(Ó)heiðarleg blaðamennska

„…það var ekki fyrr en sjálfstæð eftirlitsstofnun – Umboðsmaður Alþingis – tók ákvörðun um að rannsaka málið, sem sannleikurinn um óheiðarleikann kom fram.“
Jón Trausti Reynisson ritstjóri (í leiðara Stundarinnar 30.03.17)

Í grein í Stundinni ( 30.03.17), sem á að vera upprifjun á næstum 30 ára gamalli frétt, tekur Reynir Traustason á sig krók til að vekja upp gamlan draug. Um hvað snerist það nú aftur? Jú, það var verið að reyna að telja fólki trú um, að við Jón Baldvin værum þjófar. Pólitískur skítabissness þá. Já – en mundi nú vera kallað falsfrétt. Af hverju fals? Vegna þess að „sjálfstæð eftirlitsstofnun“ – Ríkisendurskoðun – hafði rannsakað málið og kveðið upp úrskurð um að þetta væru ósannindi.

Hver var hinn meinti glæpur? Tveimur risnureikningum frá fjármálaráðherratíð Jóns Baldvins (1987–88), þar sem tilefnis var ekki getið, var lekið til fjölmiðla. Þar sem ég hélt upp á fimmtugsafmælið mitt sumarið 1988, var það látið fylgja sögunni, að „grunur léki á“, að Jón Baldvin hefði látið fjármálaráðuneytið kosta veisluna.

Þetta var í anda slúðurblaðamennsku allra tíma: „Let the bloody bastard deny it“. Þótt veisluhaldarinn og starfsfólk hans bæru vitni um, hvernig veisluföng voru kostuð, var ekkert mark á því tekið.

Gróusagan fékk byr undir vængi með því að flestir fjölmiðlar endurtóku hana í ýmsum myndum mánuðum saman. Árangurinn birtist loks í skoðanakönnunum, þegar spurt var: Hver er spilltasti stjórnmálamaður landsins? Jón Baldvin vann með yfirburðum. Tilganginum var náð.

Við vorum varnarlaus.

Loks tók Jón Baldvin til sinna ráða. Hann krafðist þess, að Ríkisendurskoðun (sem heyrir undir Alþingi og á að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu) rannsakaði málið. Því var hafnað á þeirri forsendu, að þetta væri einkamál. Þá fór Jón Baldvin á fund forseta Alþingis. Hann tilkynnti honum, að ef Ríkisendurkoðun neitaði að komast að hinu sanna, mundi hann bera fram hundruð fyrirspurna á Alþingi um meðferð risnufjár allra ráðherra og ríkisstofnana á lýðveldistímanum – til að fá málið á dagskrá. Þá mundi hann sjálfur reifa staðreyndir málsins úr ræðustól Alþingis. Að vísu mundi þingið varla fjalla um margt annað þau dægrin.

Þetta hreif.

Við létum Ríkisendurskoðanda í té alla reikninga um það, hvernig veislan hefði verið kostuð. Við kröfðumst þess, að það yrði borið saman við hina „grunsamlegu“ reikninga á fjármálaráðuneytið. Það tók tímann sinn. Fimmtán mánuðum eftir að afmælisveislan var haldin, 12. október 1989, birti Ríkisendurskoðun niðurstöðu sína.

Þar sagði, að Ríkisendurskoðun „hafi athugað þessi gögn og borið þau saman við greindar úttektarnótur og að athugunin hafi ekki leitt neitt í ljós, sem gefi ástæðu til að tengja þetta tvennt saman eða rengja sannleiksgildi fyrirliggjandi gagna um að greiðsla veislufanganna hafi verið með eðlilegum hætti“.

Svo mörg voru þau orð.

Nú – næstum þremur áratugum síðar – finnst Reyni Traustasyni sæmandi að endurtaka rógburðinn og hampa honum sem vitnisburði um árvökula rannsóknarblaðamennsku! Hvílík öfugmæli. Sitt er nú hvað, vönduð rannsóknarblaðamennska, sem afhjúpar þjóðfélagsmeinsemd kerfislægrar spillingar, eins og við öll erum vitni að þessa dagana – og slúðurblaðamennsku af því tagi, sem hér er lýst.

Sorpblaðamennska gerir engan greinarmun á sönnu og lognu. Sá sem hana stundar, sparar sér þá fyrirhöfn að greina þar á milli. Þar með veldur hún okkur öllum tjóni, með því að koma óorði á rannsóknarblaðamennsku.“Stundin“ á það síst skilið núna. Við þurfum á henni að halda til þarfari verka.

Satt best að segja er fátt aðdáunarvert við, að fjömiðlamenn láti valdamikla menn misnota sig í því skyni að koma höggi á pólitíska andstæðinga – eins og reyndin var í þessu tilviki.

Þá er viðkomandi blaðamaður bara handbendi kerfisins – en ekki vaktmaður almannahagsmuna.