Um þá sem þora…

  Ein af grjótblokkunum sem hlaðið var í víggirðingu kringum þinghúsið (Seimas) í   Vilníus  í janúar 1991 bar síðar þessa áletrun: „Til Íslands sem þorði, þegar aðrir þögðu“. Heimildamynd Ólafs Rögnvaldssonar um stuðning Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltstþjóða heitir: „Þeir sem þorðu……“ Fyrirsögn greinarinnar vísar til þessa.

Í næstum hálfa öld voru Eystrasaltsþjóðirnar hinar gleymdu þjóðir Evrópu. Lönd þeirra voru þurrkuð út af landakortum heimsins.  Tungumál þeirra voru til heimabrúks, og þjóðmenningin lifði af neðanjarðar. Þessar þjóðir voru horfnar af pólitískum radarskjá umheimsins. Þegar ég ræddi um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða við starfsbróður minn, utanríkisráðherra NATO- ríkis, reyndi hann að eyða umræðuefninu með eftirfarandi ummælum: „Hafa þessar þjóðir ekki alltaf tilheyrt Rússlandi?“

Þeir atburðir sem náðu athygli almennings vítt og breytt um heiminn urðu til þess að breyta þessu. Fyrri atburðurinn var „Syngjandi byltingin“ í júní 1988. Menn könnuðust víða við borgaralega óhlýðni í anda Gandhis, en að syngja sig í átt til frelsis – það var nýmæli.

Hinn atburðurinn sem náði inn á forsíður blaða og sjónvarpsskjái heimsins var „mannlega keðjan“ í ágúst 1989. Næstum tvær milljónir manna héldust í hendur frá Tallinn í Norðri til Vilníusar í Suðri til að mótmæla Molotov-Ribbentrop samningnum og leyniskjölum hans frá því fyrir hálfri öld (1939). Þessi alræmdi samningur milli tveggja einræðisherra, Hitlers og Stalíns, reyndist vera upphaf Seinni heimsstyrjaldarinnar.  Samkvæmt samingnum var Stalín gefið frítt spil til að innlima Eystrasaltsþjóðirnar í Sovétríkin, þar með talið Finnland – eitt Norðurlandanna.

Lok Kalda sgtríðsins

Syngjand byltingin táknaði ekki bara þjóðarvakningu. Þetta var táknmynd lifandi grasrótarlýðræðis. Leiðtogar sjálfstæðishreyfinga Eystrasaltþjóðanna – Eista, Letta og Litháa – höfðu því ærna ástæðu til að ætla, að þeim yrði tekið opnum örmum af leiðtogum lýðræðisríkja í Evrópu.

En þeir áttu eftir að vakna upp við vondan draum. Þegar fyrstu sendinefndir þeirra voru gerðar út af örkinni til að leita stuðnings vestrænna leiðtoga, var þeim fálega tekið. Endurreist sjálfstæði Eystrasaltsþjóða, sem fól í sér að segja sig úr lögum við Sovétríkin, féll ekki inn í heildarmyndina, eins og hún blasti við leiðtogum Vesturveldanna. Þeir voru að semja við Gorbachev, leiðtoga Sovétríkjanna um lok Kalda stríðsins. Brotthvarf Eystrasaltsþjóða úr Sovétsambandinu samrýmdist ekki  þeirri áætlun. Smám saman rann það upp fyrir mönnum eins og Lennart Meri og Vytautas Landsbergis, að þeim væri tekið sem óvelkomnum boðflennum í félagsskap stórveldanna, sem töldu sig hafa annarra hagsmuna að gæta.

Leiðtogar sjálfstæðishreyfinga Eystrasaltsþjóða höfðu m.ö.o. stillt leiðtogum vestræns lýðræðis upp frammi fyrir vandamáli, sem þeir höfðu skapað sér sjálfir. Nefnilega, að eiga árangur stefnu sinnar undir póltiskum örlögum eins manns – Gorbachev – eins og síðar kom í ljós.

Þetta er kafli í sögunni um endalok Kalda stríðsins, sem leiðtogar Vesturveldanna vilja skiljanlega helst gleyma, en þeir sem nú ráða ríkjum í Kreml, munu seint gleyma.

Endataflið

Fyrst skulum við hafa það á hreinu, að syngjandi byltingin hefði ekki getað brotist fram, ef ekki hefði verið fyrir stefnu Gorbchevs, sem kennd er við Glasnost (opnun), og Perestroiku (kerfisbreytingu). Þetta voru vörumerkin á þeim umbótum, sem Gorbachev boðaði. Jafnvel þótt opnunin hefði reynst vera takmörkuð og boðaðar kerfisbreytingar næðu ekki fram að ganga,  breytir það ekki því, að ákvörðun Gorbachevs um að beita ekki valdi til að varðveita landvinninga Sovétríkjanna í Seinni heimsstyrjöldinni, gerði lok Kalda stríðsins möguleg.

