Minning: Matthías Johannessen    

13.03.24

                                                                                                           

Matthías setti sterkan svip á samtíð sína. Reyndar lengur en flestir sem eitthvað kvað að. Ristjórnarferill hans og Styrmis Gunnarssonar á Morgunblaðinu í meira en hálfa öld var stórveldistímabil blaðsins. Þeir voru eins ólíkir og dagur og nótt. Hvor um sig hafði sinn garð að rækta. Þegar þeir lögðu saman var fátt um varnir.

Matthías gekk til liðs við Morgunblaðið þegar Kalda stríðið stóð sem hæst. Þjóðin skiptist í öndverðar fylkingar. Það lá við borgarastyrjöld á Austurvelli. Þar gekk Matthías fremstur í flokki og dró hvergi af sér. Hann var harður í horn að taka og fékk það óþvegið til baka.

En það lýsir manninum betur en flest annað að þrátt fyrir erjur í pólitík þá skildi hann mæta vel – og kunni að meta – sjónarmið og mannkosti andstæðinga sinna. Hann átti stóran þátt í því að sætta sinn helming þjóðarinnar við hina rauðu penna byltingarinnar. Hann kunni að meta snilligáfu manna eins og Halldórs Kiljan og Þórbergs og fann til andlegs skyldleika við þá – þrátt fyrir allt.

Það var í þessum anda sem hann og Styrmir breyttu Morgunblaðinu úr hatrömmu flokksmálgagni í opinn vettvang þjóðmálaumræðu. Það fór ekkert á milli mála, hver ritstjórnarstefna Moggans var. En í anda Voltaire, voru þeir reiðubúnir að berjast fyrir rétti okkar hinna til að vera ósammála. Þar með skreiddumst við upp úr skotgröfum Kalda stríðsins. Inn í nútímann – slíkur sem hann nú er.

Lesa meira

Brynjólfur Jónsson, minning

Það lék allt í höndunum á honum Binna. Ef hann settist við píanóið, hljómaði lagið fyrr en varði. Hann lærði aldrei að lesa nótur. Þetta var bara meðfætt. Hann var líka eini maðurinn, sem ég þekkti, sem hafði próf upp á það, að hann kynni að gera við saumavélar. Það lék sem sé allt í höndum hans.

Einhvers staðar stendur skrifað: „Vertu trúr yfir litlu, og ég mun setja þig yfir mikið“.Þannig var það með hann Binna. Allt í einu var hann floginn til Vesturheims – nánar tiltekið Tulsa, Oklahoma – til þess að læra að gera við flugvélar. Eftir það hvarf hann sjónum okkar löngum. Hans aðalstarfi var að halda risaþotum gangandi í millilandaflugi. Af því leiddi, að heimurinn varð hans vinnustaður: frá Íslandi til Ameríku (Oklahoma, Lousiana, Connecticut, Maryland, New York og víðar); til Evrópu (Belgía og Spánn), til Mið-Austurlanda og í Afríku. Þar vann hann lengst af í Nígeríu.

Lesa meira

Ámundi Ámundason, minning

Ámi var sonur einstæðrar móður.  Hann ólst upp í verkamannabústöðunum í Holtunum. Og fór að vinna fyrir sér og sínum fyrir fermingu. Hann lærði því af reynslunni  að samstaða fátæks fólks skiptir sköpum í lífsbaráttunni.  Þess vegna var hann „krati“ frá blautu barnsbeini.

Ámi lá aldrei á liði sínu, þegar ryðja þurfti brautina. Þegar Hljómar kvöddu sér fyrst hljóðs, kvað við nýjan tón. Það kom í hlut Áma að ryðja brautina með þeim.  Og guðfaðir Stuðmanna, Jakob Frímann, minnist örlætis hans í upphafi vegferðar þeirra, sem enn er ekki lokið.

Og svo var það pólitíkin: Ástríðan, sem leiddi okkur Áma saman. Vimmi hafði vaðið eld og brennistein til að vekja flokk alþýðunnar aftur til lífsins með ungri kynslóð. Hann kvaddi mig að vestan til að ritstýra Alþýðublaðinu. Sem ritstjóri átti ég sæti  í þingflokknum. Mér rann til rifja, hvernig  „stóra sigrinum“ 1978 var klúðrað í aumkunarverðu ráðaleysi.

Lesa meira

Minning: RAGNA AÐALSTEINSDÓTTIR Á LAUGABÓLI

RAGNA Á LAUGABÓLI var eftirminnileg persóna, hverjum sem henni kynntist. Hún var einstök og engum lík. Skar sig úr hópnum, hvar sem var. Þori ég að segja það sem ég hugsa: Hún var Bjartur í Sumarhúsum í kvenkyni?

Hún er fyrirferðarmikil í minningum mínum frá uppvaxtarárunum við Djúp. Það var um miðja síðustu öld. Ég var bara sveitastrákur í Ögri, í sumarvist í sjö sumur. Ögur var samgöngumiðstöð við sunnanvert Djúpið. Þá sátu þau Hafliði, móðurbróðir minn og kona hans, Líneik, hið sögufræga stórbýli.

Lesa meira

Minning: HRAFN JÖKULSSON

Hrafn Jökulsson er nú kominn að leiðarlokum: „Þar sem vegurinn endar“.

Eftir stormasamt líf, þar sem skiptust á skin og skúrir, gat hann kvatt sína samferðarmenn með brosi á vör. Hann hefur svo sannarlega goldið fósturlaunin fullu verði. Hann hefur skilið eftir sig listaverk, sem mun halda nafni hans á loft um ókomna tíð.

