Arnar Geir Hinriksson – Minning

Þótt hann væri borinn og barnfæddur Ísfirðingur – líkt og ég – kom okkur saman um það síðar á lífsleiðinni, að innst inni værum við frá Djúpi og Ströndum. Við værum aldir upp á slóðum Fóstbræðrasögu – nánar tiltekið á 13du öld.

Hvernig þá? Nú, á hverju sumri frá því skóla lauk, fram að fermingaraldri,  vorum við vistaðir inni í Djúpi: Hann að Eyri í Seyðisfirði. Ég í Ögri. Og umhverfi og aldarfar minnti meira á 13du öldina en seinni helming 20stu aldar.

Það voru hvorki vegir, brýr né bryggjur, né heldur traktorar eða turbo- trukkar. Ef þú þurftir að bregða þér bæjaleið, var farið á hestbaki eða jafnvel undir seglum. Víst var komin vél í bát, en þar með flykktist fólkið burt úr sveitinni í verstöðvarnar. Þess vegna  urðum við Ísfirðingar.

Leiðir okkar Adda Geirs lágu saman frá fyrsta degi í barnaskóla og á unglingsárum. Það duldist ekki, að hann var foringjaefni: Svo geiglaus og galvaskur, að við treystum honum í mannraunum (sjá : Tilhugalíf, Barist við ofurefli, bls. 48).

Þótt draumar okkar um formennsku í eigin útgerð hafi ekki rætst (bókstaflega), áttum við Addi Geir það sameiginlegt að stunda sjó á sumrum, á línu, á síld og á togurum, til að kosta framhaldsnám. Hann fór, eins og Ísfirðinga var siður, í MA og þaðan í lögfræðinám, ég fór í MR og hagfræði í útlöndum. Á góðra vina fundum gátum við því skiptst á sögum af sægörpum og  svaðilförum, sem bragð var af.

Og römm er sú taug, sem rekka dregur föðurtúna til: Frá blautu barnsbeini var Addi Geir óviðráðanlegur skíðagarpur. Hvergi undi hann sér betur en í snarbröttum himinhæðum Seljalandsdals. Umlukinn öræfaþögn óbyggðanna hét hann sjálfum sér því að „þaðan færi hann aldrei“. Og sneri heim í átthagana til að gjalda fósturlaunin.

En enginn má sköpum renna. Í seinasta bruninu beið hans bylta svo grimmileg, að hann beið þess aldrei bætur. Þar með var þetta þrekmikla karlmenni brotið á bak aftur. Lamaður.  Alla daga uppfrá því var hann upp á náð og miskunn annarra kominn.

En – á stund ósigursins sýndi Arnar Geir Hinriksson endanlega, hvern mann hann hafði að geyma. Aldrei heyrði nokkur maður hann kvarta undan örlögum sínum. Aldrei. Æðrulaus til hinstu stundar.

Einbeittur, dag eftir dag og stund eftir stund, byggði hann upp getu sína til að taka þátt í því lífi, sem forlögin höfðu búið honum.

Það var kraftaverki líkast.

Þannig varð hann okkur hinum fyrirmynd.

Jón Baldvin Hannibalsson