Ég finn hamingjuna hríslast fram í fingurgóma.

Fyrir fjörutíu árum útskrifaði ég glæsilegan hóp stúdenta frá Menntaskólanum á Ísafirði. Í dag fagnar þessi sami hópur tímamótum á sama stað. Ég sakna þess að vera ekki með – það mundi hafa verið gaman – en læt mér nægja að senda hamingjuóskir frá fjarlægum slóðum og læt meðfylgjandi texta fylgja:

HUGSAÐ VESTUR

Það er vor við Dumbshaf. Dagur og nótt renna saman í annarlegri birtu næturinnar. Tíminn stendur í stað. Ég sit fremst á gömlu bæjarbryggjunni. Hún er að niðurlotum komin og löngu hætt að vera nafli þessa litla bæjarfélags. Tveir þöglir mávar húka hvor á sínum stampi, bíða þess að bærinn vakni og gefi þeim eitthvað í svanginn. Ég er að bíða þess, að andinn komi yfir mig.
Hérna sitjum við öll þrjú – og horfum óþreyjufull yfir sofandi bæinn, þessa ósamstæðu húsaþyrpingu, sem virðist eins og ögrun við veggbrött fjöllin til beggja handa. Það bærist ekki hár á höfði. Niðri í fjörugrjótinu eru tveir ástsjúkir kettir að teygja úr sér morgunhrollinn. Annar þeirra er með blátt band um hálsinn. Skyldi hann ekki fá skömm í hattinn, þegar hann snýr heim eftir ævintýri næturinnar!

Trillukarlarnir eru komir á stjá, og bátarnir farnir að hósta út í lognið. Hvað er betra í þessari nóttlausu voraldarveröld en að vera trillukarl? Ég virði fyrir mér, hvernig stefnið klýfur sléttan hafflötinn og sólargeislarnir velta sér í kjölfarinu.

Ég finn hamingjuna hríslast fram í fingurgóma.

Svona skrifaði ég síðasta vorið mitt á Ísafirði 1978. Átta árum áður hafði ég og Jón Baldvin og börnin okkar flutt vestur. Við vorum þá rúmlega þrítug, hann kennari í gaggó, sem ætlaði sér að verða forsætisráðherra. Ég var dansari og leikari við Þjóðleikhús Íslendinga – og átti mér stóra drauma líka.

Jóni Baldvini hafði verið falið það hlutverk – eiginlega alveg óvænt – af heimamönnum að koma á fót menntaskóla á Ísafirði – sem var reyndar heimabær hans. Þegar hann kom til Ísafjarðar þetta fyrsta sumar – einn til að byrja með – biðu hans ærin verkefni. Í fyrsta lagi var ekkert húsnæði, engir kennarar og þar af leiðandi engir nemendur. Fyrstu útgjöld skólans voru þvottafata, skrúbbur og Ajax þvottaefni. Hann hafði fengið inni í gamla barnaskólahúsinu við Aðalstræti.
Það var sem sagt byrjað frá grunni.

Nú, þetta síðasta sumar mitt á Ísafirði, var menntaskólinn orðinn að 200 manna stofnun, kominn í eigið húsnæði – það er að segja heimavistina – en það var ennþá kennt í gamla barnaskólahúsinu.

Hápunktur veru minnar fyrir vestan var árið, sem ég var skólameistari ,1976-1977. Það var líka alveg óvænt. Jón Baldvin hafði allt í einu fengið Fulbright styrk til vetursetu við Harvard háskóla og var á förum. Ég hafði kennt við skólann alveg frá byrjun og verið skólameistara innan handar í stóru og smáu. Ráðherra menntamála, Vilhjálmur Hjálmarsson, framsóknarmaður að austan og hinn mesti ljúflingur, sá því enga ástæðu til að hafna þeirri hugmynd, að frúin tæki að sér stjórn skólans í fjarveru eiginmannsins. Hann gerði sér meira að segja erindi vestur til þess að kynnast okkur ögn – og kannski til að sannfæra sjálfan sig um, að hann gerði rétt með því að setja mig í svo þýðingarmikið starf.

Mér er enn í huga tilfinningin, sem greip mig, þegar ég gekk í fyrsta sinn inn í gamla skólahúsið þetta haust með stresstösku skólameistara í handarkrikanum. Nemendur stóðu með tvírætt bros á vör beggja megin gangsins, eins og þeir vissu ekki almennilega, hvort þeir ættu að taka þetta nýja hlutverk mitt alvarlega. Ég var líka hálffeimin. En ég var ekki kvíðin. Og ég var alveg með það alveg á hreinu, hvernig ég ætlaði að stjórna og hvað ég ætlaði að gera þennan vetur. Ég ætlaði að vera réttsýn, ég ætlaði að vera sanngjörn – og ég ætlaði að vera glöð. (Þó svo að ég gréti í koddann minn á hverju kvöldi – ein og yfirgefin).

Og þetta var gleðilegur vetur. Það var engu líkara en að bæði nemendur og kennarar væru sammála um, að allt ætti að ganga vel. Það var eins og allir stæðu með mér, líka bæjarbúar, sem áttu það þó til að agnúast út í þetta svokallaða menntafólk að sunnan, sem aldrei ynni handtak og færi yfirleitt aldrei úr sparifötunum.