„Þar sem vegurinn endar“, lífssaga Hrafns (2007) er ein af perlum íslenskra bókmennta. Hún er lífssaga gáfnaljóss, sem rekur sig snemma á harðneskju heimsins. Hún er Íslandssagan í hnotskurn. Hún er byggðasaga okkar Strandamanna, þar sem segir frá óvæginni lífsbaráttu við óblíð náttúruöfl, sem gefa engin grið. Þar sem fólk gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana.

Lesa meira

Ingvar Gíslason, minning

Andlátsfregnin fór fram hjá mér, þar sem ég sit um sinn fjarri heimaslóðum. En ég get ekki látið hjá líða að kveðja þennan eftirminnilega samferðarmann. Ingvar var framsóknarmaður af hinum þingeyska skóla Jónasar frá Hriflu, meðan samvinnuhugsjónin tendraði enn vonir í brjóstum manna.

Ég þekkti nokkuð til hans fólks. Sumarið sem síldin brást 1956 smyglaði ég mér um borð í Þormóð ramma fra Siglufirði. Þar var Kristján, bróðir Ingvars, bátsmaður á minni vakt. Þar um borð sungu menn ættjarðarljóð á Grímseyjarsundi, á meðan gert var að.

Lesa meira

Árni Gunnarsson, minning

Árni Gunnarsson var maður heitra tilfinninga. Rík réttlætiskennd var honum í blóð borin. Hann vildi leggja þeim lið, sem áttu undir högg að sækja og rétta þeim hjálparhönd, sem liðsinnis þurftu við. Hann var m.ö.o. jafnaðarmaður af lífi og sál og drengur góður. Samt var hann aldrei haldinn bölmóði, eins og hendir suma þá, sem vex í augum óréttlæti heimsins. Þvert á móti. Hann trúði á hið góða í manninum. Og gekk bjartsýnn og baráttuglaður að hverju verki. Hann átti auðvelt með að laða fólk til samstarfs, enda betri samstarfsmaður vandfundinn.

Flokkurinn sem Árni aðhylltist ungur að árum hét Alþýðuflokkurinn – og var Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Enginn annar flokkur hefur hrundið í framkvæmd jafnmörgum og jafn róttækum umbótamálum, sem til samans hafa gerbreytt íslensku þjóðfélagi til hins betra.

Lesa meira

Uffe Ellemann Jensen, minning

Þegar fundum okkar Uffe Ellemann Jensen, utanríkisráðherra Dana, bar fyrst saman  haustið 1988 á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda, kom brátt á daginn, að við Uffe áttum meira sameiginlegt en við mátti búast. Við vorum allir sósíaldemókratar nema hann, sem var formaður flokks, sem kenndi sig við vinstrið, en var til hægri. Þetta hafði ekkert að gera með pólitík. Við áttum það bara  sameiginlegt að bera takmarkað umburðarlyndi fyrir leiðindum. Því fylgdi  grallaralegt skopskyn, sem þótti á köflum varla selskapshæft.

Að sögn vinar míns, Stoltenbergs  hins norska, missti  Uffe út úr sér eftirfarandi: „ Það væri nú munur fyrir okkur hin að búa við  ráðríki ykkar, krataflokkanna í Norðurlandapólitíkinni, ef þið væruð ekki flestir (alls ekki þú, þó!) svona hrútleiðinlegir.Af hverju getið þið ekki verið meira eins og þessi íslenski?“

Lesa meira

Styrmir Gunnarsson, minning

Hann var sjálfum sér líkur til hinsta dags. Þrátt fyrir heilsuáfall, sem hefði knúið flesta menn til að biðjast vægðar, neitaði hann að gefast upp  fyrr en í fulla hnefana. Hann neytti sinna seinustu krafta til að ljúka við laugardagsgreinina, sem birtist að honum látnum. Þannig var hann allt sitt líf, skyldurækinn og  kröfuharður – en fyrst og fremst við sjálfan sig.

Okkar kynni hófust í öðrum bekk í gaggó, nánar tiltekið í hinum alræmda Skeggjabekk í Laugarnesskólanum. Ég kom að vestan og frá vinstri. Hann kom úr Vesturbænum og lengst til hægri. Okkur lenti saman á fyrsta degi. Sú rökræða hefur senn staðið, með hléum,  í meira en hálfa öld. Henni var enn ekki lokið, þegar fundum okkar bar seinast saman.  Hann var stríðinn og rökfastur,  en hlustaði á mótrök og tók rökum – oftast nær.  Það var ekki til í honum snobb. Uppskafning og yfirborðsmennska var eitur í hans beinum, sem og hégómaskapur og látalæti. Hann var hreinskilinn og hreinskiptinn og fór ekki í manngreinarálit.

Lesa meira

Ingibjörg Björnsdóttir, minning

Ég var fjarri fósturjarðarströndum þann 19. ágúst s.l., þegar Ingibjörg Björnsdóttir var kvödd hinstu kveðju. En mér rennur bóðið til skyldunnar að minnast hennar fáeinum vel völdum orðum,  því að hún var eftirminnilegur samstarfsmaður minn þann skamma tíma,  sem ég gegndi embætti fjármálaráðherra (1987-88).

Það var stuttur tími, en við bættum það upp með því að koma gríðarlega miklu í verk. Orðið „skattkerfisbylting“ er ekki fjarri sanni. Seinna, þegar ég lýsti þessari kerfisbreytingu á fundi fjármálaráðherra Norðurlanda, sagði sænskur starfsbróðir, Kjell-Olov Feldt, að í Svíþjóð hefðu svo umfangsmiklar breytingar í ríkisfjármálum tekið a.m.k. 9 ár.

Lesa meira