Annað:  Tækist Eystrasaltsþjóðum að brjótast út úr þjóðafangelsi Sovetríkjanna, gæti það orðið upphafið að endalokum nýlenduveldisins. Pólitísk flóðbylgja af þessum styrkleika myndi ekki einasta sópa Gorbachev sjálfum af veldisstóli, heldur jafnvel binda endi á völd kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna. Auðvitað veltum vð því mjög alvarlega fyrir okkur á þessum tíma, hvort svo söguleg umskipti gætu orðið friðsamleg? Eða myndu fjörbrot heimsveldisins leiða til styrjaldar með ófyrisjáanlegum afleiðingum? Um stund vorum við á ystu nöf í ársbyrjun 1991.

Í þriðja lagi: Leiðtogar Vesturveldanna á þessum tíma – Bush eldri Bandaríkjaforseti, Kohl kanslari, Mitterrand, Frakklandsforseti og járnfrúin Thatcher, forsætisráðherra Bretlands – töldu sig öll eiga árangur stefnu sinnar  undir örlögum Gorbachevs. Þeir gáfu sér það, að félli hann frá völdum myndu harðlínumenn koma í staðinn. Það hefði í för með sér nýtt Kalt stríð – og jafnvel í versta tilviki styrjöld í Austur-Evrópu.

Í fjórða lagi: Það var heilmikið í húfi. Afvopnun – bæði kjarnavopna og venjulegra vopna – samdráttur í herafla beggja og brottför hernámsliða; friðsamleg sameining Þýskalands og áframhaldandi aðild Sameinaðs Þýskalands að NATO; frelsun þjóða Mið-og Austur-Evrópu frá undirokun Sovétríkjanna; gagnkvæmar vonir um „friðarávinning“, svo að fátt eitt sé talið. Fyrir Sovétleiðtogann, Gorbachev, sem átti þá mjög í vök að verjast heima fyrir, var seinasta varnarlínan dregin í sandinn sú, að halda Sovétríkjunum saman undir nýrri stjórnarskrá, hvað sem það kostaði. Héldi sú varnarlína ekki, myndi hann fyrirgera völdum sínum.

Hvers vegna Ísland?

Leiðtogar Vesturveldanna stóðu frammi fyrir hörðum kostum: Ættu þeir að fórna öllum ávinningi af samningum um lok Kalda stríðsins með þvi að lýsa yfir stuðningi við endurheimt sjálfstæði Eystrasalstsþjóða? Eða ættu þeir að fórna þessum smáþjóðum –  í því skyni að varðveita að frið og stöðugleika?

Bilið milli orðræðu þeirra um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og að færa út landamæri lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis annars vegar, og þeirrar stórveldapólítíkur, sem þeir fylgdu í reynd hins vegar, var orðið óbrúanlegt.

Það  var þess vegna sem Bush Bandaríkjaforseti flutti ræðu í þinginu í Kænugarði í ágúst 1991, sem síðan hefur þótt með endemum. Í ræðunni skoraði hann á Úkraínumenn að „láta ekki stjórnast af öfgkenndri þjóðernishyggju“, heldur halda Sovétríkjunum saman „í nafni friðar og stöugleika“.

Það var þess vegna sem Kohl kanslari og Mitterrand forseti skrifuðu sameiginlega bréf til Landsbergis, leiðtoga sjálfstæðishreyfingarinnar í Litáen, þar sem þeir skoruðu á hann að fresta framkvæmd sjálfstæðiyfirlýsingar Litháa frá 11. mars 1990.

Það var þess vegna sem leiðtogar sjálfstæðishreyfinga Eystrasaltsþjóðanna voru gerðir afturreka frá ráðstefnu um „hina nýju heimsmynd“, sem leiðtogar stórveldanna voru að semja um sín í milli við endalok Kalda stríðsins. Talsmönnum Eystrasaltsþjóða var jafnvel ekki leyft að tala máli sínu á ráðstefnu í Kaupmannahöfn um mannréttindi, þar sem þeir voru jafnvel kallaðir „friðarspellvirkjar“.

En hvers vegna sætti Ísland sig ekki við þessa niðurstöðu? Það voru engir þjóðarhagsmunir í húfi. Þvert á móti: Ísland var háð Sovétrikjunum um innflutning á eldsneyti –  sem er lífblóð nútímahagkerfa – allt frá því að Bretar skelltu viðskiptabanni á Ísland í þorskastríðunum (1954-75) .  Vissum við kannski ekki, að smáþjóðum er ætlað leita skjóls hjá stórþjóðum og lúta forystu þeirra? M?.ö.o. kunnum við ekki viðtekna mannasiði?

