Ámundi Ámundason, minning

Ámi var sonur einstæðrar móður.  Hann ólst upp í verkamannabústöðunum í Holtunum. Og fór að vinna fyrir sér og sínum fyrir fermingu. Hann lærði því af reynslunni  að samstaða fátæks fólks skiptir sköpum í lífsbaráttunni.  Þess vegna var hann „krati“ frá blautu barnsbeini.

Ámi lá aldrei á liði sínu, þegar ryðja þurfti brautina. Þegar Hljómar kvöddu sér fyrst hljóðs, kvað við nýjan tón. Það kom í hlut Áma að ryðja brautina með þeim.  Og guðfaðir Stuðmanna, Jakob Frímann, minnist örlætis hans í upphafi vegferðar þeirra, sem enn er ekki lokið.

Og svo var það pólitíkin: Ástríðan, sem leiddi okkur Áma saman. Vimmi hafði vaðið eld og brennistein til að vekja flokk alþýðunnar aftur til lífsins með ungri kynslóð. Hann kvaddi mig að vestan til að ritstýra Alþýðublaðinu. Sem ritstjóri átti ég sæti  í þingflokknum. Mér rann til rifja, hvernig  „stóra sigrinum“ 1978 var klúðrað í aumkunarverðu ráðaleysi.

Við Vimmi höfðum frumkvæði að því að slíta þessari vonlausu stjórn. Við knúðum fram nýjar kosningar fyrir jólin 1979. Við tók pólitísk upplausn. Henni lauk ekki fyrr en með valdaskeiði endurnýjaðs Alþýðuflokks (1987-95).  Við réðum niðurlögum óðaverðbólgunnar, umbyltum skattkerfinu, opnuðum þjóðfélagið með EES-samningnum og lögðum grunn að nýju vaxtarskeiði. Vinstristjórn Steingríms Hermannssonar (1988-91) var best mannaða ríkisstjórn lýðveldissögunnar ásamt með fyrstu Viðreisnarstjórninni (1959-63).

En það kostaði blóð, svita og tár. Fyrir formannskjör á flokksþingi Alþýðuflokksins haustið 1984 gaf ég eitt kosningaloforð (upp í ermina mína): Að ég myndi „leggja upp í langferð um öll byggð ból á Íslandi“ með okkar róttæka boðskap og lausnir, þannig að „hin ósvikna og upprunalega rödd jafnaðarstefnunnar heyrðist með þeim kraftbirtingarhljómi, að undir tæki í fjöllunum“ (sjá: „Tæpitungulaust  – lífsskoðun jafnaðarmanns“, bls. 22).

Daginn eftir var Ámi mættur fyrir utan hjá okkur Bryndísi á Vesturgötunni með ferðbúinn sendiferðabíl; og veggteppi í skottinu, sem Alþýðuflokkskonur höfðu ofið  og á var letrað: „Vinna, velferð, jöfnuður“.   – Þar með lögðum við í‘ann.

Eitt hundrað fundum og næstum ári síðar hafði fylgi Alþýðuflokksins rokið upp úr „pilsner-styrk“ (3.5-5.0%) í yfir 30%.  Við jafnaðarmenn höfðum aftur tekið frumkvæðið í pólitíkinni og vorum komnir á fulla ferð. Það var alls staðar fullt út úr dyrum. Einatt mátti sjá, að Hljómar, Bubbi –  og jafnvel Stuðmenn –  höfðu verið þarna á undan okkur. En við höfðum vinninginn víðast hvar varðandi aðsókn.

Aldrei varð ég var við, að Ámi sendi reikninginn.

Nú er komið að leiðarlokum. Ég þakka samfylgdina og bið þér fararheilla, kæri vinur.

Jón Baldvin Hannibalsson

Fv. formaður Alþýðuflokksins – jafnaðarmannaflokks Íslands