13.03.24
Matthías setti sterkan svip á samtíð sína. Reyndar lengur en flestir sem eitthvað kvað að. Ristjórnarferill hans og Styrmis Gunnarssonar á Morgunblaðinu í meira en hálfa öld var stórveldistímabil blaðsins. Þeir voru eins ólíkir og dagur og nótt. Hvor um sig hafði sinn garð að rækta. Þegar þeir lögðu saman var fátt um varnir.
Matthías gekk til liðs við Morgunblaðið þegar Kalda stríðið stóð sem hæst. Þjóðin skiptist í öndverðar fylkingar. Það lá við borgarastyrjöld á Austurvelli. Þar gekk Matthías fremstur í flokki og dró hvergi af sér. Hann var harður í horn að taka og fékk það óþvegið til baka.
En það lýsir manninum betur en flest annað að þrátt fyrir erjur í pólitík þá skildi hann mæta vel – og kunni að meta – sjónarmið og mannkosti andstæðinga sinna. Hann átti stóran þátt í því að sætta sinn helming þjóðarinnar við hina rauðu penna byltingarinnar. Hann kunni að meta snilligáfu manna eins og Halldórs Kiljan og Þórbergs og fann til andlegs skyldleika við þá – þrátt fyrir allt.
Það var í þessum anda sem hann og Styrmir breyttu Morgunblaðinu úr hatrömmu flokksmálgagni í opinn vettvang þjóðmálaumræðu. Það fór ekkert á milli mála, hver ritstjórnarstefna Moggans var. En í anda Voltaire, voru þeir reiðubúnir að berjast fyrir rétti okkar hinna til að vera ósammála. Þar með skreiddumst við upp úr skotgröfum Kalda stríðsins. Inn í nútímann – slíkur sem hann nú er.
Lesa meira