Anna Kristine Magnúsdóttir – minning

“Elsku Bryndís mín. Gleðilegar nýársóskir til ykkar Jóns. Ég ætlaði að hringja, en varð skyndilega raddlaus. Elska ykkur, knús og kossar”.

Þetta var síðasta kveðja Önnu Kristine til mín. Tveimur dögum síðar var hún gengin út af sviðinu – horfin mér að eilífu.
Aldrei framar mundi hún senda mér uppörvandi kveðju – hugga mig í andstreymi, gefa mér von um betra líf – bjartsýn og örlát, vinur í raun.
Ég var strax farin að sakna hennar.

Við Anna höfðum þekkst lengi. Unnum saman um tíma fyrir mörgum árum, þegar ég bjó á Vesturgötunni og hún á Ránargötunni – bara spölkorn á milli. Við vorum að gefa út blað – kvennablað – og vorum stöðugt að leita að söluvænum, spennandi hugmyndum.

Anna Kristine var óþrjótandi uppspretta, dó aldrei ráðalaus og var í sambandi nótt sem nýtan dag. Og Þá þurfti maður að hlaupa í hvelli á milli húsa, jafnvel í náttkjólnum einum fata, til þess að fanga hugmyndirnar, áður en þær fjaraði út á ný. Á þessum árum í Vesturbænum bundumst við Anna Kristine vinaböndum, sem aldrei hafa rofnað.

Og hún hefur svo sannarlega reynst mér vinur í raun.

Fyrir því sem næst þremur árum var gerð einhver svívirðilegasta atlaga, sem um getur að mannorði okkar Jóns Baldvins, með þeim afleiðingum, að okkur var nánast útskúfað úr íslensku samfélagi – og fór Háskóli Íslands þar fremstur í flokki. Þá fékkst ekki dulist, hverjir voru vinir í reynd. Anna Kristine var ein af þeim fáu, sem aldrei efaðist um sakleysi okkar. Hún sá á svipstundu í gegnum lygavefinn, sem við vorum flækt í.

Þær mæðgur, Anna Kristine og móðir hennar, Elín, voru í sambandi við okkur daglega, báðar þá rúmliggjandi og fárveikar. Ég veit ekki núna, hvort ég þakkaði þeim nokkurn tíma nógsamlega fyrir þann kjark, sem þær sýndu á ögurstundu – og þann vinarhug, ástúð og nærgætni, sem satt að segja hélt í okkur lífinu, þar sem við stóðum í eldinum og sáum fá úrræði til bjargar.

Ég geri það núna, og bið Önnu mína fyrir kveðju til mömmu, sem bíður hennar handan landamæranna.

Bryndís Schram