Brynjólfur Jónsson, minning

Það lék allt í höndunum á honum Binna. Ef hann settist við píanóið, hljómaði lagið fyrr en varði. Hann lærði aldrei að lesa nótur. Þetta var bara meðfætt. Hann var líka eini maðurinn, sem ég þekkti, sem hafði próf upp á það, að hann kynni að gera við saumavélar. Það lék sem sé allt í höndum hans.

Einhvers staðar stendur skrifað: „Vertu trúr yfir litlu, og ég mun setja þig yfir mikið“.Þannig var það með hann Binna. Allt í einu var hann floginn til Vesturheims – nánar tiltekið Tulsa, Oklahoma – til þess að læra að gera við flugvélar. Eftir það hvarf hann sjónum okkar löngum. Hans aðalstarfi var að halda risaþotum gangandi í millilandaflugi. Af því leiddi, að heimurinn varð hans vinnustaður: frá Íslandi til Ameríku (Oklahoma, Lousiana, Connecticut, Maryland, New York og víðar); til Evrópu (Belgía og Spánn), til Mið-Austurlanda og í Afríku. Þar vann hann lengst af í Nígeríu.

Svona vaxa verkefnin í höndum þeirra, sem reynast trúir yfir litlu.

Við Binni vorum systkinabörn á líku reki. Jón, faðir hans, var bróðir móður minnar, Aldísar Þorbjargar. Við hittumst í fjölskylduboðum, þar sem við fundum hvort annað – ég dansaði fyrir gesti. Hann spilaði undir. Löngu seinna áttuðum við okkur á, að faðir hans, Jón Brynjólfsson, tengdi fjölskyldu okkar, bæði við Ísafjörð og Alþýðuflokkinn. Jón, pabbi hans, var um skeið bæjarstjóri í „Rauða bænum“ á Ísafirði. Hann var endurskoðandi Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins og dó í ræðustól á flokksstjórnarfundi Alþýðuflokksins í Iðnó. Eldri bræður hans og móður minnar, Magnús og Ólafur, áttu ótaldar vinnustundir sem sjálfboðaliðar við að byggja Alþýðuhúsið í Reykjavík. Þegar þeir fórust með togaranum Leifi heppna í Halaveðrinu mikla árið 1925, þyrmdi sorgin yfir fjölskyldu okkar.

Enn í dag nístir sorgin sú hjarta okkar.

Binni var alla tíð trúr mannréttindahugsjón jafnaðarstefnunnar. Þegar Jón Baldvin fór að blanda geði við okkar fjölskyldu, tók Binni honum strax fagnandi. Þeir urðu miklir mátar. Þegar hatursfull öfl reyndu ítrekað að níða af okkur æruna, brást það aldrei, að Binni stóð þétt að baki okkar, hvar sem hann var staddur í heiminum. Traust hans var óbilandi. Hann reyndist vera trúr og tryggur, þegar mest á reyndi.

Fyrir það erum við ævinlega þakklát.

Seinustu árin átti konan hans Binna, Margrét Jónsdóttir, (hún Ditta) við þungbær og erfið veikindi að stríða. Það var aðdáunarvert, hversu vel Binni stóð með henni í þeim raunum, svo að aldrei brást. Og það var honum þungbær raun, þegar hún kvaddi þennan heim fyrr í þessum mánuði.

Nú sjáum við á bak þeim báðum. Þau voru óaðskiljanleg.

Bryndís og Jón Baldvin