HVAÐ ER EES?[i]
EES-SAMNINGURINN var á sínum tíma gerður á milli EFTA-ríkjanna sex (Finnland, Svíþjóð, Noregur, Ísland og Alparíkin Sviss og Austurríki, – Liechtenstein bættist seinna í hópinn – og Evrópubandalagsins/Evrópusambandsins. Samningurinn var um aðild EFTA-ríkjanna að innri markaði Evrópusambandsins (ESB). Hann var undirritaður 2.maí 1992 en gekk í gildi í ársbyrjun 1994. Hann er því 30 ára á þessu ári.
Hér á eftir er reynt að leggja mat á árangurinn, kosti og galla. Samningurinn var frá upphafi afar umdeildur. Umræður um hann á Alþingi Íslendinga tóku lengri tíma en á þjóðþingum hinna EFTA-ríkjanna til samans. Alþýðuflokkurinn var eini stjórnmála-flokkurinn, sem beitti sér fyrir samþykkt hans, heill og óskiptur, frá upphafi til enda.
Samningurinn er hluti af samrunaferli Evrópuríkja eftir seinna stríð: Tilgangur samrunaferlisins var að fyrirbyggja stríð í Evrópu. Kjörorðið var: Aldrei aftur! Helstu áfangarnir voru þessir:
- Kola- og stálbandalagið (1952). Sameiginleg yfirstjórn vopnaiðnaðarins átti að úiloka stríð.
- Rómarsáttmálinn um efnahagsbandalag sex-veldanna 1957 (Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Benelúxlöndin).
- Evrópubandalagið (1967 –93 ) og loks Evrópusambandið (1993 – ).
Stjórnunarhættir ESB hafa þróast áfram með grundvallarsáttmálum sem kenndir eru við Maastricht (1993), Amsterdam (1997), Nice (2001) og Lissabon (2009).[ii] Aðildarríkin, sem voru upphaflega sex, eru nú 27 – eftir útgöngu Breta.
Meginmál samningsins er í 129 greinum, ásamt bókunum og viðaukum. Samningssviðin ná yfir fjórfrelsið, sem er kjarni málsins. Því til viðbótar eru samkeppnisreglur, umhverfismál, persónuvernd og neytendavernd. Auk þessa tekur samningurinn til samstarfsáætlana um rannsóknir og þróun, vísindasamstarf, menningu og menntun (t.d. Erasmus- prógrammið). Á samningstímanum hafa tugþúsundir Íslendinga tekið þátt í þessum samstarfsáætlunum.
FJÓRFRELSIÐ
FJÓRFRELSIÐ nær til viðskipta með vörur, þjónustu, fjármálaþjónustu og frjálsa för fólks. Þar með tryggir samningurinn tollfrjálsan markaðsaðgang og undanþágu frá öðrum tæknilegum viðskiptahindrunum. Frjáls þjónustustarfsemi gildir um t.d. samgöngur, siglingar, fjarskipti, póstþjónustu og netöryggi. Fjármagnsflutningar eru heimilir, undir eftirliti Seðlabanka. Frjáls för tryggir jafnan rétt til búsetu, atvinnu og atvinnurekstrar undir samræmdum samkeppnisreglum. Þær taka til ríkisaðstoðar, opinberra innkaupa, hugverkaréttinda, vinnumarkaðar, umhverfis og loftslagsmála, persónu – og neytendaverndar, staðla og hagsýslugerðar.
Meðal stofnana sem annast eftirlit með framkvæmd samningsins má nefna: Matvælastofnun, Samkeppniseftirlit, Póst og fjarskiptastofnun, Neytendastofu, Lyfjastofnun, Vinnueftirlit og Fjármálaeftirlit. Krafan um einsleitni á innri markaðnum þýðir að þar gilda sömu lög og reglur fyrir alla. Þegar litið er yfir fjölda settra laga á Íslandi á 25 ára gildistíma EES samningsins kemur í ljós að 16 % þeirra má rekja beint til samningsins.[i] Samningurinn var samþykktur á Alþingi Íslendinga 12. janúar 1993 með 33 atkvæðum gegn 23 en sjö sátu hjá. Formaður Alþýðuflokksins, Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra, hafði á hendi pólitíska verkstjórn samninganna frá upphafi til enda af Íslands hálfu.
HVERS VEGNA EKKI EVRÓPUSAMBANDIÐ?[ii]
Hvers vegna gengu EFTA- ríkin ekki bara í Evrópusambandið? Og tóku þar með fullan þátt í samrunaferlinu, sem stefndi að því að rétta hlut Evrópu eftir brotlendingu tveggja heimsstyrjalda? Svarið felst í tveimur orðum: Kalda stríðið og hlutleysi.
Fjögur EFTA-ríkjanna lýstu sig hlutlaus í átökum stórveldanna í Kalda stríðinu. Í Svíþjóð var hlutleysið – alliansfriheten – hin helgu vé. Fyrir Finna var hlutleysi þau hyggindi sem í hag koma gagnvart risaveldinu handan landamæranna. Svipaða sögu er að segja um Alparíkin: Sviss sérhæfði sig í hlutleysi, en Austurríki var hlutlaust af illri nauðsyn skv. friðarskilmálum eftir stríð. Hlutleysi þessara ríkja leyfði ekki þátttöku í yfirþjóðlegum samtökum eins og Evrópusambandinu.
