Sigríður Ragnarsdóttir, minning

Þetta var að áliðnu hausti á Ísafirði á áttunda áratugnum. Við vorum á kvöldgöngu í gamla bænum niðri á Eyrinni. Það sem fangaði athygli okkar var, að það barst tónlist út um glugga í nærri því öðru hverju húsi – allt frá Mozart og Chopin til Jóns Leifs og Sigvalda Kaldalóns. Um stund fannst okkur, eins og við værum stödd í Bæheimi, þar sem við höfðum orðið vitni að svipaðri stemningu.

Við vorum að upplifa sérstaka arfleifð Ísafjarðar, allt frá tímum Jónasar Tómassonar, sem stofnaði fyrsta tónlistarskólann snemma á liðinni öld, til Ragnars H. Ragnar og konu hans, Sigríðar Jónsdóttur frá Gautlöndum, sem glæddu tónlistarlíf Ísfirðinga nýju lífi upp úr Seinna stríði.

Ragnar H. og Sigríður kona hans, foreldrar Sigríðar, sem við kveðjum í dag, skipa veglegan sess í tónlistarsögu okkar Íslendinga. Tónlistarskólinn þeirra, sem þau ráku í áratugi á Ísafirði, átti ekki sinn líka. Tónlistarskólinn var þeirra heimili. Heimilið var tónlistarskóli. Foreldrum á Ísafirði lærðist snemma, að fyrir utan að kunna að lesa og skrifa, þyrftu börnin líka að nema og tjá sig í tónlist. Samæfingarnar á sunnudögum voru samfelldir tónleikar. Meistarinn hlustaði, leiðbeindi og lagfærði. Skólahald af þessu tagi í verstöð á norðurhjara átti hvergi sinn líka.

Þegar við vorum til kvödd að stofna menntaskóla á Ísafirði á vordögum haustið 1970, varð okkur snemma ljóst, að það bæri að virða margra ára agað tónlistarnám sem hluta af stúdentsprófi. Ragnar og Sigga urðu því nánustu samstarfsaðilar okkar frá upphafi. Kannski væri nær að segja, að þau hafi gengið okkur í föður- og móðurstað.

Þegar við vorum horfin af vettvangi, tóku Sigríður og hennar maður, Jónas Tómasson, við keflinu af foreldrum Sigríðar. Sigríður átti allra kosta völ til starfsframa í höfuðborginni eða á alþjóðavettvangi í krafti góðrar menntunar og hæfileika. Hún kaus fremur að ávaxta arfleifð foreldra sinna á heimaslóð, sem hún gerði með glæsibrag í rúma þrjá áratugi. Fyrir það á hún mikinn heiður skilinn.

Hún tók við skólastjórn og kennslustörfum, stýrði kórum, var organisti Ísafjarðarkirkju –  og lét sig ekki muna um að vera kirkjuorganisti Súðvíkinga í tólf ár. Tónlistarlífið blómstraði – trúfestin bar ríkulegan árangur.

Við Bryndís kveðjum hana með djúpri virðingu og  væntumþykju –  og sendum fjölskyldu hennar, vinum og vandamönnum, hugheilar samúðarkveðjur.

Jón Baldvin og Bryndís