Mögnuð upplifun

Við leyfðum okkur þann munað um helgina að fara í leikhús  – sjálft Þjóðleikhúsið. Þetta var frumsýning á „Vertu úlfur“,  sem byggt er á sjálfsævisögu Héðins Unnsteinssonar. Húsið var upptendrað sem aldrei fyrr, og gestgjafar stóðu brosandi við dyrnar. Öllum var tekið fagnandi – Jafnvel okkur.

Hvað var okkur efst í huga að sýningu lokinni? Fyrst og fremst aðdáun yfir því, hve vel var að verki staðið. Málefnið er brýnt og varðar okkur öll. Héðinn Unnsteinsson á þakkir skyldar fyrir að þora – þora að opna okkur sýn inn í hugarheim hins geðsjúka, þora að rjúfa þögnina og þora að spyrja beinskeyttra spurninga, sem afhjúpa okkar eigin fordóma.

Lesa meira

FLÓTTALEIÐ – SÝNDARVERULEIKI

Bryndís Schram fjallar um Innfædd í Iðnó, 16.apríl, s.l.
Höfundur: Glenn Waldron
Þýðing: Hrafnhildur Hafberg
Leikstjóri: Brynhildur Karlsdóttir
Lýsing: Aron Martin Ágústsson
Leikarar: Urður Bergsdóttir, Ísak Emanúel Róbertsson, Davíð Þór Katrínarson, Karl Ágúst Úlfsson – lesari

Um daginn var mér alveg óvænt boðið á sýningu í Iðnó, einu höfuðdjásni gömlu Reykjavíkur, byggðu árið 1896 í nýklassiskum stíl – og friðað fyrir löngu. Þetta sviphreina hús var á sínum tíma Mekka leiklistar á Íslandi og hefur svo lengi, sem ég man, verið iðandi af lífi, gestrisni og spennandi gjörningum.

„En nú er hún Snorrabúð stekkur“, sagði skáldið Jónas. Það er af sem áður var. Og þar sem ég geng inn um gamalkunnar dyr, lýstur þeirri hugsun niður í kollinn á mér, að líklega sé Iðnó í einhvers konar tómarúmi um þessar mundir, hafi glatað tilgangi sínum, og að framtíðin sé fullkomlega óráðin. Þess vegna allt þetta rú og stú – allt þetta miskunnarlausa stílbrot og virðingarleysi fyrir sköpunarverki forfeðranna.

Strax í anddyrinu gengur maður á vegg og fær smásjokk – risastórt barborð með groddalegu skyndigróðayfirbragði sprengir í loft upp hina ljúfu 19. aldar stemningu. Það yfirtekur anddyrið eins og heimaríkur hundur, sem enginn þorir að ganga framhjá án þess að biðja um bjór á uppsprengdu verði.

Lesa meira

Lúxusvandamál á fyrsta farrými

Bryndís Schram fjallar um Fólk, staði, hluti, eftir Duncan Macmillan, sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu þann 13. apríl

Leikstjóri: Gísli Örn Garðarsson
Leikmynd Börkur Jónsson
Búningar: Katja Ebbel Fredriksen
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Tónlist: Gaute Tönder og Frode Jacobsen
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir,
Sýningarstjórn: Þórey Selma Sverrisdóttir
Leikendur: Nína Dögg Filippusdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Jóhann Sigurðsson, Björn Thors, Hannes Óli Ágústsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir

Höfundurinn, Duncan Macmillan (skoskara verður það varla) er nýjasta stjarnan á evrópska leikhúshimninum. Það sem er óvenjulegt við eyjaskeggjann er, að hann hefur líka náð fótfestu í leikhúsinu í Berlín og Vín. Verk hans, bæði eigin höfundarverk og leikgerð annarra höfunda, hafa farið sigurför um leiksvið Evrópu. Hann var (að eigin sögn) misheppnaður leikari, en áttaði sig á því sjálfur í tæka tíð. Þar með hófst frægðarferill hans sem höfundar, leikgerðarhönnuðar og leikstjóra.

