Minning um Sigurð A. Magnússon, sem við kveðjum hinstu kveðju í Hallgrímskirkju í dag.

Þau eru að hverfa á braut hvert á fætur öðru – ganga út af leiksviði lífsins – gamlir vinir, bóhemar og artistar, sem voru í blóma lífsins á seinni hluta liðinnar aldar. Í daglegu lífi minntu þau á persónur úr skáldsögum, sem ekki fundu sér stað innan ramma hversdagsleikans – höfnuðu enda hversdagleikanum. Í þeirra augum var lífið – með öllum sínum sorgum og allri sinni gleði – óendanlegt yrkisefni, sem þau spunnu sinn þráð úr. Guðmunda Elíasdóttir og Bragi Ásgeirsson, bæði tvö nágrannar og vinir á Vesturgötunni, Thor Vilhjálmsson, sem kom alla leið úr Vogunum til að lesa upp úr nýjum bókum fyrir vini í gamla bænum. Öll nýgengin – og nú síðast Sigurður A. Magnússon, saddur lífdaga.

Ég var eiginlega bara barn að aldri, þegar ég kynntist honum – milli tektar og tvítugs, eins og sagt er. Hann var þá nýkvæntur maður, guðfræðistúdent við Háskóla Íslands. Ég var á leið til Ameríku – á Löngufjöru – með viðkomu í höfuðborg heimsins, New York, en þar átti ég að dveljast í nokkra daga. Sigurður var kjörinn leiðsögumaður minn – eða fararstjóri.

Ferðin byrjað ekki vel. Fyrir einhvern ótrúlegan misskilning var enginn að taka á móti okkur, þegar við lentum að morgni dags í höfuðborginni. Við vorum því „týnd“ – tvö ein – í tvo heila daga! Engir farsímar þá! Og í tvo heila daga gátum við „valsað um borgina að eigin vild“, eins og það var orðað í bréfi seinna. Og nú þegar ég lít til baka, þá eru þessir tveir dagar með Sigurði A. Magnússyni í höfuðborg heimsins það eina sem mér er ógleymanlegt úr þessari frægu ferð minni vestur um haf um árið.

Sigurður þekkti borgina eins og lófann á sér – hafði stundað þar háskólanám nokkrum árum fyrr og vissi nákvæmlega, hvert halda skyldi. Ógleymanlegust var heimsókn okkar til tveggja vinkvenna Sigurðar, þeirra Guðmundu Elíasdóttur, söngkonu og Louisu Matthíasdóttur, myndlistarkonu. Þær voru ekki ríkar á veraldlega vísu, bjuggu í framandlegu umhverfi við erfiðar aðstæður. Ég fann sárt til þess í nærveru þessara kvenna, hvað ég var reynslulaus og óþroskuð.

Guðmunda tók okkur opnum örmum. Gott, ef hún var ekki svolítið skotin í Sigurði! Og því ekki? Hann var myndarlegur maður, með ljósa lokka og himinblá augu. Hafði fallegt bros og var glaðlyndur að eðlisfari, en átti það til að hnjóta um orðin, ef honum var mikið niðri fyrir. En það var bara sjarmerandi og heillaði konur eflaust. Það var mikið hlegið þennan dag, og Sigurður gleymdi um stund að hafa áhyggjur af mér. Daginn eftir skildu leiðir.

Hann fór sína leið og ég mína. Löngum fylgdist ég bara með honum úr fjarska í gegnum sögurnar, sem hann sagði okkur – þar á meðal af sjálfum sér og sárri lífsreynslu í uppvextinum. Sögurnar urðu margar, ein fyrir hvert ár á langri ævi rithöfundarins. Þegar við hittumst á förnum vegi, féllumst við í faðma. Við urðum vinir í Ameríku, og það brá aldrei skugga á þá vináttu. Þráðurinn var spunninn þar og rofnaði aldrei. Fyrir það er ég þakklát.