SÖGUBURÐUR II

Það sem hér fer á eftir er upptalning á kærumálum Aldísar og „grúppunnar“ í kringum hana, sem vísað var til lögreglu 2013 og áfrýjað til saksóknara, sem í báðum tilvikum vísuðu þeim frá þar sem ekki hefði verið færðar sönnur á refsiverða háttsemi.

  1. Aldís Baldvinsdóttir

Ákæran var um kynferðislega misnotkun á dætrum mínum í æsku og sifjaspell með elstu dóttur minni, þegar hún var vistuð á geðdeild. Einsog fyrr sagði voru þessar sakargiftir dæmdar „dauðar og ómerkar“ og tilhæfulausar með Héraðsdómi 12.mars 2021. Aldís treysti sér ekki til að áfrýja dómnum. Sama máli gegnir um aðra ófrægingaróra í hennar sögusafni: Kennslu í sjálfsfróun, sýningu á kynfærum, mök við tengdamóður o.s.frv. Allt er þetta að sjálfsögðu tómt bull, væntanlega sett fram í maníu.

2. Hagaskóli

Sakarefnið er, að undir yfirskyni aðstoðar við heimanám, hafi ég sem kennari látið stúlku sitja eftir og hegðað mér einsog hálfviti. Því er haldið fram að flestir í viðkomandi bekk hafi vitað af þessu. Það er hafið yfir allan vafa, að þá hefði þetta farið einsog eldur í sinu um allan skólann. Svo vel þekkti ég Árna Þórðarson skólastjóra, stjórnsemi hans og vammleysi, að ég veit fyrir víst að kennsluferill minn hefði ekki verið lengri, ef til væri sannleikskorn í þessari sögu. Ég vísa þessu alfarið á bug. Því má bæta við að sama kona birtir eftirfarandi lýsingu á Bryndísi á fésbók MeToo:

Hún er alveg einsog hann, grípur um kinfæri (sic) ungra manna þegar hún er á filleríum“. Þessi kona er greinilega ekki ofhaldin, hvorki af sómakennd né sannleiksást. Hún dæmir sig sjálf sem ótrúverðuga.

3. Margrét Schram

Saga hennar er bráðum 60 ára gömul. Hún kom í heimsókn til mín á námsárunum í Edinborg árið 1963, þegar hún hafði gengið úr skugga um að Bryndís væri ekki viðstödd. Hún er sjálf stjörnuvitnið í málinu. Þegar Aldís fór að breiða út sögur um að Margrét héldi við föður sinn og það barst Margréti til eyrna, brást hún við með því að hóta Aldísi lögsókn. Það dugði þá. En tvísaga vitni þykja ekki trúverðug í réttarsal.

4. Elísabet Þorgeirsdóttir, nemandi í MÍ

Hún var ein af mínum eftirlætisnemendum, virk á málfundum og í leiklistarlífinu með Bryndísi. Henni varð það á að verða svolítið skotin í kennaranum sínum. Það er ekki einsdæmi, en hefur hingað til ekki þótt refsiverð háttsemi.

5. Dimmisjón við MÍ 1979

Sakarefnið átti að vera að skólameistari hefði verið nakinn í sundlauginni í Bolungarvík að eltast við námsmeyjar með ósæmilegum hætti. Í símtölum við gamla nemendur og kennara var þetta sagt fráleitt, þótt enginn þyrði að staðfesta það opinberlega af ótta við refsivönd MeToo. Loks kom að því að einn nemandi upplýsti að skólameistari væri þarna hafður fyrir rangri sök. Það hefði verið kvartað undan framgöngu ungs stundarkennara við skólann. Sögur af hegðun hans hefðu síðar verið yfirfærður á skólameistarann. Þessi söguburður hefði hvorki staðist rannsókn né vitnaleiðslur. – Í bréfinu segir: „Hins vegar finnst mér vont að sjá, áratugum seinna, þegar þessir atburðir eru rifjaðir upp í blöðum – og þá í tengslum við ásakanir Aldísar í garð föður síns – að hegðun þessa unga manns skyldi vera yfirfærð á Jón Baldvin.

