaviðskiptum. Það tókst ekki fyrr en með inngöngunni í EFTA (1970) og loks endanlega með EES-samningnum 1994.

ÞRÍEYKIÐ

En hverjir voru helstu hugmyndafræðingar Viðreisnarinnar? Það fer ekki milli mála, skv. frásögn Jóhannesar, í þessari bók. Þeir voru þrír: Gylfi Þ. Gíslason, hagfræðingur og formaður Alþýðuflokksins (þáverandi viðskiptaráðherra), Jónas H Haralz, forstjóri Þjóðhagsstofnunar og Jóhannes Nordal, Seðlabankastjóri. Jóhannes skýrir frá því (bls. 371) að þeir þremenningarnir hafi komið saman til fundar í Seðlabankanum vikulega til þess að ræða helstu mál á dagskrá ríkisstjórnarsamstarfsins. Einstakar tillögur þeirra um kerfisumbætur voru svo fyrirferðamiklar á fundum ríkisstjórnarinnar að Bjarni Benediktsson, þá dómsmálaráðherra, kvartaði undan því að ekkert kæmist að nema efnahagsmálin. Það er ljóst að í þríeykinu var að finna bæði hugmyndasmiði og talsmenn kerfisbreytinga.

VERÐBÓLGUÁRATUGIRNIR

Svo kom bakslagið: Framsóknaráratugurinn – óðaverðbólgan, sem náði hámarki í 130% verðbólgu á ársfjórðungi í ríkisstjórn Framsóknar og Alþýðubandalags undir forystu Gunnars Thoroddsen. Eilífðarglíman við verðbólguna fór ekki að skila árangri fyrr en í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar (1988-1991). Þá tókst, í kjölfar þjóðarsáttar, fyrst að koma verðbólgunni niður í einstafstölu. Það var reyndar þessi vinstri stjórn Steingríms sem kláraði kerfisbreytinguna, sem Viðreisnarstjórnin skildi við hálfkaraða. Það gerðist með EES samningnum, sem var að mestu fullsaminn í tíð þeirrar ríkisstjórnar.

Það eru reyndar einhver mestu mistök sem gerð hafa verið í íslenskum stjórnmálum þegar Framsókn og Alþýðubandalag hlupust undan ábyrgð á EES samningnum fyrir kosningar 1991. Þar með neyddu þessir flokkar mig til að bjarga EES samningnum með því að semja við íhaldið; til að tryggja stuðning Sjálfstæðisflokksins við EES, sem hann hafði verið andvígur í stjórnarandstöðu. En verðið var að gera Davíð Oddsson að forsætisráðherra. Það var dýru verði keypt, eins og síðar kom á daginn. Steingrímur viðurkennir þessi mistök í ævisögu sinni. Stjórnmálaþróun seinni áratuga á Íslandi hefði orðið öll önnur en varð – ef ekki hefði verið fyrir þessi mistök.

Það var um þetta leyti sem Jóhannes Nordal lét af störfum sem Seðlabankastjóri eftir að hafa gegnt því mikilvæga starfi á fjórða áratug. Er hann ánægður með árangurinn? Boðskapurinn var alla tíð sá sami: Að standa vörð um stöðugleika gjaldmiðilsins og að skapa fólki og fyrirtækjum traust og fyrirsjáanlegt efnahagskerfi til frambúðar. Ég læt lesandanum eftir að dæma um hvernig til hefur tekist. En Jóhannes getur þakkað sínum sæla fyrir, að hann ber enga ábyrgð á Hruninu, sem sópaði eftirmönnum hans burt úr Seðlabanka og stjórnarráði, loksins þegar nýfrjálshyggjutilraun Eimreiðarklíkunnar með Ísland brotlenti.