SAUMAKLÚBBURINN – SUMARSKEMMTUN

Háskólabíó  – fyrsta – frumsýning, 2. júní

Ný íslensk gamanmynd, sem gerist í saumaklúbbnum –  þessu sérstæða tilvistarrými  kvenna.

Það  hljómaði forvitnilega!  Skyldu svoleiðis konur geta komið okkur til að hlæjá dátt og gera grín að sjálfum okkur?

Ég lét á það reyna –  tókst m.a.s að draga eiginmanninn með,  þ.e.a.s.með því að bjóða honum upp á drykk á Hótel Sögu, áður en sýning hæfist. Var auðvitað búin að gleyma því, að Hótel Saga er lok, lok og læs og ekkert þar að hafa lengur. Gripum í tómt –  hræðileg vonbrigði.  Nema hvað við vorum því mætt í Háskólabíó með góðum fyrirvara og ekkert að hafa nema gamalt stúdentablað, sem lá þar á glámbekk.

Fyrsta sýning –  heitir  það ekki frumsýning?  En  aldrei þessu vant var ekkert tilstand á frumsýningu, engir gamlir vinir – bara nokkrar sætar stelpur að selja kók og prince póló –  og allt of fáir í salnum.

En Saumaklúbburinn olli okkur ekki vonbrigðum.

Þetta reyndist vera ísmeygilega fyndið verk og á köflum dillandi kómiskt – jafnvel tragikómiskt.  Handrit Snjólaugar Júlíusdóttur er kunnáttusamlega samansett. Persónurnar eru mótaðar skýrum dráttum og eru auðþekkjanlegar úr vinahópi okkar flestra: drifkrafturinn, vælukjóinn, slysagildran, meðhöndlarinn og „loserinn“.

Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn. En ég lofa ykkur því, að þið verið ekki fyrir vonbrigðum. Leikkonurnar skila sínu hver annarri betur – og eru alveg ófeimnar við að láta vaða miskunnarlaust, bæði gagnvart sjálfum sér og okkur, áhorfendum.  Það er stígandi í myndinni. Smám saman færist fjör í leikinn. Mér var skemmt allan tímann, stundum tók ég nánast bakföll af hlátri – og fór í lokin út í ljómandi skapi.

Lokaorð – missið ekki af þessu.