Dóra Jakobsdóttir Guðjohnsen, minning

Dóra kom óvænt inn í líf mitt, þegar ég var bara sextán og nýsloppin inn í MR – Lærða skólann í Reykjavík – feimin og hlédræg. Hún var hávaxin, grannholda, laus við allt tildur og full sjálfstrausts. Hún var satt að segja allt öðruvísi en flestar hinar stelpurnar í bekknum, bæði frumleg í hugsun, skemmtilega sérviskuleg og býsna fyndin þegar vel lá á henni. Og ekki skorti hana sjálfstraustið. Hún leyfði sér jafnvel að sproksetja kennarann, sem gerði því skóna að við værum bara komnar í MR sem biðsal hjónabandsins, í leit að hinum rétta – eða þá til að ná máli sem flugfreyjur í háloftunum!

Ég laðaðist ósjálfrátt að Dóru. Hún var gömul sál í ungum líkama, vitrari en við hinar, æðrulaus þegar eitthvað bjátaði á.

En eftir þennan fyrsta vetur í MR hvarf hún sjónum mínum og lífið varð einhvern veginn hversdagslegra fyrir vikið. Það liðu mörg ár þar til við hittumst á ný, reynslunni ríkari. Báðar höfðum við gengið menntaveginn þrátt fyrir börn og buru.

Hún varð líffræðingur frá HÍ árið 1980 og kenndi við þá stofnun í framhaldinu. Svo átti hún sæti í íslensku málnefndinni í fimm ár. Þar með lagði hún sitt af mörkum til þess að okkar ástkæra og ylhýra, sem við tókum í arf, fái lifað af á ókominni tíð. Sagði ég ekki að hún hefði snemma verið skemmtilega sérviskuleg?

Dóra skrifaði mér fallegt og einlægt bréf í sumar. Hún lýsir þjáningum sínum, en kveður sátt, södd lífdaga: „Enginn getur sagt til um, hve lengi ég lifi, sjálf reikna ég með að fara í haust. En mér líður vel, og það er vel hugsað um mig.“ Æðrulaus sem fyrr – og óttalaus.

Þetta seinasta bréf lýsir vel mannkostum Dóru. Á sama tíma og hún horfðist sjálf í augu við dauðann átti hún enn í hjarta sínu nóg örlæti til að beina hughreystandi orðum að æskuvinkonu sinni, sem þá var höfuðsetin af hatri og mannvonsku. Ég gat ekki hætt að gráta, var gripin sárum söknuði eftir því sem einu sinni var – og aldrei kemur til baka.

Og nú á ég bara þessa ljósmynd af mér við hlið Dóru, þar sem við erum uppáklæddar á leið á grímuball í MR þetta eina vor sem við áttum saman þar. Hún brosir svo fallega, full tilhlökkunar og eftirvæntingar. Við báðar svo ungar og óreyndar – og lífið fram undan.

Að leiðarlokum kveð ég vinkonu mína þakklátum huga fyrir gjöful kynni og ógleymanlegar samverustundir.