Sigríður Ragnarsdóttir, minning

Þetta var að áliðnu hausti á Ísafirði á áttunda áratugnum. Við vorum á kvöldgöngu í gamla bænum niðri á Eyrinni. Það sem fangaði athygli okkar var, að það barst tónlist út um glugga í nærri því öðru hverju húsi – allt frá Mozart og Chopin til Jóns Leifs og Sigvalda Kaldalóns. Um stund fannst okkur, eins og við værum stödd í Bæheimi, þar sem við höfðum orðið vitni að svipaðri stemningu.

Við vorum að upplifa sérstaka arfleifð Ísafjarðar, allt frá tímum Jónasar Tómassonar, sem stofnaði fyrsta tónlistarskólann snemma á liðinni öld, til Ragnars H. Ragnar og konu hans, Sigríðar Jónsdóttur frá Gautlöndum, sem glæddu tónlistarlíf Ísfirðinga nýju lífi upp úr Seinna stríði.

Lesa meira

Þjóðhátíðardagur Litáa, 6. júlí, 2021

Þessi mynd var tekin á þjóðhátíðardegi Litáa, 6. júlí, 2021-, þar sem við erum á leið í móttöku í forsetahöllinni.

Myndin vakti óvenjulega athygli og birtist víða á forsíðum blaða. Hvað var maðurinn að gera með regnhlíf á þessum bjarta og heita sumardegi? Svarið er, að fyrr um daginn brast á með þvílíku úrhelli, að borgin var því sem næst á floti. Regnhlífin á því fremur að bera vott um forsjálni mannsins, fremur en óhæfilega bölsýni.

Elín Kristjánsdóttir, minning

Þegar við kynntumst Ellu bjuggum við öll í gamla Vesturbænum. Og Vesturbærinn var í þá daga eins og vinalegt þorp, sjálfu sér nægt. Þar var allt til alls, fiskbúð á horninu, mjólkurbúð og bakarí og sjoppa – jafnvel skósmiður. Allt í göngufæri. Við sem vorum útivinnandi tókum strætó í vinnuna, fórum inn í önnur hverfi, en hlökkuðum alltaf til að snúa aftur í Vesturbæinn að kvöldi dags.

Lesa meira