FRAMTÍÐARSÝN

Nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur yfirgefið stjórnarráðið eftir 18 ára slímusetu hefur hann um leið kollvarpað þrálátum goðsögnum um hlutverk flokksins í íslenskum stjórnmálum.

Sú fyrsta er að Sjálfstæðisflokkurinn sé forystuflokkur íslenskra stjórnmála. Það ber ekki vott um mikla forystuhæfileika að geta ekki á 14 árum gert upp hug sinn til stærsta viðfangsefnis samtímans, sem er aðild Íslands að Evrópusambandinu. Óttinn við klofning flokksins hefur lamað flokksforystuna og gert hana óstjórnhæfa.

Önnur goðsögnin er sú að Sjálfstæðisflokknum sé einum treystandi fyrir stjórn efnahagsmála. Viðskilnaður flokksins eftir 18 ár segir allt sem segja þarf um það. Hagkerfið er í rúst og þjóðin er hneppt í skuldafjötra. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins, sem gegnt hafa embættum forsætis- og fjármálaráðherra og Seðlabankastjóra í aðdraganda hrunsins, hafa brugðist þjóðinni. Samt hafa þeir enn ekki sýnt þann manndóm að biðjast afsökunar. Það segir meira en mörg orð um valdhrokann.

Ein goðsögnin er sú að Sjálfstæðismönnum einum sé treystandi til að gæta hagsmuna atvinnuveganna. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum atvinnulífsins teljast um 70% fyrirtækja í landinu tæknilega gjaldþrota þegar Sjálstæðisflokkurinn skilur við.
Allt fjármálakerfi þjóðarinnar er komið í ríkiseigu. Hugmyndafræðin hefur beðið algert skipbrot.

Enn ein goðsögnin er sú að Sjálfstæðismönnum sé treystandi til að sýna ráðdeild í ríkisfjármálum og hafa hemil á skattbyrði almennings. Meira að segja í góðærinu þegar fölsk lífskjör voru fjármögnuð með erlendum lánum og peningarnir streymdu þindarlaust inn í ríkissjóð setti fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins heimsmet í útþenslu ríkisbáknsins. Hann greiddi niður erlendar skuldir en láðist að safna í sjóði til mögru áranna.

SKULDAFANGELSIÐ

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn skilur við teljast skuldir ríkisins vera um 2400 milljarðar króna. Þá eru ekki öll kurl komin til grafar því að vantaldar eru gríðarlegar skuldir ríkisstofnana, einkum í orkugeiranum. Erlendar skuldir fyrirtækja, ekki síst sjávarútvegsins vegna kvótabrasksins, og skuldir heimilanna, eru orðnar óbærilegar. Í heild er skuldabyrði þjóðarbúsins sligandi, þ.e. hún er meiri en greiðslugeta skattgreiðenda í landinu fær undir risið. Það bíður nú annarra að hreinsa upp óreiðuna í ríkisfjármálum eftir Sjálfstæðisflokkinn. Þjóðarinnar bíður það að borga skuldirnar. Reynslan sýnir að forystumönnum flokksins er hvorki treystandi fyrir fjármálastjórn í góðæri né harðæri. Verra getur það varla verið.

Loks er að nefna þá goðsögn að Sjálfstæðisflokknum einum sé treystandi til að hafa forystu fyrir þjóðinni í samskiptum við aðrar þjóðir og alþjóðasamtök, jafnvel þótt það kosti (óvinsælar) ákvarðanir. Þetta er lífseig goðsögn sem stenst ekki dóm staðreyndanna. Sjálfstæðismenn klúðruðu varnarsamstarfinu við Bandaríkin undir lokin og voru í þeim samskiptum uppvísir að óskhyggju og óraunsæi. Sjálfstæðismenn höfðu hvorki forystu um inngönguna í EFTA né samningana um Evrópska efnahagssvæðið. Í hvorugu tilvikinu þorðu þeir að láta brjóta á sér af ótta við óvinsældir og klofning. Og nú hefur getuleysi flokksforystunnar til að móta skýra stefnu í Evrópumálum – stærsta máli samtímans – dæmt flokkinn úr leik. Sjálfstæðisflokkurinn er einfaldlega óstjórnhæfur. Viðskilnaður Sjálfstæðisflokksins eftir 18 ára valdaferil er satt að segja svo skelfilegur að leitun er að öðru eins nema í þeim tilvikum þegar þjóðfélög hafa verið lögð í rúst í styrjaldarátökum.

Í ljósi ofangreindra staðreynda er það flestum Íslendingum léttir að sjá á bak Sjálfstæðisflokknum úr Stjórnarráðinu. Samt sem áður mun minnihlutstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með hlutleysi Framsóknar njóta fárra hveitibrauðsdaga. Hún hefur 80 daga til að bæta fyrir vanræskslu syndir fv. ríkisstjórnar og til að undirbúa kosningar. Það fer eftir því hvernig til tekst hvort litið verður á hana annað hvort sem neyðarbrauð til skamms tíma eða sem vegvísi til framtíðar. Þrátt fyrir ólýsanlega erfiðleika eiga forystumenn Samfylkingar og Vinstri grænna nú tækifæri til að marka tímamót í sögu þjóðarinnar. Það er mikið í húfi.