6. Lygisaga frá London

Upphaflega var söguberinn nafnlaus en Mbl.is fékk hana til að „stíga fram“. Hún tók það fram að það væri opinbert leyndarmál sitt að hún „hataði“ Jón Baldvin og Bryndísi. Hún bjó til skröksögu um ósæmilega hegðun JBH í hádegisverðarboði íslenska sendiherrans í London þar sem Bryndís var líka viðstödd og átti að hafa borið blak af ruddanum. Sagan var hreinn tilbúningur. Helber lygi. Bryndís svaraði henni í stuttri grein í Mbl. Það dugði. Síðan ekki söguna meir.

7. Rógburður í ráðherrabústað

Sagan segir frá sauðdrukknum dóna sem kvartar undan kvenmannsleysi og áreitir stúlku í þjónustuliðinu sem á að hafa verið undir lögaldri. Loks hafi sjálfur veisluhöldurinn gripið í taumana og vísað dólgnum á dyr. Aðspurður gaf veisluhöldur ríkisins í Ráðherrabústað eftirfarandi yfirlýsingu: (1) Jón Baldvin var aldrei gestur í Ráðherrabústað á umræddu ári og þar af leiðandi aldrei vísað þaðan út (2) Enginn starfsmanna minna kannast við umrædda frásögn (3) enginn í starfsliði mínu var undir lögaldri – „Sagan því virðist því vera uppspuni frá rótum“ – Elías Einarsson (sign).

8. Vinkonan tvísaga

Sagan er lögð í munn æskuvinkonu Aldísar frá Ísafjarðarárunum, ein af mörgum í sögusafni hennar. Við hana er það að athuga að vinkonan dró hana tilbaka fyrir mörgum árum, sem leiddi til vinslita þeirra. Yfirlýsing hennar var svohljóðandi: „Ég hef aldrei orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu Jóns Baldvins og hann hefur aldrei káfað á mér“.

9. Guðrúnar saga Harðardóttur

Árið 2005 kærði Guðrún JBH til lögreglu fyrir meinta kynferðislega áreitni. Þegar þeirri kæru var vísað frá kærði hún til saksóknara, í það skiptið í það skiptið fyrir særða blygðunarkennd. Sú kæra var rannsökuð, m.a. með yfirheyrslum og vitnaleiðslum. Báðum vars vísað frá, þar sem ekki þótti tilefni til sakfellingar. Þrátt fyrir ótvíræða niðurstöðu er samt látið einsog hinn ákærði sé víst sekur, af því að hann var sagður svo valdamikill, að hann gæti látið réttarkerfið dæma sér í vil. Það er bara bull. Niðurstaðan stendur óhögguð. (Sjá: „Að gera hreint fyrir sínum dyrum“, www.jbh.is)

10. Svefnpoki í útilegu

Bryndís ætlaði að gefa frænku sinni svefnpoka í útilegu. Hringdi í mig og bað mig að taka mál af stelpunni. Þar sem ég var heima vinnandi. Ég hlýddi. Ekki hvarflaði að mér að þessu yrði áratug síðar snúið upp í kynferðislega áreitni! Stúlkan segir: „Hann kom ekki við mig á óviðeigandi stöðum, en ég man að mér leið illa“.

11. Fjarri góðu gamni

Sagan lýsir grillveislu í sumarbústað foreldra Bryndísar í Mosfellssveit, „vegna nýrrar sundlaugar við bústaðinn“ og á að hafa gerst sumarið 1982. Stúlkan kvartaði undan busli í lauginni. Skv. heimildum þeirra sem gerst mega vita, var sundlaugin tekið í notkun á fyrri hluta áttunda áratugarins. Á þeim tíma vorum við Bryndís búsett á Ísafirði og hvergi nærri. Ótal vitni staðfesta að hvorugt okkar Bryndísar sótti þessa grillveislu.

