Minning: HRAFN JÖKULSSON

Hrafn Jökulsson er nú kominn að leiðarlokum: „Þar sem vegurinn endar“.

Eftir stormasamt líf, þar sem skiptust á skin og skúrir, gat hann kvatt sína samferðarmenn með brosi á vör. Hann hefur svo sannarlega goldið fósturlaunin fullu verði. Hann hefur skilið eftir sig listaverk, sem mun halda nafni hans á loft um ókomna tíð.

„Þar sem vegurinn endar“, lífssaga Hrafns (2007) er ein af perlum íslenskra bókmennta. Hún er lífssaga gáfnaljóss, sem rekur sig snemma á harðneskju heimsins. Hún er Íslandssagan í hnotskurn. Hún er byggðasaga okkar Strandamanna, þar sem segir frá óvæginni lífsbaráttu við óblíð náttúruöfl, sem gefa engin grið. Þar sem fólk gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana.

En öll er þessi saga sögð með næmu innsæi listamanns. Kímnin í augum höfundar leynir sér ekki í eftirminnilegum persónulýsingum, sem verða til í þessu umhverfi. Lífið er kröfuhart. En líka gjöfult þeim, sem ekki guggna.
Og þannig var Hrafn sjálfur. Viðkvæmur – já, vissulega. Næmur á umhverfið og örlátur við þá, sem voru hjálpar þurfi. En samt harður nagli innst inni við sjálfan sig. Hann gafst ekki upp.

Við Hrafn deilum þeirri fágætu upphefð að hafa verið ritstjórar Alþýðublaðsins. Það blað var vissulega einhver fásénasti fjölmiðill heimsins, en á köflum enhver sá best skrifaði.

Sú var tíð, að Hrafn var stríðsfréttaritari Alþýðublaðsins í borgarastyrjöldinni á Balkanskaga, þar sem Serbar, Króatar og Bosníumúslimar bárust á banaspjót. Sagan af því, hvernig Hrafn stefndi sjálfum sér og öðrum í bráðan lífsháska við flóttann frá Sarajevo, með því að hafa lofað vini sínum, Boyan að koma ástarbréfum hans til Özry – unnustu hans – yfir víglínuna, er lítil perla.

Þótt ástarbréfin væru opnuð með byssustingjum, sluppu þeir félagar með skrekkinn. Sagan er óður til ástarinnar á tímum lífsháskans (sjá: Þar sem vegurinn endar, bls. 83-91).

Að leiðarlokum flytjum við Bryndís fjölskyldu Hrafns og vinum einlægar samúðarkveðjur.

Jón Baldvin og Bryndís