Það er auðfundið, að sem fyrrverandi leikari þekkir Macmillan leikhúsið út og inn. Hann skynjar meira að segja, að hutverkið getur verið leikaranum eins konar vímugjafi. Til vitnis um það nefnir hann þekkta norska leikkonu, sem þurfti sinn skammt af amfetamíni, þegar hún lifði sig inn í aðalhlutverk grísku harmleikjanna, eins og Antígónu, Medeu og Elektru. Þetta er ekkert einsdæmi. Eru það ekki viðtekin sannindi nú til dags, að snilligáfan sé á mörkum geðbilunar, og að afburðalistamenn leiti á náðir vímuefna til að örva sköpunarkraftinn?

Lesa meira

FRÆGÐARFRÍKIÐ OG HIÐ FORBOÐNA

Bryndís Schram skrifar um leikhús:
HANS BLÆR eftir Eirík Örn Norðdahl
Leikhópurinn Óskabörn ógæfunnar í Tjarnarbíói, miðvikudaginn 11. Apríl, 2018
Leikstjóri: Vignir Rafn Valþórsson
Leikmynd, búningar og gervi: Brynja Björnsdóttir
Hljóð: Áslákur Ingvarsson
Lýsing: Arnþór Þórsteinsson og Kjartan Darri Kristjánsson
Vídeó: Roland Hamilton
Búningar: Enóla Ríkey
Guðssending: Sveinn Óskar Ásbjörnsson
Leikarar: Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Jörundur Ragnarsson, Sara Marti Guðmundsdóttir, Kjartan Darri Kjartansson

Eiríkur Örn Norðdahl er sér á parti. Engum líkur. Hann hefur sýnt það í fyrri verkum sínum – jafnt í sögum sem ljóðum – að hann þorir, þegar aðrir þegja. Hann skirrist einskis, hlífir engu. Afhjúpar og ögrar með stæl. Ef þér er auðveldlega ofboðið, er kannski best að halda sig fjarri. Höfundinum er nefnilega ekkert heilagt. Venjuviska og vanahugsun eru fyrstu fórnarlömb háðfuglsins. Ef það er í lagi þín vegna, þá skaltu láta slag standa og hlusta á það sem frægðarfríkið (nýyrði fyrir „media celebrity“) Hans Blær, hefur að segja við áhorfendur í Tjarnarbíói. Þetta er ósvikin skemmtun.

Um hvað er þetta eiginlega? Háðsádeila – já, á síbylju rétttrúnaðarins, sem dynur á vitum okkar viðstöðulaust, daginn út og inn, ár eftir ár, á miðlunum og netinu. Án umhugsunar utan við gagnrýna hugsun. Þetta snýst allt um kyn. Kyngervi, kynvitund, kynskipti og annað kynlegt. En það er ekki allt sem sýnist bak við Blæ-vanginn. Hans Blær er hvorki hann né hún – eða er hann kannski bæði og? Úr þessu gervi getur hán – eins og það heitir – haft allt að háði og spotti. Bókstaflega allt. Meira að segja Me-too-hreyfinguna líka. Herskarar kvenna „stíga fram“ í hundrað þúsund fréttatímum og bera vitni sem brotaþolar og fórnarlömb karlkynsins. Þetta er svo yfirþyrmandi, að það sækir að manni efi um, að samskipti kynjanna geti nokkurn tíma orðið með eðlilegum hætti hér eftir.

Lesa meira

Commedia dell Arte

Bryndís Schram fjallar um Sýninguna sem klikkarsem var frumsýnd í Borgarleikhúsinu þann 24. mars s.l.
Höfundar: Henry Lewis, Jonathan Sayer og Henry Shields
Þýðandi: Karl Ágúst Úlfsson
Leikstjóri: Halldóra Geirharðsdóttir
Leikmynd og búningar: Helga I.Stefánsdóttir
Lýsing: Páll Ragnarsson
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikgervi: Helga I. Stefánsdóttir og Margrét Benediktsdóttir
Leikendur:
Bergur Þór Ingólfsson
Davíð Þór Katrínarson
Hilmar Guðjónsson
Kristín Þóra Haraldsdóttir
Birna Rún Eiríksdóttir
Hjörtur Jóhann Jónsson
Katrín Halldóra Sigurðardóttir

Ef þú ert einn af þeim, sem eru stöðugt að velta sér upp úr vandamálum heimsins, eru þungt haldnir af svokölluðum Weltschmerz og kvíða hverjum degi, þá er kannski kominn tími á það að fara í leikhús – ekki í þetta skipti til að harma örlög mannsins, heldur til að hlæja að óförum hans.