Lögformleg stofnun innri markaðar Evrópusambandsins og upptaka sameiginlegs gjaldmiðils – evrunnar – voru risavaxin verkefni. Hvort um sig og bæði tvö. Það var hvorki tími né aðföng til að sinna öðrum verkefnum eins og samningum við ný aðildaríki á sama tíma. En EFTA-ríkin voru efnahagslega sterk. Þau voru öflugri viðskiptaaðili ESB en Bandaríkin og Japan til samans. Það þjónaði því viðskiptahagsmunum Evrópusambandsins að bjóða EFTA-ríkjunum aðild að innri markaðnum frá upphafi. Pólitíkin kom í veg fyrir aðild, en viðskiptahagsmunirnir kröfðust lausnar. Lausnin var EES – evrópska efnahagssvæðið.[iii]
Í æviminningum sínum segir Gro Harlem Brundtland frá því, að Delors, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hafi borið hugmyndina um þátttöku EFTA-ríkja í innri markaðnum undir sig og þá jafnaðarmannaleiðtoga, sem sátu á stóli forsætisráðherra Svíþjóðar, Finnlands og Austurríkis, þá Olof Palme, Kalevi Sorsa og Bruno Kreisky. Við góðar undirtektir. Niðurstaðan varð sú, að Brundtland bauð leiðtogum annarra EFTA-ríkja til fundar um málið í norsku skíðaparadísinni, Holmenkollen í mars 1989. Fulltrúar Íslands vorum við Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra vinstri stjórnarinnar 1988-91.
FISKUR: FJÖGURRA STAFA ORÐ[iv]
EN ÞAÐ REYNDIST VERA ÞRÁNDUR Í GÖTU að því er okkur varðaði: Fiskur. „Enginn markaðsaðgangur fyrir sjávaraflurðir, án aðgangs að auðlindum“. Þetta var yfirlýst stefna Evrópusambandsins, að því er varðar viðskipti með sjávarafurðir á innri markaðnum við ríki utan ESB. Þetta var algerlega óaðgengilegt fyrir land eins og Ísland.Gagnkvæmur aðgangur að mörkuðum – já. En við höfðum ekki háð þrenn þorskastríð við Stóra Bretland til þess að opna svo aðgengi spænska flotans að fiskimiðum okkar.
Þess vegna sögðum við, strax í upphafi, meðan EFTA-ríkin voru að samræma samningsstöðu sína, við samstarfsaðila okkar í EFTA: Þið verðið að samþykkja grundvallarregluna um fríverslun með sjávarafurðir – rétt eins og með iðnaðarvörur – innan EFTA. Og því næst að gera það að sameiginlegri samningsstöðu EFTA- ríkjanna. Annars getum við ekki verið með.
Svisslendingar, Finnar og Svíar töldu sig allir þurfa að vernda sinn vatnafisk. Að lokum var það forsætisráðherra Svía, Ingvar Carlsson, sem leysti hnútinn. Hann sagði: Við verðum að fórna örsmáum hagsmunum fyrir meiri – og gekk á undan með góðu fordæmi. Samstaða bandalagsþjóða okkar í EFTA forðaði okkur Íslendingum frá því að vera skildir eftir einir, í vonlausri samningsstöðu frammi fyrir samningamaskínu Evrópusambandsins, án stuðnings frá öðrum til þess að breyta hefðbundinni samningsstöðu ESB í grundvallatriðum.
SAMSTAÐA EFTA-RÍKJANNA í þessu máli dugði einmitt til þess. Við fengum því sem næst tollfrjálsan markaðsaðgang fyrir okkar sjávarafurðir (sem og fyrir Norðmenn og Færeyinga), án þess að veita í staðinn aðgang að fiskimiðum okkar (nema trímabundið í örsmáu magni). Við fengum einnig undanþágu frá grundvallarreglunni um rétt til fjárfestinga í íslenskum sjávarútvegi. Sú undanþága stendur enn. Af þessu má margt og mikið læra um samstöðu smáþjóða.
EN HVAÐ MEÐ FULLVELDIÐ?
ÞEGAR EFTA-RÍKIN hófu samningaviðræður um EES árið 1989, lögðum við upp með tillögu um stjórnsýslu samningsins, sem gerði ráð fyrir“tveggja-stoða-kerfi“ að því er varðar undirbúning mála og ákvarðanatöku („decision shaping and decision making“)[v]. Þetta þýddi, að EES átti að byggja á tveimur jafngildum stoðum. Sameiginlega ættu EFTA-ríkin 6 þess vegna að hafa jafnmikil áhrif og ESB-ríkin 12 í ákvarðanaferlinu. Einnig gerðum við ráð fyrir Eftirlitssstofnun (ESA) og dómstól til að skera úr um ágreiningsmál.
