SÖGUBURÐUR I

Í blaðaviðtali fyrir mörgum árum kvaðst elsta dóttir okkar Bryndísar, Aldís, ekki þekkja þá mynd, sem fjölmiðlar hefðu dregið upp af föður sínum og spurði: Má hann þá hvergi njóta sannmælis?

Þetta var árið 1995, þegar Aldís var 36 ára gömul. Sjö árum seinna hafði gagnkvæm ástúð og viðring snúist upp í hatur og hefndarhug. Hvers vegna? Svarið við því er þetta:

Samkvæmt þágildandi lögum var það mitt hlutskipti að veita ítrekað samþykki f.h. aðstandenda við beiðni geðlækna um nauðungarvistun á geðdeild – í einu tilviki um sjálfræðissviptingu – til þess að dóttir okkar fengi notið bráðnauðsynlegrar læknishjálpar.

Þetta er grafalvarlegt mál og hefur haft skelfilegar afleiðingar. Það er þetta sem hefur umhverft ást í hatur – umhyggju í hefndarhug. Það er síst ofmælt að segja að þetta sé okkar fjölskylduharmleikur.

Staðreyndirnar eru þessar: Á s.l. 20 árum hefur dóttir okkar haft frumkvæði að – eða staðið að baki – kærum á hendur mér fyrir kynferðislega áreitni við nánast allt kvenkyn í okkar fjölskyldu. Fyrst árið 2002, svo árin 2005 – 2006, því næst 2013 og 2014. Jafnoft hefur þessum kærum verið vísað frá í réttarkerfinu, þar sem ekki fundust sannanir fyrir refsiverðri háttsemi. Á þessu tímabili hefur Aldís safnað liði til að leita hefnda. Þegar MeToo – hreyfingin fór að láta að sér kveða, 2018 -2019, tók hópurinn í kringum Aldísi vörumerki MeToo – hreyfingarinnar traustataki.

Þetta var sami hópurinn (en nú undir nafni og að viðbættu hinu alræmda rassstrokumáli) og sömu sögurnar og Aldís hafði dregið saman og ritstýrt á árunum 2013 og 2014. Sömu málin, sem lögregla og saksóknari höfðu þá þegar vísað frá.

En undir gunnfána MeToo-hreyfingarinnar fékk söguburðurinn byr undir báða vængi í fjölmiðlum. Stundin byrjaði þessa fjölmiðlaherferð 11.jan. 2019. Hápunkti náði hún í útvarpsviðtali Rásar 2 þeirra félaga Sigmars og Seljan 17.jan. 2019. Þar var því útvarpað frammi fyrir alþjóð, að ég hefði gert mig sekan um að misnota dætur mínar þrjár kynferðislega í æsku og stundað sifjaspell með elstu dóttur minni, þegar hún var vistuð á geðdeild.

Þar með var okkur öllum lokið. Við buðum dóttur okkar sáttargjörð, ef hún drægi þessar upplognu sakargiftir tilbaka og bæðist afsökunar. Þegar það sáttarboð var hunsað var okkur nauðugur einn kostur að höfða meiðyrðamál á hendur RUV og dóttur okkar sem heimildamanni.

Meiðyrðamál og sýknudómar

Dómur í þessu meiðyrðamáli (E3197/2019) var kveðinn upp í Héraðsdómi 12.mars, 2021. Niðurstaðan, að því er varðar þau mál sem hér eru til umræðu, var ótvíræð. Ásakanir Aldísar um misnotkun dætra minna voru dæmdar “dauðar og ómerkar”. Í rökstuðningi dómsins var skýrt kveðið á um það, að ásökun um sifjaspell væri tilhæfulaus (sjá BLS. 50-51 í dómsorðum). Fréttamennirnir tveir voru hins vegar sýknaðir, þrátt fyrir að hafa útvarpað ósönnum sakargiftum um refsiverða háttsemi, þar sem þeir eru ekki taldir bera ábyrgð á orðum heimildamanns, skv. dómafordæmum. Þeir mega m.ö.o. ljúga einsog logið er í þá.

Og hinn 8.nóv. 2021 sýknaði Héraðsdómur mig af ásökunum um að hafa “strokið rass utanklæða” í máli (S4407/2020), sem sérfróðum mönnum ber saman um, að ákæruvaldið hafi ekki lögsögu.

MeToo – grúppan á fésbók var upphaflega mynduð til stuðnings málflutningi Aldísar í þeim kærumálum, sem hún er frumkvöðull að. Við réttarhald í rassstrokumálinu kom á daginn, að kærandinn, Carmen Josefa, var að eigin sögn talsmaður grúppunnar.

Með þessum dómum voru frumkvöðull þessara kærumála og sjálfur talsmaður hópsins báðar dæmdar fyrir ósannindi um meint refsivert athæfi mitt.

Þar með eru sjálfskipaðir forystumenn MeToo hreyfingarinnar í kringum Aldísi dæmdir fyrir siðlaust og löglaust athæfi.

Niðurstaða:

Þar með hefur hvort tveggja gerst: Réttarkerfið hefur vísað öllum söguburðinum frá: á þeim forsendum, að ekki hafi verið um refsivert athæfi að ræða. Og dómskerfið hefur bætt um betur með því að lýsa tvær forystukonur MeToo – hreyfingarinnar berar að ærumeiðandi ósannindum.

Pólitík?

Ég gef yfirleitt lítið fyrir samsæriskenningar, en ég legg það ekki í vana minn að neita staðreyndum. Í vitnaleiðslum í rassstrokumálinu var kærandinn, Carmen Josefa Jóhannsdóttir – talsmaður grúppunnar að eigin sögn – spurð, hvers vegna hún hefði ekki kært meint brot fyrr en mörgum mánuðum eftirá? Svarið var: “Vinkona mín, formaður Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar, hvatti mig til að kæra.” Þetta eru hennar eigin orð. Þá skilja menn fyrr en skellur í tönnum hatursorðræðu Ingibjargar Sólrúnar af þessu tilefni.

Hvað stendur þá eftir?

Svarið er: Hatrið og hefnigirndin.

Að því er varðar meðferð staðreynda og sannleiksgildi stendur ekki eftir steinn yfir steini (sjá www.jbh.is söguburður).

En þegar ljúgvitni koma fram undir merkjum MeToo hreyfingarinnar hafa þau unnið málstað hennar óbætanlegt tjón með þessum vítaverðu vinnubrögðum. Enn er samt ekki of seint að bæta fyrir það með því að biðjast afsökunar.