Minning: Ahmed Ómar Awad.

Það eru tæp fjörutíu ár frá því að fundum okkar Ómars – eins og við íslenskir vinir hans, nefndum hann – bar sama fyrir hreina tilviljun. Og á ólíklegum stað – Osta- og smjörsölunni. Ég var nýflutt suður aftur, eftir að ævintýri okkar Jóns Baldvins við Menntaskólann á Ísafirði lauk.

Fyrir einhverja hendingu var ég ráðin til að stýra „Stundinni okkar“. Ég fór víst ótroðnar slóðir við það verkefni, enda illa að mér í skandinavískum uppeldisfræðum. Þegar ég varð þess vör, að blessuð börnin vissu ekki, hvaðan mjólkin kom, ákvað ég að fara í heimsókn til Osta- og smjörsölunnar, sem í dag heitir Mjólkursamsalan. Ég bjóst við því, að þar tæki á móti mér þreklegur, sunnlenskur sveitamaður, en, óekkí! Sá sem fenginn var til að leiða börnin í allan sannleikann um það, hvaðan mjólkin kemur, reyndist vera framandlegur maður, fríður sýnum og dökkur yfirlitum, með dimmbrún seiðandi augu og glaðvært bros. Ómar Egypti, góðan daginn. Frá þeirri stundu vorum við vinir.

Ári seinna, þegar Jón Baldvin fór eins og stormsveipur um vinnustaði Reykjavíkur til að boða mönnum fagnaðarerindi jafnaðarstefnunnar, gleymdi hann ekki Osta- og smjörsölunni. Hann bjóst við því, að sá vinnustaður tilheyrði Maddömu Framsókn og flokkaðist því undir heiðingjatrúboðið. Það var ekki að sökum að spyrja, að Ómar hreifst af boðskapnum og var upp frá því staðfastur sósíaldemókrat. Hann gekk í Alþýðuflokkinn, þar sem honum var tekið opnum örmum – næstum því eins og týnda syninum – og tók þar þátt í pólitískum umræðum. Í þeim ranni eignaðist hann marga vini, enda alþjóðahyggja rauði þráðurinn í lífsskoðun jafnaðarmanna.

Það mega þykja undarleg örlög, að maður fæddur og upprunninn á bökkum Nílar í Kaíró, af þekktum menntamannaættum í Egyptalandi í föðurætt, en sýrlenskur í móðurætt, skuli fá það hlutverk í lífinu að ferðast um gervallt Ísland sem sölumaður fyrir einokunarverslun Framsóknarflokksins með afurðir íslenskra bænda. Svona er tilveran gráglettin á köflum. En Ómar var orðinn rammíslenskur af þessari lífsreynslu.

Hann þekkti betur staðhætti vítt og breitt um Íslands þorpagrundir en flestir innfæddir. Og meira en það. Hann var einhver mesti silungsveiðimaður, sem Ísland hefur alið. Þau vötn í óbyggðum Íslands, þar sem silung er að finna, ná varla máli, ef hinn ættgöfugi Egypti hefur ekki staðið þar á vatnsbakkanum og rennt fyrir silung. Hvílíkt ævintýri!

Eftir að pólitískri útlegð okkar Jón Baldvins í Ameríku og við Eystrasalt lauk, og við settumst að í Reykjadal í Mosfellssveit, birtist veiðimaðurinn mikli brátt á veröndinni og rétti fram kippu af nýveiddum, spriklandi silungi ofan af Veiðivötnum. Þvílíkt hnoss! Eftir það hefur hann talist til fastagesta að Álfhóli.

Ómar, vinur okkar, var öðlingur með næmt fegurðarskyn og gott hjartalag. Það er ekkert leyndarmál og honum sannarlega ekki sagt til lasts, þegar ég segi, að hann naut mikillar kvenhylli í lífinu. Konur hændust að honum. Þær skynjuðu, að hann veitti þeim athygli af sinni næmu fegurðarþrá og bar fyrir þeim virðingu, sem ekki duldist. Kannski kynbræður hans, íslenskir, megi sitthvað af þessu læra úr fari hins blíðlynda Miðjarðarhafsmanns frá Nílardalnum.