En atburðarásin greip fram fyrir hendurnar á okkur. Berlínarmúrinn hrundi; Austur-Evrópa braust undan oki Sovétríkjanna. Kalda stríðið var búið (1991/92). Þetta þýddi, að hlutlausu ríkin EFTA-megin töldu sig nú frjáls að því að fara yfir brúna og sækja um fulla aðild að ESB. Það gerðu þau árið 1995. Norðmenn felldu hins vegar aðildarumsókn í þjóðaratkvæðagreiðslu 1994 í annað sinn. Loks höfnuðu Svisslendingar EES- samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu í desember 1992. Þá voru aðeins Noregur, Ísland og Liechtenstein eftir til að halda uppi EFTA- stoðinni. Rúmar 5 milljónir annars vegar, en næstum 500 milljónir hins vegar. Það hallaði heldur betur á. Þetta þýddi óhjákvæmilega, að EFTA- stoðin varð miklu veikari en upphaflega var ráð fyrir gert.
Formlega séð geta þjóðþing EFTA- ríkjanna hafnað nýjum tillögum framkvæmda-stjórnar ESB. Í reynd hefur það ekki gerst, vegna þess að afleiðingin yrði sú, að viðkomandi ríki yrði að segja sig frá því mála- eða verksvæði, sem um ræðir. Þar með yrði samningurinn smám saman ekki lengur einsleitur. De jure höldum við því fullveldinu; de facto fáum vð ný lög og reglur send í pósti. Er þetta ekki umfram þau mörk, sem stjórnarskráin þolir? Er þá ekki lausnin að fara að fordæmi annarra þjóða og rýmka þau mörk í nafni ríkjandi alþjóðavæðingar?
HVERJIR ERU HELSTU KOSTIR EES?
ÁRIÐ 2019 gaf þýska rannsóknarstofnunin Bertelsmann Stiftung út skýrslu með mati á hagrænum ávinningi sameiginlega markaðarins fyrir aðildarríkin. Þar segir:
„Sé litið til heildaráhrifa á Íslandi eru uppreiknuð áhrif á efnahag Íslands 380 milljónir evra. Sú tala er fengin með því að reikna út velferðarávinning hvers einstaklings og margfalda með íbúafjölda. Er þar um að ræða um 52 milljarða króna á ári hverju. Það er um 2.07 % af vergri landsframleiðslu Íslands“.[vi]
Aðildin að EES markaði þáttaskil. Á árabilinu 1988 – 1994 ríkti kreppa á Íslandi. Það var aflasamdráttur og versnandi viðskiptakjör. Hagvöxtur var neikvæður nokkur ár í röð. Atvinnuleysi fór vaxandi. Þegar EES samningurinn fór að virka, hófst langvarandi vaxtarskeið. Innri markaður ESB er stærsta fríverslunarsvæði heims. Með aðild að innri markaðnum var heimamarkaður Íslands orðinn fimm hundruð milljónir manna. Það gildir bæði um útflutning vöru og þjónustu, sem og innflutning. Þrír fjórðu hlutar sjávarvöruútflutnings okkar fer á innri markaðinn og meira en helmingur innflutningsins kemur þaðan.
Afleiðingarnar höfðu jákvæð áhrif á hagvöxt,landsframleiðslu (VLF), þjóðartekjur á mann, framleiðni, samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, utanríkisviðskipti og gjaldeyrisöflun sem og nýsköpun og aukna fjölbreytni efnahagslífsins. Ferðamannaiðnaðurinn hefði ekki náð að blómgast eins og gerðist, án EES. Samningurinn greiddi götu erlends vinnuafls í íslensku atvinnulífi og hann tryggði tugþúsundum Íslendinga réttindi til búsetu, náms, atvinnu og atvinnuþátttöku á svæðinu öllu. Frjálst flæði fjármagns stuðlaði að aukinni fjölbreytni efnahagslífsins. Íslendingar njóta kosta aðildar, án þess að takast á herðar skuldbindingar, sem full aðild útheimtir. Bæði heildarsamtök atvinnulífisins (SFA) og ASÍ, heildarsamtök launafólks, styðja EES.
MAREL OG EES
REYNSLAN HEFUR SÝNT, að EES-samningurinn hefur reynst vera lyftistöng fyrir nýsköpunarfyrirtæki, sem eiga framtíð sína undir hindrunarlausum aðgangi að erlendum mörkuðum. Marel – hátæknifyrirtæki í matvælaiðnaði – er gott dæmi um það. Sama á við um fjölda fyrirtækja í svipaðri stöðu í upplýsingatækni, lyfjaframleiðslu, sérfræðiþjónustu, ferðamannaiðnaði o.s.frv. Allt hefur þetta leitt til aukinnar fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Um þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Marels (1999- 2009) eftirfarandi í viðtali við Viðskiptablaðið í apríl árið 2019:
„Ég held í raun og veru, að fyrirtæki eins og Marel og Össur hefðu ekki orðið til í þeirri mynd sem þau eru, hefðum við ekki orðið aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu… Að mínu mati er það vanmetið, hversu mikilvægt þetta skref með evrópska efnahagssvæðið var á þessum tíma, og það að vera innan fríverslunarbandalagsins var algjört lykilatriði. Hefði það ekki verið, hefðu menn þurft að staðsetja stærri hluta fyrirtækisins erlendis“.[vii]
HVERJIR ERU HELSTU GALLAR EES?