Allt er þetta vel þekkt. Engu að síður vorum við tregir til fylgispektar. Leiðtogar Vesturveldanna létu augljóslega stjórnast af eigin hagsmunum. Við vorum hins vegar sannfærðir um, að fylgispekt vestrænna leiðtoga við Gorbachev væri misráðin. Hún byggði á rangri og yfirborðskenndri greiningu á pólitískum veruleika Sovétríkjanna. Ég  var sannfærður um, að Sovétríkin væru sjálf í tilvistarkreppu, sem leiðtogar þeirra fundu enga lausn á. Heimsveldið væri að liðast í sundur rétt eins og evrópsku nýlenduveldin í kjölfarið á Seinni heimsstyrjöldinni.

Peðsfórn

Öfugt við Putin, sem hefur sagt, að „fall Sovétríkjanna hafi verið stærsta heimssögulega slys 20stu aldar“, var ég sannfærður um, og er enn, að hrun Sovétríkjanna hafi verið  eitt af því besta sem gerðist á 20stu öldinni. Hafi það þurft lítilsháttar þrýsting Eystrasaltsþjóða til að koma því  af stað, þeim mun betra. Um hvað snerist Kalda stríðið allan þennan tíma, ef ekki um frelsun þjóða í hlekkjum.

Mér var stórlega misboðið að heyra leiðtoga vestrænna lýðæðisríkja áminna undirokaðar þjóðir um, að þær ættu að sætta sig við örlög sín til þess að við á Vesturlöndum gætum notið „friðar og stöðugugleika“. Í mínum eyrum hljómaði þetta ekki bara sem smánarleg svik, heldur sem örlagarík mistök.

Upprifjun þessarar sögu þremur áratugum síðar vekur upp margar spurningar, sem fæstum hefur verið svarað. Ein þeirra er þessi: Voru leiðtogar vestrænna lýðræðisríkja svo forhertir, að þeir væru reiðubúnir að fórna lögmætum kröfum Eystrasaltsþjóða

um endurreist sjálfstæði í staðinn fyrir pólitískan ávinning  í samskiptum við Sovétríkin? Þótt það líti þannig út, er veruleikinn ef til vill nokkru flóknari. Höfum í huga, að  Eystrasaltsþjóðirnar höfðu horfið af radarnum í næstum hálfa öld. Í þeim skilningi voru þær gleymdar þjóðir. „Hafa þessar þjóðir ekki alltaf tilheyrt Rússlandi, hvort sem er?“ – eins og ónefndur utanríkisráðherra NATO-ríkis sagði við mig, og ég vitnaði til fyrr.

Samstaða smáþjóða

Hafi þetta verið ríkjandi skoðun í stjórnarstofnunum Evrópuríkja, bendir það til þess, að vestrænir leiðtogar hafi ekki talið sig vera að fórna neinu. Höfum í huga, að forystuþjóðir Vesturveldanna – Bretar, Frakkar, Spánverjar og einnig Bandaríkjamenn – allt eru þetta fyrrverandi nýlenduveldi. Í Bandaríkjunum braust út illskeytt borgarastyrjöld til að koma í veg fyrir upplausn ríkjabandalagsins. Það hvarflar ekki að mér að gefa í skyn, að bandaríska borgarastríðið, sem hafði að markmiði afnám þrælahalds, megi bera saman við árásarstríð nýlenduvelda, sem hafa að markmiði að undiroka þjóðir. En grundvallarreglan er sú sama: að koma í veg fyrir upplausn ríkjabandalagsins.

Stóra-Bretland –  öðru nafni Sameinaða konungsdæmið – gengur nú í gegnum tilvistarkreppu, rétt eins og Spánn, og hryllir við þeirri tihugsun, að ríkjabandalagið kunni að leysast upp. Nýlenduveldi – t.d. Bretar, Frakkar og Spánverjar – hafa háð grimmileg stríð til að koma í veg fyrir upplausn nýlenduvelda.

Þess er ekki að vænta, að leiðtogar stórvelda, sem voru á einhverju sviði nýlenduveldi, séu í fararbroddi við að verja sjálfsákvörðunarrétt smáþjóða. Þess eru tæpast dæmi, að smáþjóðir hafi verið frelsaðar vegna gæsku stórvelda. Þær verða einfaldlega að frelsa sig sjálfar. Við slíkar kringumstæður getur það gerst, að samstaða smáþjóða skili árangri – þrátt fyrir allt.

(höf.var utanríkisráðherra Íslands 1988-95. Hann er heiðursborgari í Vilnius, höfuðborg Litháen)