Minning: RAGNA AÐALSTEINSDÓTTIR Á LAUGABÓLI

RAGNA Á LAUGABÓLI var eftirminnileg persóna, hverjum sem henni kynntist. Hún var einstök og engum lík. Skar sig úr hópnum, hvar sem var. Þori ég að segja það sem ég hugsa: Hún var Bjartur í Sumarhúsum í kvenkyni?

Hún er fyrirferðarmikil í minningum mínum frá uppvaxtarárunum við Djúp. Það var um miðja síðustu öld. Ég var bara sveitastrákur í Ögri, í sumarvist í sjö sumur. Ögur var samgöngumiðstöð við sunnanvert Djúpið. Þá sátu þau Hafliði, móðurbróðir minn og kona hans, Líneik, hið sögufræga stórbýli.

 Í þann tíð var búið á hverjum  bæ: í Ögri, á Garðsstöðum og Strandseljum, í Hagakoti og á Hrafnabjörgum og Birnustöðum og á Blámýri og Laugabóli. Þar tók Ragna ung við búsforráðum af föður sínum. Hún var karlmannsígildi til allra verka, hvort heldur var að hlaða 50 kg. áburðarpokum eða að gera við traktorinn. Samt skorti ekkert á kvenlegan þokka, þar sem hún fór á ljúfu tölti um Grundirnar.

Þá var enginn Djúpvegur og engin bryggja, þótt gestkvæmt væri. Það var róið út í Djúpbátinn með okkar búsafurðir og tekið á móti, hvort heldur var fólki eða varningi í staðinn. Þeir sem áttu erindi inn í Djúp fóru leiðar sinnar á hestbaki. Og þurftu oft leiðsögn okkar liðléttinganna á hestum, sem rötuðu veginn blindandi. Stundum þóttumst við vera Kósakkar á Volgubökkum. Lífið varf endalaust ævintýri.

Ragna var bóndi og bústólpi þessa byggðarlags til hinsta dags. Þótt hún fastnaði sér ekki karl til sambýlis, eignaðist hún börn og buru og kom þeim ein og óstudd til manns. Þar að auki voru þeir ófáir, sem leituðu á náðir Rögnu, þegar fjaraði undan þeim í þeirra lífi. Og hún kom þeim aftur á kjöl.

Lífið fór engum silkihönskum um Rögnu. Hún fékk meira en sinn skammt af mótlæti, hvort heldur var af mannavöldum eða sjálfra náttúruaflanna. En um hana má segja, að hún bognaði aldrei en „brast í bylnum stóra seinast“.

Þegar komið er að kveðjustundinni dylst ekki, að þeir eru ófáir, sem eiga Rögnu á Laugabóli gott upp að unna.

Blessuð sé minning hennar.

Jón Baldvin Hannibalsson