GAGNRÝNENDUR SAMNINGSINS nefna helst til sögunnar eftirfarandi: Að samningurinn brjóti í bága við stjórnarskrána; að samningurinn skerði fullveldi þjóðarinnar, bæði löggjafarvalds og dómsvalds. Þeir kvarta undan íþyngjandi reglugerðafári fyrir fyrirtækin og skorti á lýðræði.
Því er til að svara, að í upphafi var gengið útfrá því að stjórnkerfi samningsins kallaði ekki á stjórnarskrárbreytingar og að það virti fullveldi aðildarríkjanna. Það fólst í hinu svonefnda „tveggja- stoða- kerfi“. EFTA-ríkin, með rúmlega fjörtíu milljónir íbúa, höfðu jafnan rétt til þátttöku við undirbúning og töku ákvarðana og aðildarríki ESB. Þar að auki var lausn deilumála tryggð með sérstakri eftirlitsstofnun (EFTA Surveillance Authority – ESA) og EFTA dómstól. Í álitsgerðum tilkvaddra lögspekinga komust flestir að þeirri niðurstöðu, að framsal fullveldis væri takmarkað og innan þeirra marka, sem stjórnarskráin heimilar. Reyndar hafa margar þjóðir nútímavætt stjórnarskrár sínar til að heimila meiri þátttöku í alþjóðasamstarfi en áður tíðkaðist.
Þar að auki kvað EES – samningurinn (gr.102) á um höfnunarvald EES/EFTA ríkja varðandi innleiðingu á ESB-löggjöf, sem fellur undir samninginn. Þar með áskildu EFTA – ríkin sér óskert fullveldi de jure. EFTA – ríkjunum er í sjálfsvald sett að hafna innleiðingu ESB-löggjafar, telji þau hana ekki samrýmast þjóðarhagsmunum sínum. Dæmi um löggjöf, sem varðar innri markaðinn, eru lög og reglur um járnbrautasamgöngur og skipaskurði. Hvorugt á við á Íslandi, af augljósum ástæðum.
Sama máli gegnir um sameiginlegan orkumarkað ESB yfir landamæri. Þar sem Ísland hefur engan sæstreng til orkuflutnings, á Ísland enga aðild að þeim markaði. Það er okkur í sjálfsvald sett, hvort við viljum breyta því með lagningu sæstrengs. Að því er varðar „íþyngjandi regluverk“ er það að meginhluta okkur í hag, því að einsleitnin tryggir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á markaðnum (sjá dæmið um „Marel og EES“ hér að framan). Að því er varðar meintan lýðræðishalla er það fyrst og fremst vandamál aðildarríkja ESB.
EN ER EKKI BETRA AÐ GERA TVÍ-HLIÐA FRÍVERSLUNAR-SAMNING VIÐ ESB TIL AÐ LOSNA VIÐ SKRIFFINNSKUNA?
EES –SAMNINGURINN er annað og meira en fríverslunarsamningur um lækkun tolla. Samningurinn útilokar aðrar tæknilegar viðskiptahindranir fyrir aðildarríkin. Sameiginlegar samkeppnisreglur á öllum sviðum styrkja samkeppnisstöðu aðildarríkja. Það lætur nærri að helmingur íslendinga hafa nýtt rétt sinn skv. EES til búsetu í EES-löndum og til þátttöku í sérstökum samstarfsverkefnum. Ekkert af þessu fæst með tvíhliða tollasamningum. Þar að auki er EFTA-ríkjunum, þ.á.m. Íslandi, ekkert að vanbúnaði að gera fríverslunarsamninga við önnur ríki (sbr. fríverslunarsamning við Kína), til viðbótar við EES.
Það er ekki heldur hægt að ganga að því sem vísu, að ESB sé tilbúið til að gera fríverslunarsamning við Ísland eitt og sér. Á sínum tíma þurftu Íslendingar stuðning annarra EFTA- ríkja til að knýja fram fríverslun með sjávarafurðir, þar sem ESB heimtaði aðgang að fiskveiðiauðlindinni í staðinn fyrir markaðsaðgang.
HVERS VEGNA VAR (OG ER) EES SVONA UMDEILT?
ÍSLENDINGAR ERU NÝFRJÁLS ÞJÓÐ. Sjálfstæðisbaráttan við Dani setur enn svip sinn á þjóðmálaumræðuna. Heimastjórn – framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald – í höndum okkar sjálfra var forsenda fyrir nútímavæðingu þjóðfélagsins á 20stu öld. En við þurftum líka aðgang að erlendu fjármagni og erlendum mörkuðum. Sameiginlega er þetta þrennt – heimastjórn, erlent fjármagn og hindrunarlaus aðgangur að mörkuðum – formúlan fyrir nútímavæðingu Íslands.[viii] Samkvæmt flestum lögfræðiálitum er EES samningurinn innan þeirra marka, sem stjórnarskráin heimilar í bindandi þjóðréttarsamningum. Flestar aðrar þjóðir hafa nú rýmri stjórnarskrárákvæði til að heimila alþjóðlegt samstarf. Við stöndum því frammi fyrir því að breyta stjórnarskránni með sama hætti.
