Elín Kristjánsdóttir, minning

Þegar við kynntumst Ellu bjuggum við öll í gamla Vesturbænum. Og Vesturbærinn var í þá daga eins og vinalegt þorp, sjálfu sér nægt. Þar var allt til alls, fiskbúð á horninu, mjólkurbúð og bakarí og sjoppa – jafnvel skósmiður. Allt í göngufæri. Við sem vorum útivinnandi tókum strætó í vinnuna, fórum inn í önnur hverfi, en hlökkuðum alltaf til að snúa aftur í Vesturbæinn að kvöldi dags.

Ella átti heima á Ránargötunni í vinalegu bárujárnsklæddu húsi með stórum gluggum. Þar bjuggu líka Anna Kristine og Lizella dóttir hennar. Ég átti oft erindi við Önnu Kristine, því að við unnum saman að blaðaútgáfu á þessum tíma. Og það var alltaf svo gaman að heimsækja þær allar mæðgur. Hver annarri skemmtilegri og hláturmildari. Við sátum í stofunni og létum fara vel um okkur í hvíta fallega sófanum. Ella kveikti á kertum og bar okkur góðgæti með kaffinu. Það geislaði af henni, og glettnin var aldrei langt undan. Hvað við gátum hlegið og skemmt okkur!

Þær mæðgur áttu ekki langt að sækja frásagnargáfuna. Ella var dótturdóttir hins fræga sr. Árna Þórarinssonar, sem Þórbergur gerði ódauðlegan með því að skrá listilegar frásagnir hans af „vondu fólki“ undir Jökli. Sagt var, að þar hefðu komið saman lygnasti maður þjóðarinnar og sá trúgjarnasti. Sá lygnasti þýðir, vel að merkja í þessu samhengi, sá sem kunni að færa í stílinn. Og það hefur svo sannarlega gengið að erfðum.

Ég vissi það ekki fyrr en seinna, að Ella hefði dvalist sex ár í Skotlandi, frá fermingu til tvítugs. Gott ef hún bjó ekki í kastala uppi í Hálöndum. Eigandi kastalans hafði stundað laxveiðar árum saman í Straumfjarðará og orðið vinur fjölskyldu Ellu. Mér finnst einhvern veginn núna, þegar ég hugsa til baka, að þessi langa dvöl í fjarlægu landi hafi verið henni dýrmæt reynsla og markað persónuleika Ellu meira en nokkuð annað. Hún var bæði umburðarlynd og æðrulaus og alltaf svo jákvæð – sá bara það besta í hverjum og einum.

Á þessum árum barðist maðurinn minn fyrir pólitísku lífi sínu dag hvern á Alþingi. Í hvert skipti, sem við Anna hittumst eða töluðum saman í síma, brást ekki, að hún átti að skila baráttukveðju til Jóns Baldvins frá Ellu. Hún studdi hann í öllu hans stríði, hvatti hann eins og besta móðir. Ef eitthvert mál stóð tæpt í almenningsálitinu var JB farinn að spyrja: „Hvað segir Ella?“ Hún var okkur stoð og stytta, ógleymanleg.

Bryndís og Jón Baldvin.