SAMNINGAR VIÐ EVRÓPUSAMBANDIÐ ERU LYKILLINN AÐ LAUSN VANDANS

Hvernig getum við komið hjólum atvinnulífsins aftur á fullt með 70% fyrirtækja tæknilega gjaldþrota, óstarfhæfa banka og vaxtastig lána vel yfir 20%, sem sogar til sín það litla sem eftir er af lausafé fyrirtækja? Hvernig getum við aflað gjaldeyris til að borga niður skuldir okkar þegar verð á útflutningsafurðum (fiski og áli) fer hríðlækkandi vegna áhrifa heimskreppunnar og við þurfum að notast við gjaldmiðil sem er í gjörgæslu og samkvæmt skilgreiningu ónothæfur í milliríkjaviðskiptum?
Spurningarnar lýsa kjarna þess vanda sem ný ríkisstjórn stendur frammi fyrir.

Það þolir enga bið að gera nýju bankana starfhæfa. Viðbárur eins og þær að eignamat þeirra taki enn langan tíma verða einfaldlega ekki lengur teknar gildar. Það er hlutverk nýs viðskiptaráðherra að binda endi á biðstöðuna. Hann nýtur trausts til þess að finna þau úrræði sem duga. Hér má engan tíma missa. Skuldastaðan og vextirnir þýða að ný ríkisstjórn verður þegar í stað að óska eftir endurskoðun á forsendum og framkvæmd aðgerðaáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF-AGS).

Fyrst um vextina. Rökin fyrir 18% stýrivöxtum eiga að heita þau að ella bresti á fjárflótti sem leiði til nýs gengisfalls krónunnar. Á þetta reynir hins vegar ekki um sinn af þeirri einföldu ástæðu að tímabundin gjaldeyrishöft koma í veg fyrir fjárflótta. Við þurfum ekki bæði axlabönd og belti. Hefðbundin rök um að háir stýrivextir hamli verðbólgu eiga heldur ekki við. Yfirstandandi verðbólgukúfur er afleiðing gengisfalls krónunnar. Þetta er því tímabundin innflutningsverðbólga sem senn fjarar út.

Framundan er verðhjöðnun – ekki verðbólga. Seðlabankar um allan heim lækka nú stýrivexti til að mæta þeim vanda. Fyrrverandi ríkisstjórn brást bogalistin í samningum við AGS rétt eins og í samningum um Icesave. Nýr fjármálaráðherra og nýr seðlabankastjóri verða í sameiningu að bæta fyrir þessi mistök. Ný ríkisstjórn verður að virkja bankana og lækka vextina þegar í stað. Það er fyrsti prósteinninn á getu hennar til að stjórna landinu.

AÐGERÐAÁÆTLUN AGS ÞARFNAST ENDURSKOÐUNAR

Svo er það skuldasúpan. Það er til marks um óþolandi seinagang stjórnsýslunnar í yfirstandandi neyðarástandi að áreiðanlegar tölur um erlendar skuldir ríkisins skuli enn vera á reiki. Samkvæmt nýjustu tölum eru erlendar skuldir ríkisins u.þ.b. 2400 milljarðar króna. Samt er vitað að þar eru ekki öll kurl komin til grafar. Sveitarfélögin eru mörg hver sokkin í skuldir. Sömu sögu er að segja um opinberar stofnanir í orkugeiranum. Þær skuldir eru væntanlega með ríkisábyrgð. Áreiðanlegar heildartölur um erlendar skuldir ríkisins, þar með taldar skuldir með ríkisábyrgð, hafa því enn ekki verið birtar svo mér sé kunnugt um.

Alla vega er ljóst að sú forsenda aðgerðaáætlunar AGS, að erlendar skuldir nemi 110% af vergri landsframleiðslu, stenst ekki. Dr. Willem Buiter, höfundur skýrslunnar frægu um yfirvofandi hrun bankakerfisins, sem stungið var undir stól hálfu ári fyrir hrun, telur erlendar skuldir nema 160% af vlf. Nánari skoðun bendir til að jafnvel það sé vanáætlað. Hafa ber í huga að landsframleiðslan mun dragast saman verulega á næstu árum, einnig fyrir áhrif heimskreppunnar. Ekki er ósennilegt að vaxtarbyrðin ein af erlendum lánum geti numið allt að þriðjungi útgjalda ríkisins á fjárlögum.

Hvað þýðir þetta á mæltu máli? Þetta þýðir m.a. eftirfarandi: Það verður að gera vandaða áætlun til a.m.k. þriggja eða fjögurra ára um tekjur og gjöld ríkissjóðs, ekki aðeins í ljósi efnahagshrunsins heima fyrir heldur einnig í ljósi dýpkandi heimskreppu. Það verður að endurskoða aðgerðaáætlun IMF í ljósi þess að greiðslubyrði skulda hefur verið vanmetin og horfur á útflutningsmörkuðum fara versnandi. Þetta þýðir að tekjur ríkissjóðs munu rýrna en útgjaldaþörfin vaxa, umfram gefnar forsendur.

