Ríki óttans

Ég átti mér einskis ills von þennan fagra föstudagsmorgun. Sólhvítur himinninn rann saman við hafið bláa, sem bærðist varla í logninu. Við vorum að aka eftir N340, sem er gamla þjóðbrautin með sjónum á milli Malaga og Almeríu. Vegurinn ýmist hangir utan í snarbröttum klettaveggjum eða beygir inn í djúp gljúfur, þar sem jafnvel sólin sjálf nær ekki að skína í morgunsárið. Ég sat undir stýri. Við ætluðum á markaðinn í Almunécar.

Sem ég er að beygja burt undan sólinni og inn í eitt gljúfrið, stendur ekki groddalegur karlmaður, merktur Guardia Civil. Hann stendur við vegkantinn og gefur okkur merki um að nema staðar. – Satt að segja fæ ég alltaf smáhræðslukast, þegar spænska löggan er annars vegar. Og frá því var engin undantekning að þessu sinni, þó svo að ég væri bæði bláedrú, með beltið spennt og glænýtt ökustírteini í töskunni. Maðurinn var merktur Guardia Civil, nota bene – ekki Policia local (staðarlögregla). Þeir eru komnir aftur – falangistarnir – hin sauðtryggu handbendi ógnarstjórnarinnar, sem voru þekkt fyrir algert miskunnarleysi í samskiptum við saklaust fólk.

Nema hvað, ég verð að hlýða, opna gluggann og afhendi lögreglumanninum ökuskírteinið. Hann snýr því á alla kanta, glaðhlakkalegur á svip. Mér stökk ekki bros, því að ég var enn svolítið hrædd – vissi ekki hvort það var bíllinn eða ég, sem þóttu grunsamleg – þetta er reyndar bara smákríli, komið til ára sinna, rautt og krambúlerað. Hvað var svona grunsamlegt við ferðir okkar? – Þegar maðurinn er búinn að ganga aftur fyrir bílinn, réttir hann mér skírteinið á ný og gefur okkur leyfi til að halda áfram ferð okkar.

Ég verð allt í einu svo glöð og fyllist þakklæti yfir að sleppa úr greipum Guardia Civil. Set bílinn í gang og segi si svona í leiðinni við manninn, að hann hafi eiginlega næstum verið búinn að hræða úr mér líftóruna – og bæti við, að það sé eitthvað í fari spænsku löggunnar, sem valdi þessum ótta mínum.

Og hverju haldið þið, að hann svari? „Hafið þér verið að lesa Garcia Lorca?“ „Nei, ekki nýlega, en ég er mikill aðdáandi Garcia Lorca“, svara ég í sakleysi mínu. „Einmitt, það er þess vegna sem þér eruð hræddar“, segir hann og horfir á mig sigri hrósandi. „Garcia Lorca var nefnilega drepinn, vegna þess að hann dirfðist að gagnrýna okkur í Guardia Civil, frú mín góð“. Ég gapti af undrun – þetta kom úr svo óvæntri átt. Er það þetta sem þeir læra í kvöldskóla Guardia Civil? Augu hans lýstu af óstjórnlegum hroka. Það var eins og það hlakkaði í honum. Ég horfði á hönd hans, sem hélt um skeftið á skammbyssunni í hægri vasa. Eitt augnablik varð ég skelfingu lostin. Var aftur skollið á borgarastríð? Það fór um mig hrollur í geislum sólarinnar, sem var nú komin hátt á loft og lýsti ofan í gljúfrið.

Vegur dauðans
Nú eru bráðum liðin áttatíu og fmm frá því að Federico Garcia Lorca – eitt mesta skáld allra tíma – lét lífið fyrir atbeina Guardia Civil hér í nágrenninu – Granada. Hann var skotinn ofan í fjöldagröf að næturlagi á afviknum stað eins og hver annar flækingshundur. Lík hans hefur enn ekki fundist, og Spánverjar eru enn að reyna að fyrirgefa sjálfum sér þennan óafturkallanlega glæp – eða að reyna að réttlæta hann, eins og þessi lögga, sem nú sleppti höndinni af byssunni og bandaði okkur burt eins og flækingshundum.

N340 – er í bókum, sem fjalla um spænska borgarastríðið (1936-1939), nefndur „Vegur dauðans“, eða jafnvel „Hinn blóði drifni vegur“. Það var eftir þessum sama vegi, sem þúsundir manna, kvenna og barna, reyndu í örvæntingu að forða sér á flótta undan hatursaðgerðum Francos, minnug orða hans: „Sá sem ekki er með mér, er á móti mér – og því réttdræpur“. Bæði Hitler og Mussolini voru sömu skoðunar, og til að sýna velþóknun í verki sendu þeir fjölda herskipa inn á Miðjarðarhafið. Í ársbyrjun 1937, þegar flóttinn frá Malaga náði hámarki, var varpað akkerum hér rétt undan ströndinni og dúndrað sprengjum á mannfjöldann, sem stráféll eins og flugur á heitum vordegi. Reyndar var þetta í febrúar. En fimmtíu og sjö þúsund manns lágu í valnum eftir þessa atlögu, og árum saman var ekki hirt um að safna líkamsleifum hinna föllnu, sem rotnuðu utan vegar, vegfarendum til ama og angurs.