Alltaf var jafngaman að mæta í skólann á morgnana, byrja á rótsterku kaffi, spjalla við nemendur og kennara, vera ljúf en samt ströng, halda aga en vera samt sanngjörn. Fyrir mér voru kennslustundir eins og þaulskipulagðar leiksýningar, þar sem ég lék á móti nemendum, fékk þá til að tileinka sér beygingar óreglulegra franskra sagna án þess að taka eftir því. Ég naut þess að leiðbeina, þó að ég drægi verulega úr því þennan annasama vetur.

Kennarar og aðrir starfsmenn voru afbragð annarra manna – enda sérvaldir af Jóni Baldvini. Þeir stóðu þétt að baki mér og voru vinir í raun, þegar á reyndi. Herdís Hübner, þá ritari skólans og hvers manns hugljúfi, er líklega sú eina úr þessum hópi, sem enn er búsett á Ísafirði.

Gestir voru tíðir, bæði að sunnan og norðan, fyrirlesarar, leikhópar og íþróttafrík. Það voru haldnar veislur, stundum drukkið í hófi en aldrei til vansa. Ég braut reglur og leyfði létt vín á samkomum skólans þennan vetur. Mér leiddust flöskur undir borðum og frammi á klósetti eða úti í bíl – allt þetta pukur og fyllirí. Ég sagði: Ég veit þið drekkið, og ég get ekki komið í veg fyrir það. En þá vil ég líka, að þið gerið það fyrir allra augum og í hófi. Þið megið hafa með ykkur létt vín og setja flöskurnar á borðið – ekki undir borðið. Þetta gekk. Samkomurnar voru okkur til sóma. Eða ég man ekki annað! Og enginn amaðist við þessari uppátekt minni.

Bara einu sinn reyndi verulega á sanngirni og réttsýni skólameistara þennan vetur. Það var í eina skiptið, sem mér var verulega brugðið, og ég átti erfitt með að taka ákvarðanir. Allt í einu sat ég uppi með hóp nemenda, sem mér bar skylda til að reka – þ.e.a.s. af heimavistinni. Þetta var rétt fyrir jól, prófum lokið og allir á heimleið. Þá gerði vont veður, og það var ekki flogið. Allir duttu í það! Nema hvað!

Næstu nótt kom til átaka. Hópur rummungsstráka braust inn til stúlknanna – sem voru reyndar bara tvær – mölvaði allt sem á vegi varð, gluggapósta, hurðir, klósett og vaska. Aðkoman var skelfileg. Guðmundur Ólafsson, góður vinur, íþróttakennari og vörður á heimavist, vakti mig snemma morguns og sagði mér frá atburðum næturinnar. Honum var verulega brugðið.

Við tóku miklar yfirheyrslur, sem vöruðu lengi. Hinir seku báru við minnisleysi og voru ekki beint iðrandi. Þeim fannst samt sanngjarnt að borga skaðann og taka út sína refsingu, hver svo sem hún yrði. Síðan hafði ég samband við foreldra og hlustaði af mikilli þolinmæði á þeirra raunir. Ég sá það fyrir mér eftir samtöl við aðstandendur, að það yrði ekki sanngjarnt og ekki réttlátt að vísa þessu unga fólki úr skóla. Vandamálið yrði ekki leyst á þann hátt. Það mundi bara færast eitthvað annað. Ég ákvað því, að allir gætu komið aftur eftir jól og haldið áfram námi. Það yrði meiri hjálp í því en að reka það út á götu – út í óvissuna. Það kom líka á daginn, að ég gerði rétt. Öll stóðu þau sig á vorönninni og brugðust ekki því trausti, sem ég sýndi þeim.

Nú, fjörutíu árum síðar, hugsa ég með söknuði til þessa tíma. Ísafjarðarárin voru mér eins og skóli , nám sem mér hefur reynst vel á liðinni ævi – og skólameistaraárið var umbunin, lokahnykkurinn, sem ég er hreykin af og þakklát fyrir. Ég er ykkur þakklát fyrir að hafa tekið mér af skilningi og þolinmæði sem leiðbeinandi ykkar á lokaári í Menntaskólanum á Ísafirði.

Ég man ekki vel, hvernig ræða mín hljómaði, daginn sem þið útskrifuðust. En mig minnir samt, að ég hafi talað um hamingjuna, hvar hennar væri að leita, og hvort hún tengdist eitthvað þessu prófi, sem þið voruð að ljúka. Mundi það færa ykkur hamingju? Eða létta ykkur leitina að henni?

Og hvar er svo þessi hamingja? Allir eru að fara Suður í leit að hamingju. Allir eru á leið til útlanda í leit að hamingju. Við ferðumst um allan heiminn, en finnum aldrei það, sem við erum að leita að. En ég segi bara við ykkur, sólríkur vormorgunn á lítilli bæjarbryggju fyrir vestan kennir okkur það, að hamingjan er hér og nú.

Hún býr í þínu eigin hjarta. Við leitum langt yfir skammt.