Fylgt úr hlaði

Hrun efnahagslífsins, drápsklifjar skulda sem sliga fyrirtæki og fjölskyldur og hættuástandið sem vakir við hvert fótmál út af hrösulum gjaldmiðli, leitar sterkt á huga allra Íslendinga þessi misserin. Mér rennur blóðið til skyldunnar eins og öðrum að reyna að átta mig á, hversu alvarlegt áfallið er og hvaða leiðir eru helst færar út úr ógöngunum. Það vantar ekki að það er gríðarleg hugmyndaleg gerjun allt um kring, en í og með þess vegna er athygli manna hvikul og kjarni málsins vill stundum týnast í tilfinningalegu umróti.

Þrátt fyrir aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF/AGS) eru tvö hrikaleg vandamál óleyst, skuldabyrðin og gjaldmiðilsvandinn. Bæði eru þessi mál þess eðlis að islenska þjóðin fær ekki við þau ráðið ein og óstudd.

Skuldirnar, á þeim greiðslukjörum sem bjóðast því næst gjaldþrota þjóð, eru umfram greiðslugetu okkar. Við verðum að semja við aðra – og þessir aðrir eru Evrópusambandið og aðildaþjóðir þess – um greiðslukjör og lánstíma og annað það sem gerir þessar byrðar léttbærari.

Um gjaldmiðilsmálið gegnir sama máli: þar er enga lausn að fá nema með samningum við Evrópusambandið og gjaldmiðilssamstarf.

Það getur vel verið að það sé lítt til vinsælda fallið að hamra á þessum aðalatriðum. En hjá því verður ekki komist því að lokum er það svo að sannleikurinn mun gera yður frjálsa. Það er varla til sú fjölskylda á Íslandi að einhverjir fjölskyldumeðlimir eigi ekki nú þegar um sárt að binda út af þeim hamförum af mannavöldum sem kollvarpað hafa íslensku samfélagi. Í slíku þjóðfélagsástandi skipta hin gömlu og góðu gildi jafnaðarstefnu og verkalýðshreyfingar um samstöðu og samtakamátt aftur meira máli en nokkru sinni fyrr. Það sem birtist á þessari heimasíðu er og verður skrifað í anda hugsjóna jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag.