Arnar Geir Hinriksson – Minning

Þótt hann væri borinn og barnfæddur Ísfirðingur – líkt og ég – kom okkur saman um það síðar á lífsleiðinni, að innst inni værum við frá Djúpi og Ströndum. Við værum aldir upp á slóðum Fóstbræðrasögu – nánar tiltekið á 13du öld.

Hvernig þá? Nú, á hverju sumri frá því skóla lauk, fram að fermingaraldri,  vorum við vistaðir inni í Djúpi: Hann að Eyri í Seyðisfirði. Ég í Ögri. Og umhverfi og aldarfar minnti meira á 13du öldina en seinni helming 20stu aldar.

Það voru hvorki vegir, brýr né bryggjur, né heldur traktorar eða turbo- trukkar. Ef þú þurftir að bregða þér bæjaleið, var farið á hestbaki eða jafnvel undir seglum. Víst var komin vél í bát, en þar með flykktist fólkið burt úr sveitinni í verstöðvarnar. Þess vegna  urðum við Ísfirðingar.

Lesa meira

VILBERG V. VILBERGSSON – Minning

„Hann Villi Valli er dáinn“. Ég þurfti að endurtaka þessi orð fyrir sjálfum mér, svo að þau síuðust inn í vitundina. Svo þyrmdi yfir mig. Gamlar minningar hrönnuðust upp.

VIð liðum um í ljúfum dansi bjarta vornótt fyrir vestan. Eða lögðum við hlustir í rökkurró við kertaljós, meðan vetrarvindurinn gnauðaði úti. Í báðum tilvikum var gleðigjafinn sá sami: Villi Valli og hans menn sköpuðu stemninguna, eða héldu uppi fjörinu, allt eftir því sem við átti.    Andlátsfregnin þýddi, að nú væri þessu tímabili lokið.

Lesa meira

Guðlaugur Tryggvi Karlsson – Minning

Hann var sunnlenskur að ætt og uppruna – kenndi sig gjarnan við Tryggvaskála á bökkum Ölfusár – þar sem rísandi höfuðborg Suðurlands er nú að taka á sig mynd.

Hann var líka óforbetranlegur hestamaður. Honum dvaldist löngum í hesthúsunum í Víðidal og var ómissandi forsöngvari á hestamannamótum. Og í Landmannaafrétt og Biskupstungna með frændum sínum frá Skarði og Hvammi í Landssveit.

Því að Guðlaugur Tryggvi var tær og bjartur tenor. Söngurinn var hans líf og yndi. Hvar sem hann var á ferð – og hann fór víða úr alfaraleið á hestbaki – var stutt í lofsönginn  um tign og fegurð íslenskrar náttúru.

Lesa meira

Minning: Matthías Johannessen    

13.03.24

                                                                                                           

Matthías setti sterkan svip á samtíð sína. Reyndar lengur en flestir sem eitthvað kvað að. Ristjórnarferill hans og Styrmis Gunnarssonar á Morgunblaðinu í meira en hálfa öld var stórveldistímabil blaðsins. Þeir voru eins ólíkir og dagur og nótt. Hvor um sig hafði sinn garð að rækta. Þegar þeir lögðu saman var fátt um varnir.

Matthías gekk til liðs við Morgunblaðið þegar Kalda stríðið stóð sem hæst. Þjóðin skiptist í öndverðar fylkingar. Það lá við borgarastyrjöld á Austurvelli. Þar gekk Matthías fremstur í flokki og dró hvergi af sér. Hann var harður í horn að taka og fékk það óþvegið til baka.

En það lýsir manninum betur en flest annað að þrátt fyrir erjur í pólitík þá skildi hann mæta vel – og kunni að meta – sjónarmið og mannkosti andstæðinga sinna. Hann átti stóran þátt í því að sætta sinn helming þjóðarinnar við hina rauðu penna byltingarinnar. Hann kunni að meta snilligáfu manna eins og Halldórs Kiljan og Þórbergs og fann til andlegs skyldleika við þá – þrátt fyrir allt.

Það var í þessum anda sem hann og Styrmir breyttu Morgunblaðinu úr hatrömmu flokksmálgagni í opinn vettvang þjóðmálaumræðu. Það fór ekkert á milli mála, hver ritstjórnarstefna Moggans var. En í anda Voltaire, voru þeir reiðubúnir að berjast fyrir rétti okkar hinna til að vera ósammála. Þar með skreiddumst við upp úr skotgröfum Kalda stríðsins. Inn í nútímann – slíkur sem hann nú er.

Lesa meira

Sigurður Helgason – Minning

ÁRIÐ 2000 höfðu Norðurlönd með sér samstarf til að minnast þess, að þúsund ár voru liðin frá landafundum norrænna manna í Ameríku. Helsti samstarfsaðilinn af hálfu Bandaríkjanna og Kanada voru þjóðminjasöfn landanna í Washington D.C. og Ottawa. Farandsýning var sett upp í sjö helstu borgum meginlandsins. Fornleifa- og sagnfræðingar skrifuðu fræðirit um þessa sögulegu atburði: „Vikings – the North -American Saga“með formála eftir sjálfa forsetafrúna, Hillary Clinton. Sagan var kynnt í heimildamyndum, sem voru sýndar í sjónvarpi og efnt var til fyrirlestra í háskólum í báðum ríkjum.