Þegar litið er yfir skuldastöðu þjóðarbúsins í heild: fyrirtækjanna, ekki síst sjávarútvegsins vegna kvótabrasksins, sveitarfélaga, ríkisstofnana og heimila, má ljóst vera að greiðslubyrðin, miðað við þau greiðslukjör sem Íslandi bjóðast, er umfram greiðslugetu þjóðarinnar. Höfum í huga að það er sérstakt”Íslandsálag” á lán til Íslands. Lánstraustið er löngu þrotið. Þótt vextir fari hríðlækkandi í heiminum er krafist sérstaks áhættuálags vegna viðskipta við Ísland af því að Ísland er flokkað sem gjaldþrota þjóðfélag.

Við ráðum ekki við þetta ein. Við verðum að semja um greiðslukjör og lánstíma. Tímabundin frestun afborgana og lækkun vaxta ein saman getur slagað hátt upp í gjaldeyrisverðmæti sjávarvöruútflutnings á ári. Það munar um minna. Þarna getur skilið milli feigs og ófeigs. Að fenginni reynslu treystum við ekki íslenskum embættismönnum til þess að leiða þessa samninga. Við eigum að ráða erlenda sérfræðinga með áratuga reynslu af því að fást við afleiðingar fjármálakreppu af svipuðum toga í okkar þjónustu. Dr. Willem Buiter nýtur viðurkenningar sem einn af fremstu sérfræðingum heims á þessu sviði. Ég veit að hann er til þjónustu reiðubúinn. Við eigum að leita til hans til að leiða samninga við erlenda lánardrottna og til að leggja á ráðin um nýtt regluverk og eftirlit með fjármálastofnunum.

SAMNINGAR VIÐ ESB: LYKILL AÐ LAUSN

Ný ríkisstjórn hefur verið gagnrýnd fyrir að hún stingur höfðinu í sandinn varðandi Evrópumál og boðar engar lausnir á gjaldmiðilsvandanum. Þessi gagnrýni er réttmæt. Að óbreyttu verðum við að búa áfram við gjaldeyrishömlur. Það getur hins vegar ekki gengið til frambúðar því að það hamlar uppbyggingarstarfinu, bæði að því er varðar fjárfestingar og nýsköpun í framtíðinni. Ríkisstjórn, sem getur hvorki leyst skuldavandann né gjaldmiðilsvandann til frambúðar, verður því ekki á vetur setjandi.

Hér er komið að kjarna málsins. Forystumenn stjórnarflokkanna, þ.m.t. hinn ungi formaður Framsóknarflokksins, verða að horfast í augu við þessar staðreyndir og koma fram með trúverðugar og raunsæjar lausnir. Annars mun þeim mistakast björgunarstarfið rétt eins og fyrrverandi stjórn.

Það er því miður á misskilningi byggt að spurningin um samninga við Evrópusambandið sé einhver framtíðarmúsík, sem megi huga að seinna, þegar bráðavandinn hefur verið leystur. Þetta er óskhyggja sem byggir á sjálfsblekkingu. Samningar við Evrópusambandið um aðild að því og myntsamstarfinu er lykillinn að lausnum á bráðavanda íslensku þjóðarinnar nú þegar. Ástæðan er einföld: Við getum hvorki leyst skuldavandann né gjaldmiðilsvandann ein og sér; við þurfum að semja um hvort tveggja. Samningsvettvangurinn er hjá Evrópusambandinu – allsherjarsamtökum lýðræðisríkja í Evrópu.

Lítum fyrst á gjaldmiðilsvandann. Fyrsti kostur er að notast áfram við krónuna í skjóli gjaldeyrishafta. Það kemur í veg fyrir yfirvofandi fjárflótta en hindrar um leið erlendar fjárfestingar til uppbyggingar í atvinnulífinu. Það er því neyðarbrauð til skamms tíma. Annar kostur er að aflétta gjaldeyrishömlum og setja krónuna aftur á flot. Það væri óðs manns æði við óbreyttar aðstæður. Hún mundi sökkva eins og steinn á augabragði. Það mundi leiða nýja verðbólguholskeflu yfir þjóðina og þar með loka öllum útgönguleiðum út úr skuldafangelsinu. Niðurstaða gagnlegrar umræðu um einhliða upptöku evru er sú að það er tæknilega gerlegt en pólitískt frágangssök. Þá er aðeins ein leið eftir: Að sækja um aðild að Evrópusambandinu og myntsamstarfinu, með það fyrir augum að taka upp evru.

Pólitísk ákvörðun um að óska eftir samningaviðræðum mun ein og sér hafa jákvæð áhrif í stöðunni. Ísland hefði þar með markað sér framtíðarstefnu með afdráttarlausum hætti. Það eyðir óvissu og eflir traust. Í ljósi neyðarástands mundi Ísland óska eftir flýtimeðferð. Eftir að báðir aðilar hafa fengið samningsumboð er unnt að ljúka samningum við EES-ríkið Ísland á hálfu ári. Fáeinum mánuðum síðar gæti Ísland verið komið inn í anddyri peningamálasamstarfsins (exchange rate mechanism –II). Þar með væri krónan orðin bundin evrunni á umsömdu gengi. Það er ekki fullnaðarlausn. Það er aðeins bráðabirgðalausn. Og það leysir ekki vandann í millibilsástandinu, frá því að við afléttum gjaldeyrishöftum og þar til við höfum tekið upp evru. Þess vegna þurfum við á að halda sérlausn í millibilsástandinu.