HAFA HRAKSPÁRNAR RÆTST?
ALÞINGISKOSNINGARNAR 1991 snerust aðallega um EES-samninginn, sem þá þegar var efnislega umsaminn, þótt hann gengi ekki í gildi fyrr en í ársbyrjun 1994. Þá brá svo við, að forystumenn Alþýðubandalags og Framsóknar snerust af hörku gegn samnningnum, sem Vinstristjórnin (1988-91) bar þó fulla ábyrgð á. Þeir sem lengst gengu fóru beinlínis hamförum og fundu samningnum flest til foráttu.
ÞEIR FULLYRTU
Að erlendir fiskiflotar myndu ráðast inn í 200 mílna fiskveiðilögsögu Íslands.
Að erlendir auðkýfingar myndu sölsa undir sig „óðul feðranna“, jarðeignir með laxveiðihlunnindum og virkjunarréttindum.
Að erlent vinnuafl myndi flykkjast inn í landið og undirbjóða kaup og kjör.
Allt voru þetta staðleysustafir í reynd.
- FRÍVERSLUN MEÐ FISK – rétt eins og iðnaðarvörur – án aðgangs að auðlindinni, markaði tímamót í utanríkisviðskiptum Íslendinga.Því hefðum við aldrei náð fram einir og sér, án stuðnings EFTA-ríkjanna. Þar við bætist sú staðreynd, að fiskveiðiþjóðir Evrópusambandsins hafa enga sögulega reynslu s.l. 30 ár þar að baki og þar með engar réttmætar kröfur fyrir veiðiheimildum.
- HIN SAMEIGINLEGA LANDBÚNAÐARSTEFNA (CAP) ESB er EES-samningnum óviðkomandi. Álitamál er því, hvort almenna reglan um fjárfestingarrétt á EES-svæðinu nær til bújarða. Danir höfðu af því áhyggjur á sínum tíma, að Þjóðverjar kynnu að ásælast sumarbústaðalendur á Jótlandi.Niðurstaðan varð sú, að dönsk lög, sem settu margvísleg skilyrði fyrir rétti erlendra aðila til jarðakaupa (m.a.um ríkisborgararétt, búsetu og áframhaldandi búskap) voru í fullu gildi eftir aðild. Sömu skilyrði var að finna í íslenskum lögum frá 1976[ix] án athugasemda af hálfu samningsaðila.
Það kom á óvart, að áratug síðar (2004) beitti landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins sér fyrir lagasetningu, þar sem þessi skilyrði voru að mestu afnumin. Þetta var gert að kröfu bændasamtakanna, með þeim rökum að skilyrðin fælu í sér ólögmæta takmörkun á eignarrétti bænda, auk þess sem frjáls markaðsviðskipti með jarðir stuðluðu að hækkun jarðaverðs og þar með bættum hag bænda.
- FRJÁLS FÖR FÓLKS og þar með réttur til búsetu, náms, atvinnu o.s.frv., hefur reynst vera gagnkvæmt hagsmunamál, sem fólk hefur nýtt sér í tugþúsundatali. Erlent vinnuafl hefur haldið uppi örum hagvexti á Íslandi hin síðari ár, öllum til hagsbóta. Laun á Íslandi eru með þeim hæstu innan OECD, enda fara þau að mestu eftir kjarasamningum, þar sem 90% launtaka eru meðlimir í stéttarfélögum. Það er hæsta hlutfall í heimi.
AÐ ÖLLU SAMANLÖGÐU benda helstu staðreyndir málsins því til þess, að EES-samningurinn hafi haft byltingarkennd áhrif til hins betra á íslenskan þjóðarbúskap og lífskjör almennings. Það má því flokka undir meiri háttar skammsýni forystumanna þeirra flokka – sem þrátt fyrir aðild sína að samningsgerðinni – beittu sér gegn samþykkt samningsins, í misráðinni atkvæðavon. Sér í lagi má það teljast misráðið af hálfu þeirra, sem eru andvígir aðild Íslands að ESB, þar sem EES-samningurinn færir Íslendingum flesta kosti aðildar, án annarra íþyngjandi skuldbindinga, sem aðild kunna að fylgja.
Enda vildu flestir þessa Lilju kveðið hafa eftir á – líka þeir sem áður fundu EES-lausninni flest til foráttu.
Þessi mistök hafa dregið langan slóða á eftir sér. Þar með var lyft til valda (eftir 1995) þeim öflum, sem stóðu fyrir „ný-frjálshyggjutilrauninni“ með Ísland (1995-2008). Og allir vita, hvar hún endaði.