Lesa meira

Brynjólfur Jónsson, minning

Það lék allt í höndunum á honum Binna. Ef hann settist við píanóið, hljómaði lagið fyrr en varði. Hann lærði aldrei að lesa nótur. Þetta var bara meðfætt. Hann var líka eini maðurinn, sem ég þekkti, sem hafði próf upp á það, að hann kynni að gera við saumavélar. Það lék sem sé allt í höndum hans.

Einhvers staðar stendur skrifað: „Vertu trúr yfir litlu, og ég mun setja þig yfir mikið“.Þannig var það með hann Binna. Allt í einu var hann floginn til Vesturheims – nánar tiltekið Tulsa, Oklahoma – til þess að læra að gera við flugvélar. Eftir það hvarf hann sjónum okkar löngum. Hans aðalstarfi var að halda risaþotum gangandi í millilandaflugi. Af því leiddi, að heimurinn varð hans vinnustaður: frá Íslandi til Ameríku (Oklahoma, Lousiana, Connecticut, Maryland, New York og víðar); til Evrópu (Belgía og Spánn), til Mið-Austurlanda og í Afríku. Þar vann hann lengst af í Nígeríu.

Lesa meira

Ámundi Ámundason, minning

Ámi var sonur einstæðrar móður.  Hann ólst upp í verkamannabústöðunum í Holtunum. Og fór að vinna fyrir sér og sínum fyrir fermingu. Hann lærði því af reynslunni  að samstaða fátæks fólks skiptir sköpum í lífsbaráttunni.  Þess vegna var hann „krati“ frá blautu barnsbeini.

Ámi lá aldrei á liði sínu, þegar ryðja þurfti brautina. Þegar Hljómar kvöddu sér fyrst hljóðs, kvað við nýjan tón. Það kom í hlut Áma að ryðja brautina með þeim.  Og guðfaðir Stuðmanna, Jakob Frímann, minnist örlætis hans í upphafi vegferðar þeirra, sem enn er ekki lokið.

Og svo var það pólitíkin: Ástríðan, sem leiddi okkur Áma saman. Vimmi hafði vaðið eld og brennistein til að vekja flokk alþýðunnar aftur til lífsins með ungri kynslóð. Hann kvaddi mig að vestan til að ritstýra Alþýðublaðinu. Sem ritstjóri átti ég sæti  í þingflokknum. Mér rann til rifja, hvernig  „stóra sigrinum“ 1978 var klúðrað í aumkunarverðu ráðaleysi.

Lesa meira

Minning: RAGNA AÐALSTEINSDÓTTIR Á LAUGABÓLI

RAGNA Á LAUGABÓLI var eftirminnileg persóna, hverjum sem henni kynntist. Hún var einstök og engum lík. Skar sig úr hópnum, hvar sem var. Þori ég að segja það sem ég hugsa: Hún var Bjartur í Sumarhúsum í kvenkyni?

Hún er fyrirferðarmikil í minningum mínum frá uppvaxtarárunum við Djúp. Það var um miðja síðustu öld. Ég var bara sveitastrákur í Ögri, í sumarvist í sjö sumur. Ögur var samgöngumiðstöð við sunnanvert Djúpið. Þá sátu þau Hafliði, móðurbróðir minn og kona hans, Líneik, hið sögufræga stórbýli.

Lesa meira

Minning: HRAFN JÖKULSSON

Hrafn Jökulsson er nú kominn að leiðarlokum: „Þar sem vegurinn endar“.

Eftir stormasamt líf, þar sem skiptust á skin og skúrir, gat hann kvatt sína samferðarmenn með brosi á vör. Hann hefur svo sannarlega goldið fósturlaunin fullu verði. Hann hefur skilið eftir sig listaverk, sem mun halda nafni hans á loft um ókomna tíð.

„Þar sem vegurinn endar“, lífssaga Hrafns (2007) er ein af perlum íslenskra bókmennta. Hún er lífssaga gáfnaljóss, sem rekur sig snemma á harðneskju heimsins. Hún er Íslandssagan í hnotskurn. Hún er byggðasaga okkar Strandamanna, þar sem segir frá óvæginni lífsbaráttu við óblíð náttúruöfl, sem gefa engin grið. Þar sem fólk gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana.

Lesa meira

Ingvar Gíslason, minning

Andlátsfregnin fór fram hjá mér, þar sem ég sit um sinn fjarri heimaslóðum. En ég get ekki látið hjá líða að kveðja þennan eftirminnilega samferðarmann. Ingvar var framsóknarmaður af hinum þingeyska skóla Jónasar frá Hriflu, meðan samvinnuhugsjónin tendraði enn vonir í brjóstum manna.

Ég þekkti nokkuð til hans fólks. Sumarið sem síldin brást 1956 smyglaði ég mér um borð í Þormóð ramma fra Siglufirði. Þar var Kristján, bróðir Ingvars, bátsmaður á minni vakt. Þar um borð sungu menn ættjarðarljóð á Grímseyjarsundi, á meðan gert var að.

Lesa meira