Þess vegna þetta nafn „Vegur dauðans“.

Áttatíu ár eru ekki langur tími, spannar líf tveggja kynslóða. Venjulegt fólk, bændur og búalið, börn og gamalmenni, ráfuðu um vegi landsins í leit að skjóli gegn hungri, kulda og ofbeldi. Þjóðin lifði í stöðugum ótta og allsleysi árum saman. Og sá ótti er enn þarna undir niðri – svipaður og sá ótti, sem ég fann smjörþefinn af þennan morgun í gljúfrinu djúpa.

Á valdatíma Francos, sem stóð í tæp fjörutíu ár, var óvinurinn sýnilegur og áþreifanlegur. Hann birtist í mannsmynd, með Guardia Civil í fararbroddi. Og aðeins með því að láta lítið fyrir sér fara og varast orðræður við ókunnuga, gátu menn fengið að lifa nokkurn veginn eðlilegu lífi, óáreittir af yfirvöldum.

Nú erum við aftur að upplifa stríð, en að þessu sinni er óvinurinn ósýnilegur. Jafnvel kirkjan er tortryggin. Kyrrðarstundin er fyrir bí, óvinurinn gæti hugsanlega leynst meðal kirkjugesta. Því koma hinir trúuðu að luktum dyrum.

Og við erum öll tortryggin, óttafull. Við óttumst hvert annað. Gamla konan í götunni minni, sem ég var vön að taka utan um í einlægri samúð og væntumþykju, er allt í einu orðin hættuleg, og ég tek stóran sveig fram hjá henni. Stelpurnar í matvöruverslunni, sem voru vanar að brosa til mín og segja eitthvað skemmtilegt, eru faldar á bak við grímur, og ég sé angist í augum þeirra. Þær eru allt í einu hræddar við mig, útlendu konuna.

Öll mannleg samskipti, sem gera lífið þess virði að lifa því, eru allt í einu hættuleg – forboðin. Bros, snerting, jafnvel kossar á kinn, faðmlag, hlýja, væntumþykja – ekki meir.

Hvers virði er þá lífið?

Ríkið – það er við öll
Það ríkir neyðarástand. Undirrótin er ótti. Við höfum óvænt fengið smjörþefinn af því, hvernig það er að lifa í ríki óttans. Svona var það undir Franco. Svona var það “í þúsund ára ríkinu”, sem Hitler boðaði, og svona var það í “framtíðarlandi Sósíalismans” undir harðstjórn glæpamannsins, Stalíns.

Og þannig er það enn undir ógnarstjórn harðstjóra vítt og breitt um heiminn. Sumir segja, að valdboð ríkisins, sem skipar þér fyrir um að sitja heima, fara ekki erindisleysu út á götu, mæta ekki á mannamót (og þaðan af síður í mótmælagöngur!) – allt til þess að vernda okkur fyrir hinum ósýnilega óvini – sé víða notað til að réttlæta afnám mannréttinda, frelsis og lýðræðis.

En það er annað sem vekur líka athygli okkar. Þegar svona neyðarástand skapast, og lífið sjálft er að veði, finnum við fyrir því sem aldrei fyrr, að við þurfum hvert á öðru að halda. Það byrjaði sem heilbrigðisvandamál, en er orðið að efnahagsvandamáli og þjóðfélagsvandamáli. Ef við hættum að vinna, hvað verður þá um hagvöxtinn og neysluna? Hver á borga launin? Hvernig getum við staðið undir afborgunum af láninu okkar?

Nú er allt í einu svo komið, að það er ríkið, sem á að koma okkur til bjargar.

“Ríkið – það er ég”, sagði Loðvík Frakkakonungur forðum daga. Það er enn svo víða um heim. En í lýðræðisríki, þá er ríkið við sjálf – það á að heita að vera samnefnari okkar.

Og allt í einu finnum við á eigin skinni, að það hefur verið illa að því búið.

Heilbrigðisþjónustan var í svelti, rannsóknir á mótefnum við veirusýkingum, voru vanræktar. Af hverju? Af því að enginn gat grætt á því! Og það er skortur á starfsfólki. Álagið á starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar – sem hættir lífi sínu dag hvern til að bjarga okkar lífi – er langt yfir þolmörkum.

Þegar – og ef – neyðarástandinu að lokum linnir, munum við þá hafa lært eitthvað af þessu?

Eða hverfur allt aftur í sama farið?

Og nota bene: Það var ríkið en ekki markaðurinn, sem kom okkur til bjargar í þetta skipti.

Það er ríkið sem borgar atvinnuleysisbæturnar. Það er ríkið, sem tryggir launagreiðslur fyrirtækjanna. Það er ríkið, sem frestar afborgunum af lánunum okkar.

Og ríkið – það erum við. Hvernig værum við stödd, ef við stæðum ekki saman?

Munum það!