VAR HRUNIÐ EES AÐ KENNA?
SUMIR halda því fram, að frjálst flæði fjármagns skv. EES-samningnum, án nauðsynlegrar lagasetningar um aðhald og eftirlit, sé helsta orsök Hrunsins. Ísland innleiddi lög og reglur ESB um fjármálamarkaðinn árið 1999, hálfum áratug eftir að EES samningurinn gekk í gildi. Norðmenn innleiddu sömu lög og reglur á sama tíma. Norðmenn sýndu þá forsjálni, að tryggingasjóður sparifjáreigenda og fjárfesta tryggði aðeins innstæður í norskum gjaldmiðli. Sömu lög og reglur og á Íslandi, en ekkert hrun í Noregi. Og ekkert „Icesave“ heldur. Sökudólginn er því annars staðar að finna, einsog sýnt er fram á í Rannsóknarskýrslu Alþingis um orsakir og ábyrgð á hruninu.[x]
HVERJIR ERU HELSTU ÞJÓÐARHAGSMUNIR ÍSLENDINGA?
MEÐ SAMBANDSLAGASÁTTMÁLANUM 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku, var því yfirlýst, að Ísland yrði ævarandi hlutlaust. Hernám Breta í upphafi seinni heimstyrjaldar og kafbátahernaður Þjóðverja allt í kringum Ísland kenndi okkur þá lexíu, að hlutleysið væri ekki virt, þegar á reyndi. Það leiddi til stofnaðildar okkar að NATO 1949 og varnarsamningsins við Bandaríkin 1951. NATO er sameiginlegt varnarbandalag lýðræðisríkjanna sem mynda það. Árás á eitt ríki er árás á þau öll. NATO er árangursríkasta varnarbandalag sögunnar. Það byggir á fælingarmætti til þess að forðast styrjaldarátök. Sú ákvörðun að gerast stofnaðili að NATO hefur reynst vera farsæl og hingað til nægt til að tryggja öryggi okkar herlausu þjóðar.
Ísland er útflutningshagkerfi sem byggir á ríkulegum náttúruauðlindum. Hindrunarlaus aðgangur að erlendum mörkuðum er okkur því lífsnauðsyn til að greiða fyrir innflutning, sem lífskjör þjóðarinnar byggja á. Í þeim skilningi er aðild okkar að EES, ásamt aðildinni að NATO, hinn burðarás íslensks þjóðaröryggis. Vera má að forsetakosningar í Bandaríkjunum undir lok þessa árs, breyti þessari stöðu. Þá þurfum við, eins og aðrar Evrópuþjóðir, að endurskoða varnar- og öryggismál í grundvallaratriðum.
ERUM VIÐ TILNEYDD VEGNA EES AÐ TENGJAST SAM-EIGINLEGUM ORKUMARKAÐI ESB?
EINS OG ÁÐUR ER GETIÐ, tryggir EES- samningurinn aðildarríkjum óskorað höfnunarvald varðandi innleiðingu á ESB- löggjöf, sem ekki samrýmist þjóðarhagsmunum. Þar sem Ísland er landfræðilega aðskilið frá meginlandi Evrópu og sameiginlegum orkumarkaði ESB, er engin slík skuldbinding fyrir hendi. Og engar neikvæðar afleiðingar fyrir önnur aðildarríki ESB.
HVAÐ KOSTAR EES?
ÞEGAR EES-SAMSTARFINU var hleypt af stokkunum, lögðu EES/EFTA- ríkin fram fé í sjóð til að minnka bilið milli ríkra og fátækra aðildarþjóða að samstarfinu. Við stækkun ESB árið 2004 með aðild Mið- og Austur- Evrópuríkja varð til Uppbyggingarsjóður EES, sem er öflugur, einkum vegna greiðslna Norðmanna í hann. Norðmenn halda samhliða út eigin sjóði (9 milljarðar evra) sem nýtist til tvíhliða verkefna með þeim ríkjum sem eru styrkþegar. Þeir fjármunir sem renna til uppbyggingar sjóðsins nýtast jafnframt EES/EFTA- ríkjunum sjálfum vegna þeirrar stefnu, sem hann hefur markað sér.
Framlag Íslands fyrsta áratuginn nam rúmlega milljarði evra á ári (brúttó), en á móti koma margvísleg framlög ESB til fjölmargra samstarfsáætlana.[xi]
HVERRA KOSTA EIGUM VIÐ VÖL, EF NOREGUR GENGUR Í EVRÓPUSAMBANDIÐ?
NORÐMENN hafa í tvígang í þjóðaratkvæðagreiðslu hafnað aðild að ESB (1972 og 1994). Engin teikn eru á lofti sem stendur um, að sú afstaða breytist. Það getur hins vegar gerst, fyrirvaralítið, m.a. fyrir rás ófyrirsjáanlegra ytri atburða. Ef svo fer, eru litlar líkur á að Ísland og Liechtenstein ein og sér hafi burði til að halda uppi EFTA- stoðinni í samstarfinu. Alla vega er ljóst, að kostnaður Íslands við framkvæmd samningsins og stofnana hans vegna, yrði margfaldur á við það sem nú er.
