Sigurður Helgason – Minning

ÁRIÐ 2000 höfðu Norðurlönd með sér samstarf til að minnast þess, að þúsund ár voru liðin frá landafundum norrænna manna í Ameríku. Helsti samstarfsaðilinn af hálfu Bandaríkjanna og Kanada voru þjóðminjasöfn landanna í Washington D.C. og Ottawa. Farandsýning var sett upp í sjö helstu borgum meginlandsins. Fornleifa- og sagnfræðingar skrifuðu fræðirit um þessa sögulegu atburði: „Vikings – the North -American Saga“með formála eftir sjálfa forsetafrúna, Hillary Clinton. Sagan var kynnt í heimildamyndum, sem voru sýndar í sjónvarpi og efnt var til fyrirlestra í háskólum í báðum ríkjum.

Það kom í minn hlut sem sendiherra Íslands til Bandaríkjanna og Kanada að heimsækja 35 fylki Bandaríkjanna og margar borgir Kanada af þessu tilefni. Hápunktinum var náð með fyrirlestri undirritaðs í Cosmos-Club í Washington D.C., en meðal meðlima hans voru á þeim tíma 88 Nobelsverðlaunahafar í hinum ýmsu fræðigreinum. Að loknum fyrirlestri og umræðum var efnt til eftirminnilegrar veislu. Undirritaður sat þar við háborðið, umkringdur  vísindamönnum og vitringum á báða vængi. Sessunautur minn reyndist vera pófessor í stærðfræði við einn af elituháskólum Bandaríkjanna. Þar kom í samtölum okkar, að ég spurði: „Þekkið þér Sigurð Helgason, stærðfræðing við MIT?“

Það varð djúp þögn. Loks svaraði prófessorinn með festu: „ Herra Helgason er ekki stærðfræðingur. Hann er með Guðunum á Olympstindi. Allt sem frá honum kemur er þýtt jafnóðum á rússnesku“. Í framhaldinu útlistaði prófessorinn fyrir mér, á hvaða fræðasviðum innan stærðfræðinnar Sigurður væri þessi skapandi brautryðjandi, að vísindaheimurinn legði við hlustir jafnóðum.  Allt var þetta mér sem opinberun , enda komu þarna við sögu andlegir afreksmenn, sem hafa skapað heimsmynd okkar, allt frá Einstein og Örsted til minni spámanna. Ætli Sigurður sé ekki sá vísindamaður íslenskur, sem hefur borið hróður lands og þjóðar víðast í heimi vísindanna?

Kynni okkar Sigurðar hófust á árunum 1976-77. Þá var ég vistaður skamma hríð sem Fulbright-scholar við Harvard háskóla í Boston, Massachusets. Það er næsti bær við MIT, þar sem Sigurður gerði garðinn frægan. Mitt viðfangsefni var samanburður hagkerfa, þar sem ég naut einkum leiðsagnar Austur-Evrópskra flóttamanna, sem vissu öðrum betur af eigin reynslu, hvernig ekki ætti að byggja upp og reka hagkerfi. Og ég komst brátt að því, að þar var ekki komið að tómum kofanum hjá Sigurði. Stærðfræði er jú aðferðarfræði allra vísinda. Samtölin við Sigurð urðu til þess að dýpka mjög skilning minn á bandarísku þjóðfélagi og ástandi heimsins á kjarnorkuöld.

En hann var ekki aðeins andans jöfur. Hann var líka góður maður, sem lét sér annt um þá sem til hans leituðu eins og besti faðir.

Jón Baldvin Hannibalsson