Erik Bidsted, balletmeistari Þjóðleikhússins dáinn í maí, 2002

Bidsted á þetta inni hjá þér,” sagði Jón Baldvin við mig. Eftir á að hyggja er þetta alveg rétt hjá honum. Bidsted á það svo sannarlega inni hjá mér, að ég minnist hans nokkrum orðum.

Hann var minn mentor á árunum milli tektar og tvítugs – fyrsti maðurinn, mér vandalaus, sem ég hreifst af, leit upp til, hlakkaði til að hitta á hverjum degi í mörg ár.
Við kölluðum hann alltaf Bidsted – aldrei Erik, það gaf til kynna hæfilega fjarlægð.

Við vorum ungar Reykjavíkurmeyjar að stíga okkar fyrstu dansspor inn í veröld leikhússins – töfraveröld, þar sem grár veruleikinn var skilinn eftir utan dyra. Við fórum úr skólafötunum, íklæddumst gervi ballerínunnar, settum hárið í hnút og gutum gagnrýnum augum að stórum speglum búningsherbergisins. Biðum spenntar eftir að dyrnar opnuðust og meistarinn segði myndugri röddu: “Vær saa gode.”

Lesa meira

Minning: Guðmunda Elíasdóttir

Þegar ég lít til baka finnst mér, að ég hafi verið hálfgert barn. Fylgdarsveinn minn – skáldið – var að vísu af barnsaldri, en engu að síður unglingslegur og óreyndur. Hann tók starf sitt mjög alvarlega, gætti mín af stakri samviskusemi og hvorki gantaðist við mig né áreitti. Engu að síður villtumst við af leið – og í heilan dag vorum við strandaglópar í New York. Þar hafði skáldið setið á skólabekk nokkrum árum fyrr.

Ég var berfætt í nýjum skóm, sem ég hafði keypt til fararinnar, og var svo sár fyrsta kvöldið, að ég vafði blautum handklæðum um fæturna, svo að ég gæti sofnað eftir langar göngur og skáldlegar lýsingar á leyndardómum þessarar höfuðborgar heimsins.

Lesa meira

Minning: Ahmed Ómar Awad.

Það eru tæp fjörutíu ár frá því að fundum okkar Ómars – eins og við íslenskir vinir hans, nefndum hann – bar sama fyrir hreina tilviljun. Og á ólíklegum stað – Osta- og smjörsölunni. Ég var nýflutt suður aftur, eftir að ævintýri okkar Jóns Baldvins við Menntaskólann á Ísafirði lauk.

Fyrir einhverja hendingu var ég ráðin til að stýra „Stundinni okkar“. Ég fór víst ótroðnar slóðir við það verkefni, enda illa að mér í skandinavískum uppeldisfræðum. Þegar ég varð þess vör, að blessuð börnin vissu ekki, hvaðan mjólkin kom, ákvað ég að fara í heimsókn til Osta- og smjörsölunnar, sem í dag heitir Mjólkursamsalan. Ég bjóst við því, að þar tæki á móti mér þreklegur, sunnlenskur sveitamaður, en, óekkí! Sá sem fenginn var til að leiða börnin í allan sannleikann um það, hvaðan mjólkin kemur, reyndist vera framandlegur maður, fríður sýnum og dökkur yfirlitum, með dimmbrún seiðandi augu og glaðvært bros. Ómar Egypti, góðan daginn. Frá þeirri stundu vorum við vinir.

Lesa meira

Minnigarorð um Margréti frá Dalsmynni

Fyrsta minning mín um Margréti í Dalsmynni var, þar sem hún kom í bæinn færandi hendi með ull til ömmu minnar, Margrétar Magnúsdóttur. Þetta voru vöruskipti milli bóndakonunnar og sjómannskonunnar. Margrét í Dalsmynni hafði fyrir mörgum börnum að sjá. Amma mín átti fjölda barnabarna og sendi nöfnu sinni í Dalsmynni föt af þeim handa ungviðinu. Í staðinn fékk hún ullina.

Hversu oft sat ég ekki við fótskör ömmu á dimmum vetrarkvöldum, þar sem hún steig rokkinn og spann ullina frá Dalsmynni. Hún spann fínan þráð og prjónaði nærboli á okkur krakkana. Svo prjónaði hún líka nærbuxur – ögn þykkari – og klukkur svokallaðar, sem við stelpurnar klæddumst undir kjólunum. – Þess vegna varð okkur aldrei misdægurt í kuldahretum.

Lesa meira