EF ÍSLENDINGAR ÁKVEÐA AÐ STÍGA SKREFIÐ TIL FULLS OG SÆKJA UM AÐILD AÐ ESB: HVERJU BREYTIR ÞAÐ ? (B) HVERSU LANGAN TÍMA TEKUR ÞAÐ?
STÆRSTU VANDAMÁLIN sem verður að leysa með aðildarsamningum, varða: Sameiginlegu fiskveiðistjórnarstefnuna (CFP), sameiginlegu landbúnaðarstefnuna (CAP) og aðild að peningamálasamstarfinu (EMU).[xii]
Þar að auki munu samningar ná yfir eftirfarandi svið: Náttúruvernd, auðlindanýtingu, tollabandalag, viðskiptastefnu, dóms- og innanríkismál og loks utanríkis- og öryggismál.
SAMEIGINLEGA FISKVEIÐISTEFNAN hefur löngum sætt mikilli gagnrýni innan sambandsins og utan. Sú gagnrýni snýst einkum um ofveiði, ósjálfbærni, samkeppnishamlandi styrkjapólitík, ríkjandi brottkast meðafla og slælegt eftirlit með veiðum og vinnslu.
Meginreglan á að heita sú, að öll aðildarríki hafi jafnan aðgang að sameiginlegum fiskveiðiauðlindum. Miðjarðarhafið og Norðursjórinn hafa löngum verið þessi sameiginlega fiskveiðiauðlind ESB-ríkja. Frá því eru þó undanþágur í ýmsum tilvikum t.d. Malta. Þar sem helstu fiskistofnar innan íslensku lögsögunnar eru staðbundnir, fiskimið eru ekki samliggjandi og ekkert ESB ríki hefur veiðireynslu í íslenskri lögsögu sl. 30 ár, hljóta samningsmarkmið Íslendinga að vera um viðurkenningu á Íslandi sem SÉRSTÖKU FISKVEIÐISTJÓRNUNARSVÆÐI.
Styrkur Íslendinga í samningaviðræðum hlýtur að byggjast á því, að nýting fiskveiðiauðlindarinnar innan íslenskrar lögsögu telst vera sjálfbær og sjávarútvegurinn arðbær sem ein helsta útflutningsgrein Íslands. Þetta varðar brýnustu þjóðarhagsmuni Íslands. Brýnustu þjóðarhagsmunir umsóknarþjóða hafa ævinlega sætt forgangi. Náist viðurkenning á Íslandi sem sérstöku fiskveiðistjórnunarsvæði fram í aðildarsamningi, verður það varanleg undanþága.
SAMNINGAR UM LANDBÚNAÐARMÁL hljóta að byggja mjög á fordæmi Svía og Finna. Þeir fengu viðurkenningu á landbúnaði sínum sem „heimskautalandbúnaði“ á harðbýlum svæðum. Það þýðir að þeir eiga rétt á meiri styrkjum úr sameiginlegum sjóðum en aðrar þjóðir, auk þess sem bændur gegna sérstöku hlutverki í umhverfisverndarpólitík ESB, sem byggir mjög á „grænum styrkjum“. Ísland myndi að öllum líkindum flokkast allt undir „harðbýlt svæði“, og nyti þ.a.l. allt að 35% hærri styrkja en ella. Að öðru leyti hljóta þessir samningar að snúast um aðgerðir til lækkunar matarverðs á Íslandi með lækkun tolla og vörugjalda og íslenskum styrkjum þar á móti, umfram meðaltal landbúnaðarstefnunnar. Matarverð er talið hafa lækkað um 10% að jafnaði við inngöngu Finna í ESB.
EVRAN
AÐILDARRÍKJUM ESB er skylt að gerast einnig aðilar að EMU (European Monetary Union), peningamálasamstarfinu. Skilyrðin eru hins vegar þau, að halli í ríkisbúskapnum má vera að hámarki þrjú prósent og opinberar skuldir að hámarki 60 prósent af VLF. Útlánavextir mega ekki vera meiri en tvö prósent yfir vaxtastig þeirra landa, sem lægsta hafa vexti. Þar að auki þarf umsóknarríkið að láta reyna á styrk sinn innan ERM (European exchange rate mechanism) í tvö ár, áður en að af aðild getur orðið.
Allt tekur þetta umsóknarferli að lágmarki 4-5 ár – en líklega lengur. Kostir aðildar út frá almannahagsmunum felast einkum í miklu meiri stöðugleika en Íslendingar hafa búið við. Verðbólga og vextir lækka umtalsvert. Viðskiptakostnaður lækkar verulega. Samkeppni á markaði er neytendum í hag. Erlend samkeppni, ekki síst í fjármálaþjónustu og verslun með matvæli og aðrar lífsnauðsynjar, er það eina sem dugar til að halda aftur af hefðbundinni og rótgróinni fákeppni og einokun á íslenska heimamarkaðnum. Hin séríslenska verðtrygging fjárskuldbindinga verður úr sögunni.