MILLILAUSN: MYNTSAMSTARF VIÐ NORÐURLÖND

Hér kemur til kasta hins nýja fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna. Hann hefur áður boðað myntsamstarf við Norðmenn. Formaður Miðflokksins norska hefur þegar tekið hugmyndinni vel. Steingrímur hefur tilkynnt að hann muni ræða hugsanlegt myntsamstarf við fjármálaráðherra Noregs, formann SV, systurflokks Vinstri grænna, þegar tilefni gefst til á 10 ára afmæli VG núna um helgina. Dr. Willem Buiter, sem ég hef áður vísað til, mælti með því í ræðu sinni í hátíðarsal háskólans að Íslendingar leituðu til vinveittra Norðurlandaþjóða um myntsamstarf á umræddum millibilstíma, uns upptaka evru yrði raunhæfur kostur.

Dr. Buiter sagði bæði norsku og dönsku krónuna koma til greina. Að vísu mundi danska krónan henta betur því að hún væri í reynd evra undir öðru nafni. Styrkur norsku olíukrónunnar og tiltölulega háir vextir teldust óhagræði í þessum samanburði. Hvort tveggja kæmi þó til greina. Hvor leiðin sem væri farin gæti tryggt íslenskum þjóðarbúskap meiri stöðugleika og lægri vexti en við getum gert á eigin spýtur. Þetta er það sem íslenskt atvinnulíf þarfnast til þess að ná sér aftur á strik. Með því að leysa þetta mál gæti hinn nýi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, unnið þjóð sinni ómetanlegt gagn. Ég leyfi mér að vona að Þistilfirðingurinn röski láti nú hendur standa fram úr ermum og leysi þetta mál.

Hin meginástæðan fyrir því að við megum ekki draga það á langinn að ganga til samninga við Evrópusambandið er sú að greiðslubyrði þeirra skulda sem fyrrverandi ríkisstjórn hefur lagt okkur á herðar, er þyngri en svo að þjóðin fái undir risið ein og óstudd. Við verðum að semja um skuldirnar, um greiðslutíma og greiðslukjör. Samningsaðilinn er Evrópusambandið og einstakar aðildaþjóðir þess. Þegar við hefjum samningaviðræður við Evrópusambandið verður allt að vera uppi á borðinu: Sá þriðjungur af löggjöf Evrópusambandsins (acquis communautaire) sem er umfram EES-löggjöfina, sem Ísland hefur þegar tekið yfir, tímaáætlun um myntsamstarfið og óskir Íslendinga um sérstaka fyrirgreiðslu vegna þess neyðarástands sem skapast hefur vegna óhóflegrar skuldsetningar þjóðarbúsins.

Það verður allt öðru vísi tekið á vandamálum Íslendinga sem verðandi aðildarþjóðar Evrópusambandsins en sem utangarðsþjóðar. Vandamál verðandi aðildarþjóða eru vandamál Evrópusambandsins sem slíks. Evrópusambandið býr yfir ýmsum úrræðum til þess að leysa vanda aðildarríkja af þeim toga sem Íslendingum er nú ofviða að leysa á eigin spýtur. Smæð Íslands skiptir hér máli. Upphæðirnar sem um er að ræða eru risavaxnar á mælikvarða 300.000 manna þjóðar en smámunir einir á mælikvarða ríkjabandalags sem telur 500 milljónir manna. Við skulum líka hafa það hugfast að margar Evrópuþjóðir, þar á meðal bandalagsþjóðir okkar í Norðurlandasamstarfi. Svíar og Finnar, gengu í Evrópusambandið til þess að fá aðstoð þess við að leysa þungbær vandamál í kjölfar fjármálakreppu. Að því leyti eru Íslendingar ekki einir á báti.

*’*’*’*’*

Um leið og ég sendi vinum og sálufélögum í röðum Vinstri grænna heillaóskir í tilefni af 10 ára afmælinu, bið ég þau að leiða hugann að atburðum sem urðu í aðdraganda alþingiskosninganna árið 1991. Þá urðu þau ótíðindi að samstarfsflokkar okkar jafnaðarmanna í bestmönnuðu ríkisstjórn lýðveldistímans, vinstri stjórninni undir forystu Steingríms Hermannssonar (1988-1991), hlupust brott frá ábyrgð sinni á undirbúningi EES-samningsins. Þar með neyddu þáverandi forystumenn Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins okkur jafnaðarmenn til þess að leita eftir samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn um ríkisstjórn til að tryggja EES-samningnum brautargengi. Til þess eru mistökin að læra af þeim. Þessi mistök hafa dregið langan slóða á eftir sér. Heitum íslensku þjóðinni því á áratugsafmæli Vinstri grænna að þessi mistök verði ekki endurtekin, hvorki í aðdraganda né eftirmála komandi kosninga.