Manstu, hvað okkur þótti fyndið, þegar einhver steig á bananahýði og rann á rassinn með skelfilegum afleiðingum? – Hét það ekki Þórðargleði í gamla daga? (Hver var annars þessi Þórður? Það skilur það orð enginn nú til dags, en þetta snerist um að hlakka yfir óförum annarra!) – Eða manstu, hvað okkur þótti Charlie Chaplin fyndinn í þöglu myndunum? Ég tala nú ekki um Buster Keaton, Gög og Gokke eða Marxbræður! Allt voru þetta ódauðlegir snillingar, sem tókst að gera aulafyndni að tærri list – turn low humour into high art!

Lesa meira

ROCKY HORROR: FRELSUN EÐA FORDJÖRFUN?

Bryndís Schram fjallar um sýningu Borgarleikhússins:
ROCKY HORROR SHOW sem frumsýnt var 17. Mars
Höfundur: Richard O´Brian Íslenskur texti: Bragi Valdimar Skúlason Leikstjórn: Marta Nordal Tónlistarstjóri: Jón Ólafsson Danshöfundur: Lee Proud Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir Búningar: Filippía I. Elíasdóttir Lýsing: Björn Bersteinn Guðmundsson Leikgervi: Filippía I. Elíasdóttir og Elín S. Gísladóttir

Það var einhver óræð eftirvænting í loftinu þetta kvöld. Allir svo glaðir, brosandi út að eyrum, staðráðnir í að skemmta sér, sleppa fram af sér beislinu. Rocky Horror rétt ófæddur.

Ég hafði ekki hugmynd um, hvað ég ætti í vændum – aldei séð Rocky Horror Show áður – believe it or not! Ég bara man, að við vorum vöruð við þetta kvöld. Það gerði sögumaðurinn sjálfur (Valur Freyr Einarsson) í upphafi – skemmtilega stríðinn og gamansamur náungi, sem heldur utan um atburrðarásina. Hann sagði, að við værum hér á eigin ábyrgð. Of seint að iðrast eftir á. Við yrðum aldrei söm á ný . Þoriði? – Og hann horfði ögrandi út yfir salinn.

Lesa meira

Þau slógu í gegn

Bryndís Schram fjallar um sirkussöngleikinn Slá í gegn sem frumsýndur var í Þjóðleikhúsinu 24. febrúar.

Höfundur: Guðjón Davíð Karlsson
Tónlist: Stuðmenn
Leikstjórn: Guðjón Davíð Karlsson
Danshöfundur: Chantell Carey
Tónlistarstjórn: Vignir Snær Vigfússon
Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson
Búningar: María Th. Ólafsdóttir
Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson
Hljóðmynd: Kristinn Gauti Einarsson og Kristján Sigmundur Einarsson

Leikarar: Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Örn Árnason, Snæfríður Ingvarsdóttir, Edda Björgvinsdóttir, Jón Gnarr, Sigurður Þór Óskarsson, Séra Baddi, Esther Talía Casey, Hallgrímur Ólafsson, Oddur Júlíusson, Birgitta Birgisdóttir, Þórey Birgisdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Bjarni Snæbjörnsson

Dansarar: Julietta Louste, Ernesto Camilo Aldazabal Valdes, Hjörtur Viðar Sigurðsson, Sölvi Viggósson Dýrfjörð

Sirkuslistafólk: Nicholas Arthur Candy, Harpa Lind Ingadóttir, Sindri Dego

Hljómsveit: Vignir Snær Vigfússon, Karl Olgeirsson, Helgi Reynir Jónsson, Þorvaldur Þór Þorvaldsson, Róbert Þórhallsson, Aron Steinn Ásbjarnarson

Það er einmitt á svona kvöldum í leikhúsinu, sem ég hverf í huganum langt aftur í tímann og fyllist söknuði – nostalgiu – eftir einhverju, sem var, endur fyrir löngu, en aldrei kemur til baka. Það var á svona kvöldum, sem maður skynjaði svo sterkt aðdráttarafl leikhússins – hvað það er, sem gerir leikhúsið að töfraveröld – ærir mann og tryllir.

