Árni Gunnarsson var maður heitra tilfinninga. Rík réttlætiskennd var honum í blóð borin. Hann vildi leggja þeim lið, sem áttu undir högg að sækja og rétta þeim hjálparhönd, sem liðsinnis þurftu við. Hann var m.ö.o. jafnaðarmaður af lífi og sál og drengur góður. Samt var hann aldrei haldinn bölmóði, eins og hendir suma þá, sem vex í augum óréttlæti heimsins. Þvert á móti. Hann trúði á hið góða í manninum. Og gekk bjartsýnn og baráttuglaður að hverju verki. Hann átti auðvelt með að laða fólk til samstarfs, enda betri samstarfsmaður vandfundinn.
Flokkurinn sem Árni aðhylltist ungur að árum hét Alþýðuflokkurinn – og var Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Enginn annar flokkur hefur hrundið í framkvæmd jafnmörgum og jafn róttækum umbótamálum, sem til samans hafa gerbreytt íslensku þjóðfélagi til hins betra.