ER EVRÓPUSAMBANDIÐ MILLI VITA?
ÞAÐ VAR STÓRT SKREF fram á við í samrunferlinu, þegar aðildarríki Evrópusambandsins ákváðu að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil, evruna (1999-2002). Þannig afsöluðu aðildarríkin sér tækjum peningamálastefnunnar við hagstjórnina. Þar með reyndi þeim mun meir á ríkisfjármálin. En sameiginleg fjárlög ESB mega að hámarki nema 1.24% af vergri landsframleiðslu ESB í heild. Þar af fer tæplega helmingur í styrki vegna landbúnaðar og um 40% í byggðarstefnu. Þessu til viðbótar hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess með Maastricht sáttmálanum að halda fjárlagahallanum innan við 3% og opinberri skuldasöfnun innan við 60% af VLF.
Þar með er hagstjórn í þágu hagvaxtar og fullrar atvinnu þröngar skorður settar, eins og reynslan sýnir á hinum glataða áratug eftir Hrun. Samanburður við Bandaríkin eftir Hrun leiðir þetta berlega í ljós. Það er eins og Evrópusambandið sé á þessum tímapunkti á milli vita: Hvort vill það vera ríkjasamband (confederation) sjálfstæðra ríkja eða Bandaríki Evrópu (sambandsríki)? – Framundan bíða óleyst vandamál, sem varða hvort tveggja fullveldi aðildarríkja og lýðræðislega stjórnarhætti. Ytri kringumstæður – hnignun Bandaríkjanna, ris Kína og fjörbrot rússneska nýlenduveldisins – knýja á um áríðandi svör.
ÞJÓÐARATKVÆÐI UM EVRÓPUSAMBANDSAÐILD
HINGAÐ TIL hefur þrálátur óstöðugleiki einkennt íslenska hagkerfið. Verðbólga hefur verið há og gengisfellingar (kjaraskerðingar) tíðar. Alvarlegar kreppur hafa tekið við af þensluskeiðum. Atvinnuleysi hefur hins vegar jafnan verið lágt. Óvissan um, hvernig Íslendingum muni farnast við aðild, snýst einkum um hættuna á atvinnuleysi. Ef Íslendingar afsala sér hvoru tveggja, eigin peningamálastjórn og skuldbinda sig til að halda hallarekstri ríkisins og skuldasöfnun innan marka ESB, hvað sem á dynur, er hættan sú, að afleiðingin geti birst í auknu atvinnuleysi, eins og reynsla veikburða ríkja innan Evrópusambandsins sýnir. Til að fyrirbyggja það er ljóst, að Íslendingar verða að temja sér mun meiri aga í hagstjórn til að viðhalda gengisfestu og stöðugleika. Aðildarsamningur mun fyrirsjáanlega hafa í för með sér þjóðfélagsbreytingar af þeirri stærðargráðu, að þær kalla ótvírætt á þjóðaratkvæ
[i] Skýrsla starfshóps um EES-samstarfið (sept. 2019), ritstj. Björn Bjarnason, fv. ráðherra, bls. 14. Utanríkisráðuneytið.
[ii] Jón Baldvin Hannibalsson: Tæpitungulaust – lífsskoðun jafnaðarmanns: „EES 25 ára: Bráðabirgðaúrræði eða framtíðarlausn?“, þriðji hluti, k. 8, bls. 260 (2017).
[iii] Jón Baldvin Hannibalsson: „MC Smörgaasbord – WHAT POST-BREXIT SCOTLAND can Learn from the Nordics: Ed. Lesley Riddoch and Patty Bort, ch. 3, „Lessons from Iceland“, bls. 18, Luath Press, Edinburgh (2017).
[iv] Jón Baldvin Hannibalsson: Tæpitungulaust – lífsskoðun jafnaðarmanns, „EES 25 ára: Bráðabirgðaúrræði eða framtíðarlausn?“, k. 8, bls. 261 – 2.
[v] Skýrsla samstarfshóp um EES-samstarfið – sept. 2019, k. V „Tveggja-stoða-kerfið“, bls. 175.
[vi] Ibid., k. II: Hagræn áhrif aðildar, bls. 70-75.
[vii] Ibid, bls. 76.
[viii] Jón Baldvin Hannibalsson: Tæpitungulaust, þriðji hluti, k. 2: „Íslenska þróunarmódelið og samskiptin við Evrópu“, bls. 214-227.
[ix] Sjá lög nr. 65/1976
[x] Jón Baldvin Hannibalsson: Tæpitungulaust – þriðji hluti, k. 9: „Að falla á sjálfs sín bragði“, bls. 265.
[xi] Sjá Tengsl Íslands og Evrópusambandsins: Skýrsla Evrópu-nefndar, ritstj. Björn Bjarnason, k. 2,5. „Kostnaður við framkvæmd EES-samningsins“, bls. 51. (2007)
[xii] Saga Evrópusamrunans: Evrópusambandið og þátttaka Íslands, k. 7.5. „Aðild að ESB: Nei eða já?“, bls. 117-124 (2015).