Guðlaugur Tryggvi Karlsson – Minning

Hann var sunnlenskur að ætt og uppruna – kenndi sig gjarnan við Tryggvaskála á bökkum Ölfusár – þar sem rísandi höfuðborg Suðurlands er nú að taka á sig mynd.

Hann var líka óforbetranlegur hestamaður. Honum dvaldist löngum í hesthúsunum í Víðidal og var ómissandi forsöngvari á hestamannamótum. Og í Landmannaafrétt og Biskupstungna með frændum sínum frá Skarði og Hvammi í Landssveit.

Því að Guðlaugur Tryggvi var tær og bjartur tenor. Söngurinn var hans líf og yndi. Hvar sem hann var á ferð – og hann fór víða úr alfaraleið á hestbaki – var stutt í lofsönginn  um tign og fegurð íslenskrar náttúru.

Og svo var hann uppýstur sósíaldemókrat að hugsjón og sannfæringu, sem efldist við hagfræðinámið í Manchester (1964-67). Þegar hann sannspurði, að formaður Alþýðuflokksins – þá fjármálaráðherra – hefði verið efnilegur hestasveinn á unglingsárum við Djúp –  var honum óðar boðið í smalamennsku fyrir réttir með frændum Guðlaugs Tryggva, Skarðsverjum.

Hér segir ekkert af því, hvernig fjárglöggir bændur tóku krataforingjanum í fylgd Guðlaugs Tryggva – en það var mikið sungið!

Þrátt fyrir augljósa mannkosti og hrífandi söngrödd náði Guðlaugur Tryggvi því ekki að syngja sig inn í hug og hjörtu Sunnlendinga. Allt í einu – í blóma lífs – dundi yfir reiðarslag svo grimmilegt, að hann missti orku og þrótt fyrir lífstíð.

Það er í mótlætinu, sem reynir á manninn. Guðlaugur Tryggvi tók örlögum sínum af slíku æðruleysi, að undrun sætti.

Hann ræktaði tengslin við fjölda afkomenda sinna af ástúð og umhyggju. Það gladdi hann ósegjanlega, að óðurinn til lífsins – raddfegurð og sönggleði –  er ríkur þáttur í fari afkomenda hans. Lífið heldur áfram  – þrátt fyrir allt.

Þrátt fyrir allt er þetta sagan um, að lífið er sterkara en dauðinn – þrátt fyrir allt.

Jón Baldvin Hannibalsson,

Fv. formaður Alþýðuflokksins