Nú erum við aftur snúin til Pugliu eftir ógleymanlega sjö daga í Eistlandi. Þar var dekrað við okkur frá morgni til kvölds – fundahöld, móttökur, ferðalög – og stórkostlegar veislur dag eftir dag. Jafnvel hótelið sjálft skartaði stórum íslenskum fána við aðaldyrnar, þar sem á stóð “Velkominn Hannibalsson“.
Þegar ég ferðast með manni mínum til Eystrasaltslandanna, kemur oft upp í huga mér mynd úr fortíðinni: Pabbi minn, Björgvin, var fótboltasnillingur og spilaði með KR árum saman. Hann var ótrúlega vinsæll. Jafnvel löngu eftir að hann var búinn að leggja fótboltaskóna á hilluna, var hann enn stjarna og með hugann við KR – fór á alla leiki. Það kom fyrir, að hann bauð mér að koma með sér, smástelpunni. Og það sem ég man best eftir öll þessi ár, var sú aðdáun, einlæg vinátta – og jafnve lotning , sem skein út úr hvers manns andliti. Það vildu allir taka í höndina á honum og segja eitthvað fallegt við hann. Hann var enn stjarna í þeirra augum.
Og þannig er það líka með manninn minn, Jón Baldvin. Við komum oft í heimsókn til Eystrasaltslandanna – sama hvort það er Eistland, Lettland eða Litháen – allir vilja heilsa honum, tjá þakklæti sitt, fá að snerta hann. Hann er enn stjarna í þeirra augum – bjargvættur, lífgjafi. Og ég fæ tár í augun. Það er eitthvað svo ljúft að vera meðal vina, finna til öryggis.
Ég hafði auðvitað neyðst til þess að fara í búð hér í þorpinu og kaupa mér dress fyrir ferðina – vera við öllu búin. Ekki gat ég farið í hvítum sumargalla. Það er enn hávetur þarna norðurfrá. Auk þess áttum við að hitta fyrirmenni við hátíðleg tækifæri. Konan í búðinni hér rétti mér þverröndótt pils og peysu hvort tveggja í svörtu og hvítu. Þessu klæddist ég, þegar ég var í sviðsljósinu næstu daga. Svo setti ég upp svartan hatt, þegar líða tók á daginn, og þá var kvöldinu bjargað!
Annars vorum við svo sem ekkert fatalaus í þessari ferð þrátt fyrir vetrarkuldann í Eistlandi. Vinir okkar vissu, hvaðan okkur bar að garði og höfðu varann við, afhentu okkur strax við komuna á flugvellinum fulla poka af úlpum, húfum, peysum, síðum nærbuxum og vettlingum. Bara það besta er nógu gott, sögðu þeir. Í minn hlut kom síð kápa, afskaplega kvenleg með skinnkraga og mittisbelti. Mér fannst ég vera eins og drottning í ævintýralandi. Sjö dagar framundan. Ógleymanlegir dagar.
Það var til dæmis í þessari ferði, sem Jón Baldvin náði mér í aldri – loksins orðinn 85 ára eins og ég. Hundgamall, já, en samt eins og ungur maður, sem á alla framtíðina fyrir sér! Ég horfði á hann flytja ræðu í þinghúsi Eista á afmælisdegi sínum, þann 21. febrúar. Þarna stóð hann í nýjum svörtum jakka og í hvítri skyrtu, sem við Kolfinna höfðum látið sauma á hann hér í þorpinu í tilefni dagsins. Hann notar ekki gleraugu þrátt fyrir öll þessi ár, ótrúlegt en satt. Hann les ekki ræður sínar, en hann flytur mál sitt, sem er honum svo hugleikið, að hann þarf engan skrifaðan texta. Þarna sátu þingmenn á öllum aldri, karlar og konur , sem voru ekki einu sinni fædd á þeim örlagatímum, sem mál hans snýst um. Hann var að lýsa vofveiglegum atburðum, sem áttu sér stað fyrir þrjátíu og þremur árum – og hann var þátttakandi í. Í nútímanum veit enginn, hvað framtíðin ber í skauti sér, hver er næstur?
Nokkrum dögum seinna var okkur boðið í dagsferð til NARVA, þaðan sem maður horfir yfir til Rússlands, sem er bara hinum megin við ána. Það fór um mig kvíðahrollur, nærveran var ógnvekjandi.
Á þessu ári eru 70 ár síðan ég sá Jón Baldvin í fyrsta sinn. Það var í landsprófsbekk í Gaggó Vest við Öldugötu. Ég hafði aldrei séð svona strák áður, satt að segja. Hann var með mikið ljóst hár og ótrúlega blá augu. Sjálf átti ég sex yngri systkini, og þau voru öll með dökkt hár og brún augu. Ég var sem heilluð, og ég man, að ég hlakkaði til að fara í skólann á hverjum degi – bara að finna nálægð hans og skotra til hans augunum öðru hverju. Annað var það ekki, og það liðu mörg ár – öll menntaskólaárin.
Mig langar líka til að segja ykkur, að ég er enn sem heilluð af þessum manni. Ég hlakka til að vakna með honum að morgni nýs dags, finna fyrir nálægð hans og skotra til hans augunum öðru hverju.
Og ég bið ykkur, vini mína á facebook: Ekki trúa lygasögum um okkur Jón Baldvin. Við eigum það ekki skilið. Við höfum verið trú hvort öðru í meira en sextíu ár og höfum ekkert að fela. Okkur þykir vænt um fólk, en við elskum hvort annað.