Ingvar Gíslason, minning

Andlátsfregnin fór fram hjá mér, þar sem ég sit um sinn fjarri heimaslóðum. En ég get ekki látið hjá líða að kveðja þennan eftirminnilega samferðarmann. Ingvar var framsóknarmaður af hinum þingeyska skóla Jónasar frá Hriflu, meðan samvinnuhugsjónin tendraði enn vonir í brjóstum manna.

Ég þekkti nokkuð til hans fólks. Sumarið sem síldin brást 1956 smyglaði ég mér um borð í Þormóð ramma fra Siglufirði. Þar var Kristján, bróðir Ingvars, bátsmaður á minni vakt. Þar um borð sungu menn ættjarðarljóð á Grímseyjarsundi, á meðan gert var að.

Á námsárunum var ég líka til sjós með Tryggva, yngri bróður Ingvars. Við vorum á reknetum, þar sem þessir verðandi skólameistarar þóttust bjarga því, sem bjargað varð hjá einhverri hallærisútgerð í Hafnarfirði. Og svo kvæntist hann Tryggvi bekkjarsystur minni í Skeggjabekk í Laugarnesskólanum, henni Margréti, sem sló okkur öllum við í lærdómnum. Síðar átti ég eftir að njóta góðs af reynslu Tryggva, skólameistara hins norðlenska skóla, við að byggja upp Menntaskólann á Ísafirði.

Við Ingvar kynntumst fyrst í fjölskrúðugri sendinefnd, sem fór vítt og breitt um hina aflöngu strandlengju Noregs, þar sem við fylgdumst með sálarstríði frændþjóðarinnar í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu. Hún var þá felld í fyrra sinnið. En eftir sátu kynnin við þennan skáldmælta ferðafélaga, sem kastaði fram stökum um tilvistarvanda frændþjóðarinnar jafnóðum, og að því er virtist, fyrirhafnarlaust. Þaðan í frá endurnýjuðum við kynnin af og til, þegar færi gafst frá hinum pólitíska pataldri – mér ævinlega til ómældrar ánægju.

Það sem mér fannst mest um persónuleika Ingvars var hvorki lögmaðurinn né pólitíkusinn, heldur skáldið og fagurkerinn. Ég fullyrði, að hann var listfengasti hagyrðingur á Alþingi um sína daga. Sem slíkur var hann hrókur alls fagnaðar á mannamótum. Háttvísi hans var við brugðið. Það besta í skáldskaparerfð okkar var honum í blóð borið. Sjálfur var hann ekki einungis snjall hagyrðingur, heldur listaskáld, þótt leynt færi.

Um leið og ég flyt afkomendum og stórfjölskyldu hans einlægar samúðarkveðjur við fráfall hans, skora ég á þau að halda skáldskap hans til haga, því að ég þykist vita, að þar leynist perlur, sem verðskulda líf.