12. Ferðin sem aldrei var farin

Sagan er sögð gerast í ferð Alþýðuflokksins árið 1998 „seinasta árið hans sem formaður Alþýðuflokksins“. Við þetta er tvennt að athuga: Ég lét af formennsku í Alþýðuflokknum árið 1996 og var búsettur í Bandaríkjunum frá upphafi árs 1998. Seinasti kosningastjóri minn (sem er sagður koma þarna við sögu) hætti eftir kosningarnar 1995. Sagan er með öðrum orðum hreinn tilbúningur.

13. Fullkomin fjarvistarsönnun

Frásögnin ber með sér, að sagan á að gerast á skólaárinu 1976/1977 við Menntaskólann á Ísafirði. Skólameistari á að hafa boðið stúlku inn á skrifstofu sína. Við þetta er það að athuga, að á þessu skólaári var JBH Fulbright-styrkþegi við Harvard háskóla í Boston, Massachusets. Það verður því að finna annan sökudólg í þetta skiptið.

14. Heilaspuni um hábjartan dag

Sagan er um heimsókn okkar hjóna í garðyrkjustöð um hábjartan dag. Ég á að hafa hæðst að útliti afgreiðslukonunnar og Bryndís hlegið hæðnishlátri að dónaskap mínum. Rógburður af þessu tagi er ekki svaraverður og söguberanum til háborinnar skammar. Hver sá sem þekkir eitthvað til mín veit að ég fer ekki niðrandi orðum um útlit kvenna. Og enginn sem þekkir Bryndísi trúir því að hún hlæji hæðnishlátri að slíkum dónaskap.

15. Rándýr skv. forskrift Ingibjargar Sólrúnar?

Þarna segir frá heimsókn okkar hjóna til kunningjafólks, foreldra stúlkunnar, en þau eru ekki nafngreind. Frásögnin breytist brátt í lýsingu á manni sem er, „blindfullur, þvoglumæltur og illa lyktandi…… einsog hungraður úlfur með glott á vör“. Það sem bjargar stúlkunni frá bráðum voða er þýskur fjárhundur, sem stuggar við úlfinum í mannsmynd. Hvað varð af Bryndísi í þessu fjölskylduboði er látið ósagt.

Sagan er hreinn viðbjóður og ekki svaraverð í sjálfu sér, en orðfærið er hið sama og í maníusögum Aldísar fyrr og síðar. Þarna er að finna staðlaða lýsingu á manni, sem á að vera blindfullur eða fordrukkinn, þvoglumæltur, sveittur, illa lyktandi skrímsli með starandi augnaráð og vekur ótta og andstyggð. Álíka mannlýsingar er einnig að finna í kvikmyndahandriti Aldísar, sem hún leitar oft í smiðju til. Hún hefur að sögn leitað til nokkurra kvikmyndagerðarmanna um að slá í púkkið – en hingað til án árangurs.

16. Jazztónleikar á Rosenberg

Það voru tónleikar á Rosenberg, að sögn árið 2009. Söguhetjan er svo viss um ómótstæðilegt aðdráttarafl sitt, að hún fullyrðir að JBH hafi starað á hana „eins og rándýr allt kvöldið“. – Það gerðist sumsé ekki neitt annað en að það voru jazztónleikar á Rosenberg. Það virðist alveg hafa farið framhjá stúlkunni, sem gat ekki um annað hugsað en sjálfa sig. Ég verð því miður að hryggja viðkomandi með því að ómótstæðileg fegurð hennar hefur ekki reynst mér vera minnistæð. Það er vandlifað. En orðalagið er kunnuglegt úr leiksmiðju Aldísar.