Lesa meira

Beint í æð

Bryndís Schram fjallar um leikritið Kvennaráð, sem Leikhúslistakonur 50+ flytja í Hannesarholti þann 22. og 25.þ .m.
Höfundur: Sella Páls
Flytjendur: Þórunn Magnea Magnúsdóttir
Guðrún Þórðardóttir
Lieu Thúy Nge
Stjórnandi: Sveinn Einarsson

Heimsókn í Hannesarholt er sögustund. Ilmur liðinna tíma berst okkur að vitum. Brakið í gólfunum er bæði skáldlegt og traustvekjandi, gamlir lúnir stólar bjóða gestum til sætis. Útskorin borð, handofin teppi og gamlar myndir á veggjum gera húsið bæði heimilislegt og aðlaðandi. Þarna er fortíðin samankomin undir einu þaki og vekur upp minningar um eitthvað, sem aldrei kemur til baka – er horfið í aldanna skaut. En fortíðin verður ekki umflúin. Og sá sem ekki þekkir eigin sögu, á enga framtíð heldur.

Þetta er sú hugmynd, sem starf Hannesarholts er byggt á: „Að þekkja sína eigin sögu“. Þess vegna skiptir starfsemin þar miklu máli og á erindi bæði við unga og aldna. Í allan vetur og fram á vor er boðið upp á fjölbreytta dagskrá – jafnvel þrisvar í viku – og þar kennir ýmissa grasa, allt frá tónlist, leiklist og myndlist til heimspeki, fjöldasöngs og frásagna af eigin lífi. Eitthvað fyrir alla .

Lesa meira

FARANDLEIKHÚS Í FJARKENNSLU

Bryndís Schram fjallar um sýningu Gaflaraleihússins, Í skugga Sveins
Handrit og söngtextar: Karl Ágúst Úlfsson Tónlist: Eyvindur Karlsson Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir Leikmynd og búningar: Guðrún Öyahals Grímur, leikgervi og förðun: Vala Halldórsdóttir Lýsing: Skúli Rúnar Hilmarsson
Leikarar:
Karl Ágúst Úlfsson Kristjana Skúladóttir Eyvindur Karlsson

Það er alveg satt, sem einhver hafði á orði um daginn, að þótt Íslendingar standi sig illa í Pisa-könnunum og geti, að sögn, hvorki lesið sér til gagns né leyst stærðfræðiþrautir, þá virðast þeir búa yfir óvenjulegri sköpunarþörf – ástríðu sem finnur sér birtingarform í tónlist, myndlist, leiklist – jafnvel í klæðaburði, framkomu, hispurleysi, áræði….

Þessi gróska í mannlífinu vekur strax athygli erlendra gesta – þ.e.a.s. ef þeir gefa sér einhvern tíma til að glugga í samfélagið, í stað þess að glápa upp í himininn í leit að norðurljósum. Þúsundir Air-Waves-gesta vitna um þetta. Og ef þeir skildu nú tungumálið okkar líka, þá yrðu þeir enn meira hissa, því að hér spretta upp leikhús eins og blóm á vori. Mönnum liggur mikið á hjarta, og vilja láta til sín taka í þjóðfélagsumræðunni. Koma sínum skoðunum á framfæri, breyta þjóðfélaginu. Gera lífið betra og heilbrigðara. Því að leikhúsið er í sjálfu sér skóli , vettvangur þjóðfélagsumræðu, eins konar spegilmynd af þjóðfélaginu hverju sinni.

Þetta er mér efst í huga, eftir að hafa séð pælingar Karls Ágústar Úlfssonar á sviði Gaflaraleikhússins í Hafnarfirði um helgina – Í skugga Sveins. Já, honum liggur mikið á hjarta, honum Karli Ágústi. Líklega ofbýður honum firringin, fáviskan og tómlætið gagnvart forfeðrum okkar og mæðrum, sem löptu dauðann úr skel og áttu hvorki til hnífs né skeiðar, stálu sér til matar og urðu að gjalda þess, fjarri mannabyggð – útlagar, dæmdir menn.

Lesa meira