Hér áður fyrr kom hugmyndafræðilegur ágreiningur um grundvallaratriði í veg fyrir að Alþýðuflokkur (jafnaðarmenn) og Alþýðubandalagið (sósíalistar) gætu starfað saman af heilindum í ríkisstjórn, þrátt fyrir sameiginlegan uppruna í mannréttindahreyfingu fólksins (verkalýðshreyfingunni). ” Ísland úr NATO og herinn burt” lýsti grundvallarsjónarmiðum sósíalista, auk þess sem þeir höfðu takmarkaðan skilning á gidli markaðsbúskapar fyrir verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Jafnaðarmönnum í Evrópu stóð ógn af Sovétríkjunum og vildu verja lýðræðið í samvinnu við Bandaríkin. Þessar hreyfingar tóku því ólíka afstöðu til NATO, EFTA, EES og síðar til Evrópusambandsins. Þessar skammstafanir lýstu ágreiningsefnum, sem sundruðu vinstrimönnum og færðu þar með Sjálfstæðisflokknum pólitískt frumkvæði á lýðveldistímanum.

TíMAMÓT

Þessi tímabili er nú lokið. Hugmyndafræðin sem réði för í ríkisstjórnarsamstarfi Sjáflstæðis- og Framsóknarflokks á 12 ára tímabili frá árinu 1995 hefur nú beðið varanlegt skipbrot. Þessi hugmyndafræði er ættuð frá Ameríku og kennd við ný-frjálshyggju. Þessi hugmyndafræði boðaði blinda trú á markaðslausnir. Lögmál markaðarins áttu að ráða án íhlutunar lýðræðislegs ríkisvalds, sem var ævinlega talin af hinu illa.

Hlutverki ríkisvaldsins við að setja hinar almennu leikreglur og að fylgja þeim eftir var vísað á bug sem eins konar samkeppnishindrun. Beiting skattakerfis og velferðarþjónustu til tekjujöfnunar í nafni almannahagsmuna var fordæmd afdráttarlaust. Þessi einfeldningslega hugmyndafræði varð ráðandi í háskólum og við hagstjórn í hinum ensk- ameríska hugmyndaheimi og í alþjóðastofnunum, sem lutu þeirra stjórn. Keppan sem nú breiðist út um heimsbyggðina táknar fjörbrot þessarar hugmyndafræði.

Á Íslandi hafa afleiðingarnar orðið harkalegrti en víðast hvar annars staðar. Sú skrípamynd amerísks kapitalisma sem hér varð til, á ábyrgð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er nú í molum. Uppbyggingarstarfið sem framundan er getur aðeins byggst á gildum og grundvallarsjónarmiðum hins norræna velferðarríkis, þar sem lýðræðislegt ríkisvald gegnir þýðíngarmiklu hlutverki í samvinnu við virk almannasamtök (e. civic society). Um þetta mikla verk eiga Samfylkingin, Vinstri-græn og hugmyndalega endurnýjaður Framsóknarflokkur að taka höndum saman. Grunngildin snúast um jöfn tækifæri allra til að þroska hæfileika sína án tillits til efnahags og um samfélagslega ábyrgð í formi stofnana hins félagslega öryggiskerfis. Baráttan framundan stendur því milli hugsjóna hins norræna velferðarríkis gegn óvinum þess. Óvinurinn birtist okkur í blindri markaðshyggju, sem leiðir af sér ójafnaðarsamfélagið og afneitun á kraftbirtingartækjum lýðræðisins.

FRAMTÍÐARSÝN

Ísland er ekki lengur á amerísku áhrifasvæði. Þjóðin býr við millibilsástand og óráðna framtíðarsýn. Það má ekki dragast miklu lengur að taka af skarið um, hvert skal stefna. Nú þarf senn að kveða upp úr um það, hvar Ísland á heima í samfélagi þjóðanna. Af sögulegum, menningarlegum og pólitískum ástæðum eigum við að skipa okkur í sveit með frændþjóðum okkar á Norðurlöndum og vinaþjóðum við Eystrasalt í svæðisbundnu samstarfi innan Evrópusambandsins, sem er allsherjar samtök lýðræðisríkja í Evrópu.

Stærsta lexían af hruninu, sem við þurfum að láta okkur að kenningu verða, er sú að engin smáþjóð getur staðið ein og berskjölduð frammi fyrir fellibyljum alþjóðlegra fjármagnsmarkaða. Evrópusambandið er einstæð og merkileg tilraun þjóðríkja álfunnar til að bregðast við gerbreyttum aðstæðum og tryggja þar með sameiginlegt öryggi sitt. Umheimurinn lítur svo á að hin félagslega þjóðfélagsskipan Evrópu (e. European Social Model) sé andsvar við hinum óbeislaða ameríska kapítalisma, sem nú hefur hrundið heimsbyggðinni í djúpa kreppu.

Vandamálin sem við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir á þessum tímamótum eru stærri en svo að við fáum leyst þau einir á báti. Þetta gildir um okkur líkt og um aðrar smáþjóðir. Við þurfum að leita lausna í samstöðunni. Hvers vegna ættu fylgismenn Samfylkingar, Vinstri-grænna og hins hugmyndalega endurnýjaða Framsóknarflokks ekki að geta náð samstöðu um slíka framtíðarsýn? Af svarinu mun það ráðast hvort núverandi ríkisstjórn verður aðeins neyðarbrauð til skamms tíma eða vegvísir, sem markar tímamót til framtíðar.