Eitt lítið lettarsbréf – loksins

Bráðum liðnir fjórir mánuðir frá því yfirgáfum landið – og við á fleygiferð allan þennan tíma. Okkur tókst að selja fallega húsið okkar í Salobrena í lok október, og  við notuðum síðustu vikurnar til þess að ganga vel frá öllu, kasta gömlum fötum, setja hreint á rúmin, tæma ísskápinn og kyssa myndirnar  á veggjunum – sem hafa gert sig heimankomnar þar öll þessi ár. Það voru ekki bara Hugrún, Fitore, Marta og sú litháiska (sem ég man ekki hvað heitir), sem gerðu mér glaða daga –  heldur líka sjálfur Botero, meistarinn frá Kolombíu  –  eða svo hét það alla vega undir myndinni af dansandi tangopari og keypt á flómarkaði í Almunecar fyrir nokkrum árum! Alla vega alveg í anda Boteros,  klunnaleg, en samt sporlétt, ófríð en samt svo sæt – það gerir brosið!                                                                                                                             

 Já, í heil fimmtán ár hefur þetta látlausa Márahús gert okkur glaðan dag og verið okkur skjól, þegar áreitið gerðist hatrammt og deyðandi á síðustu árum. Fyrir það erum við þakklát og hlökkum til að byrja nýtt líf á nýjum stað.

Við þurftum líka að kveðja alla vinina, sem hafa safnast að okkur þessi ár, bæði heimamenn og aðkomufólk. Aðkomufólkið, sem þurfti leiðbeiningar og tilsögn í upphafi –  kannski trúnað – og heimafólkið, sem var svo feimið til að byrja með. Nú var eins og við hefðum alltaf þekkst – koss á vanga og brosandi augu.

Það eru nokkrir frábærir veitingastaðir í Salobrena – allir á ströndinni – eða alla vega flestir. Þar var alltaf tekið vel á móti okkur – við fengum bestu sætin, besta útsýnið og besta matinn – allt svo innilega spænskt og sveitalegt, nammi, namm. Svei mér þá, ef þær stundir eru mér ekki dýrmætastar – gjálfrandi öldur, börn að leik –  og José, vinur okkar, með gítar í hönd og ógleymanlega flamenco rödd –  eitthvað svo sársaukafull og innileg. Já, og ekki má ég gleyma flamenco dansinum á mánudagskvöldum á La Traviesa, litla staðnum efst á klettinum. Þar komu saman allir færustu flamencodansarar Andalúsíu einu sinni í viku  til þess að sýna aðkomufólki inn í hinn miskunnarlausa heim Sígaunanna – sársaukann og niðurbælt hatrið.

En nú erum við komin á allt annan stað, samt enn við Miðjarðarhafið og nærri sólinni. Engu að síður allt annars konar heimur, allt annars konar fólk, allt öðru vísi hús (þ.e.a.s. hallir) –  og allt annað andrúmsloft: Hvað meina ég þá? Ja, í fyrsta lagi er hér hitaveita, heitir ofnar í öllum herbergjum og sannkölluð kaffihúsamenning allt um kring. Við vorum strax umkringd vinum, sem vildu allt fyrir okkur gera, segja okkur sögur, sýna okkur það markverðasta, bjóða upp á drykk og tala endalaust yfir glasi af heimalöguðu hvítvíni.

Þegar við flugum til Salobrena um miðjan nóvember, var ég ekki framsýnni en svo, að ég setti bara eitt stykki pils og eina blússu í töskuna – ferðast bara með handluggage til að spara!  – typískt- fullviss um það, að við yrðum bara í nokkra dag að ganga frá og kveðja. Ætlaði svo að koma heim með nokkra hvíta kjóla, hvít pils og blússur, sem enn héngu inni í skáp. En í staðinn fyrir að fljúga heim til Íslands þáðum við boð Kolfinnu um að fylgja henni til draumalandsins – Ítalíu. Og það er þess vegna, sem ég er eina hvítklædda konan í þessu ævagamla kirkjuþorpi, þar sem allir, bæði karlar, konur og börn klæðast svörtu – alger skandall ,eiginlega bara asnalegt – og það finnst Ítölum líka, barasta stara á mig stórum augum og glotta – eitthvað skrítin þessi – komin í sumarfötin um hávetur!! Orðin alræmd í „Cientro historico“, en þar er mest gaman að spranga um, hvernig svo sem maður er klæddur.

Að spranga um, segi ég – já, þ.e.s. að ganga um með Kolfinnu, dóttur minni, sem allir virðast þekkja og er alls staðar aufúsugestur. Hún talar málið reiprennandi (sem ég er búin að gleyma eða fórna fyrir spænskuna) Hún virðist loksins vera komin heim og nýtur sín í botn í þessu litríka umhverfi. Það gleður mig svo innilega.

„Tvisvar verður gamall maður barn“ segir máltækið – og líka við konur, því að við erum þó enn „kvenmenn“ eða hvað? Við Kolfinna  –  sem alltaf hékk í pilsunum á mér og hlýddi mér í einu og öllu –  erum nú búnar að skipta um hlutverk: nú er það hún sem stjórnar og ég hlýði í öllu. Mjög þægilegt – eiginlega bara miklu betra! Já, tvisvar verður gamall maður barn!

Þetta þorp á sér langa sögu, alveg frá því Grikkir réðu hér ríkjum á 15. öld,  byggðu sér hallir og höfðu þræla til snúninga. Á jarðhæðinni fengu þeir örþreyttir að kúra hjá múldýrunum, á meðan eigendur þeirra nutu lífsins í sölum efri hæða. Nú standa þessar hallir tómar, engum til gagns, en mikið augnayndi- eiginlega ævintýri líkast. Og hvernig væri að setjast hér að? Þetta er allt falt fyrir viðráðanlegar upphæðir og skemmtilegan félagsskap – so why not?

Sjáum til, lífinu er ekki alveg lokið  – við eigum enn sjans! Eða hvað?

Ástarkveðjur frá Bryndísi (og JBH og Kolfinnu)

P.s. Og nú erum við á leið til Tallinn, höfuðborgar Eistlands, þar sem heimamenn ætla að halda manni mínum veislu í tilefni af 85 ára afmæli hans í næstu viku.