17. Rassstrokumálið í réttarsal

Loks er það veislan á þakinu í Salborena sumarið 16.júní 2018. Undir yfirskyni vináttu koma mæðgur í heimsókn og þiggja gistingu og góðan beina. Allt fer fram fyrir opnum tjöldum. Um morguninn erum við Bryndís á þönum við matseld og undirbúning borðhalds. Það er skroppið á þorpskrána til að fylgjast með viðureign Íslands og Argentínu á HM á stórum skjá. Að leik loknum er sest að veisluborði á þakinu. Bryndís er ekki fyrr búin að segja: „Gjörið þið svo vel“, en móðirin æpir upp: „Jón Baldvin þú káfaðir á henni. Ég sá það“. Sem betur fer var þarna gestkomandi íslensk kona, sem búsett er í Andalúsíu. Eiðsvarinn vitnisburður hennar hljómar svo: „Ég hefði ekki komist hjá því að sjá það sem þarna gerðist, þar sem ég sat við hliðina á JBH. Þetta er hreinn tilbúningur og tómt rugl.

Við rannsókn málsins kom það fram að kærandinn, Carmen Josefa Jóhannsdóttir, væri að eigin sögn talsmaður grúppunnar í kringum Aldísi og að hún hefði lagt fram kæru „af því að hún hvar hvött til þess af vinkonu sinni, formanni kvennahreyfingar Samfylkingarinnar“.

Þann 8.nóv. 2021 sýknaði Héraðsdómur mig af ásökunum um að hafa „strokið rass utan klæða“ á talsmanni grúppunnar, í máli sem sérfróðum mönnum ber saman um að ákæruvaldið hafði ekki lögsögu yfir, þar sem meintur glæpur hefði gerst á Spáni. Kæruefnið er með öðrum orðum hreinn tilbúningur. Ég viðurkenni, að mér blöskrar óheilindin og óðheiðarleikinn. Til að bæta gráu ofan á svart hafa þær mæðgur krafist miskabóta upp á milljón. Var það kannski frá upphafi tilgangurinn með þessari innrás á heimili okkar?

Niðurstaða

Hvað stendur þá eftir? Að því er varðar meðferð staðreynda og sannleiksgildi, stendur ekki steinn yfir steini. Ég spyr sjálfan mig og ykkur sem lesið þessi orð: Er svo komið málum í okkar þjóðfélagi að við stöndum uppi varnarlaus frammi fyrir skipulagðri aðför að æru og heiðri af hálfu fólks, sem er heltekið af hatri og hefndarhug? Mínu mannorði í þetta sinn, þínu kannski á morgun. Ætlum við að láta þetta yfir okkur ganga?

Að lokum: Ef MeToo – hreyfingin er til, sem merkir að einhverjar geti talað í nafni hennar, þá stendur hún frammi fyrir þessari samviskuspurningu: Er skipulögð rógsherferð, af því tagi sem hér hefur verið lýst, samboðin málstað hreyfingarinnar? Er ekki kominn tími til að stíga fram og biðja þolendur illskunnar afsökunar?

Fylgiskjal:

FRÁVÍSANIR OG SÝKNUDÓMAR

Í hvert skipti sem reynt hefur á kærur á s.l. 20 árum um meinta kynferðislega áreitni hjá lögregluyfirvöldum, saksóknara eða fyrir dómi, hefur þeim verið vísað frá;  sakargiftir lýstar “dauðar og ómerkar” eða hinn ákærði sýknaður.

Ár Kæruaðili Niðurstaða
2002 Kærandi Aldís Baldvinsdóttir vísað frá
2005 Kærandi Guðrún Harðardóttir vísað frá
2007 Kærandi sami   (áfrýjun til Saksóknara) vísað frá
2013 Kærandi Aldís Schram   o.fl. vísað frá
2014 Áfrýjað til saksóknara vísað frá
2021 Meiðyrðamál E3197/2019 sakargiftir: Misnotkun 3ja dætra og sifjaspell “dauðar og ómerkar”
2021 Héraðsdómur: S4407/2020 (rassstrokumál) sýknaður
2022-2023 Ákæruvaldið áfrýjar til Landsdóms ???