Um illskuna

Eftir Bryndísi Schram

Eins og þið getið kannski ímyndað ykkur, þá er ég stöðugt að velta fyrir mér þessum undarlega atburði á þakinu okkar í Salobrena um miðjan júní árið 2018 – fyrir fimm árum, hugsið ykkur! Það var aðeins nokkrum vikum, áður en ég fagnaði! áttatíu ára afmæli mínu meðal vina hinum megin á hnettinum.

En það er önnur saga.

Laufey, gömul vinkona frá Ísafirði – að vísu miklu yngri ég – var í heimsókn þessa helgi ásamt dætrum sínum tveimur, sem ég að vísu þekkti eiginlega ekkert. Sú eldri var eitthvað á fertugsaldri – Carmen, en sú yngri, Emilíana,  þrettán eða fjórtán ára. Áttu sinn hvorn föðurinn og aldar upp af móður sinni. Þær búa allar núna í Torrevieja, sem er þorp í norðausturhluta Spánar – í fimm hundruð kílómetra fjarlægð frá þorpinu okkar.

Ég á mörg falleg bréf frá Laufeyju. Til dæmis skrifaði hún eftirfarandi orð þann 1. Janúar þetta sama ár, 2018:

„Kæra Bryndís. það gaf mér mikinn lífsstyrk að fá að kynnast ykkur sem unglingur. Fá að eiga ykkur í huga og hjarta var svo sannarlega gott að hafa í farteskinu, þegar lagt var af stað frá litla þorpinu, Ísafirði – út í heim. Ég gat því borið höfuið hátt og verið stolt, því að innst inni vissi ég, að ykkur þætti vænt um mig.“

Þetta fallega bréf lýsir þakklátum huga og endurspeglaðist svo í orðum hennar, þegar við sátum tvær saman í sófanum í júní sama ár, kvöldið sem þær birtust allar þrjár mæðgurnar. Við ætluðum að eyða saman helginni – eða ég vissi ekki annað!

———————————————————–

Þegar Aldís dóttir okkar kærði föður sinn árið 2011 fyrir kynferðslega áreitni frá barnsaldri, þá stóð Laufey með henni í fyrstu, man ég, en svo snerist henni hugur af einhverjum ástæðum. Þá skrifað hún okkur líka bréf:

„Kæru hjón. Komið þið sæl, nú er ég búin að lesa yfir þessi bréf (þ.e.a.s. bréf Aldísar til Marcos, barnsföður Snæfríðar, systur Aldísar, um kynferðislega áreitni föður við dætur og dótturdóttur), og mig langar til að benda ykkur á, að Aldís er fyrst og fremst að reyna að grafa undan ykkar sambandi, þ.e.a.s. ást og trúnaði, ásamt mannorði. Það þarf ekkert að spyrja hana að því, hvort hún hafi skrifað þetta béf, það er augljóst!!! Mitt mat er þetta; ekki hafa neitt samband við hana, því að það hvetur hana bara áfram á þessari leið. Reynið frekar á útskýra fyrir þeim aðilum, sem fengu þetta bréf, að hún sé mjög veik og haldin miklum ranghugmyndum. Þetta er svo sorglega ljót og grimm aðför að ykkur, að þið eigið engan annan kost en að standa þétt saman og berjast af hörku. Með innilegum samúðarkveðjum – Laufey Ósk”

Á milli þessara tveggja bréfa líða sjö ár. Ég varðveiti fleiri bréf frá Laufeyju, sem lýsa gagnkvæmu trausti og vinarhug. Ég vissi, að hún átti erfitt, heilsan brast, og mig langaði til að verða henni að liði. Ég tók vel í það að hjálpa henni við að skrifa ævisögu sína, lesa handrit og leiðrétta ef með þurfti. En ég geri ráð fyrir, að veikindin hafi slökkt á þeirri hugmynd.

En nú var hún komin, og ég ætlaði að halda veislu. Mér þótti verulega vænt um þessa stelpu, og kvöldið sem þær mæðgur birtust, sátum við tvær og spjölluðum fram á nótt. Rifjuðum upp gamla daga á Ísafirði, þegar við vorum báðar ungar og óreyndar – hún bara barn, sem laðaðist að mér, alveg óvart. Og enn talaði hún um það – eins og í bréfinu forðum – hvað það hefði verið dásamlegt að kynnast okkur og eiga okkur alltaf að – „því að innst inni vissi ég, að ykkur þætti vænt um mig“.

Hún talaði líka opinskátt um heilsubrest sinn eftir fæðingu yngri dótturinnar, og hversu miklar þjáningar hún upplifði dag hvern. Hún væri á mjög sterkum lyfjum, mætti alls ekki neyta sterkra drykkja – þá væri voðinn vís.

Mér hefði kannski verið nær að hafa þetta í huga daginn eftir, þegar við sátum öll í sigurvímu undir risasjónvarpsskermi á þorpstorginu. Hannes Þór hafði slegið í gegn með því að verja vítaskot frá Messi sjálfum. Þar var auðvitað múgur og margmenni – þ.e.a.s. allir þorpsbúar, sem eru ekki svo ýkja margir – en allt í einu var Ísland á allra vörum.

Ég var svo sem ekkert að fylgjast með því, hvort þær mæðgur væru að drekka, og ég vissi það ekki fyrr en seinna, að þær hefðu báðar drukkið „gin og tonic“, sem þótti mjög sérstakt í litla þorpinu, hvað þá í hádeginu. Þeir höfðu aldrei séð svona hraustar konur áður, sögðu kallarnir!

Eftir leikinn fórum við svo heim til að halda veislu! Við ætluðum að fagna góðum gestum.

Svona eftir á að hyggja finnst mér, að það hafi verið eitthvað óeðlilegt og óþægilegt við þessa veislu og þessa stuttu dvöl  þeirra mæðgna. Þær komu þrjár í heimsókn, móðir og tvær dætur. Sú yngri hvarf samstundis með hundinn inn í herbergi, sem henni var ætlað, og sást eiginlega ekkert eftir það. Hún fór ekki einu sinni með okkur að horfa á leikinn á torginu daginn efir. Og síðdegis, þegar við ætluðum að setjast að borðum, þá mætti hún ekki: „Við keyptum handa henni pitsu, og hún er búin að borða“ var það svar sem ég fékk – og hugleiddi það ekkert frekar. Eftir það sá ég hana ekki nema í gegnum bílrúðu á stæði fyrir utan húsið okkar. Svo var hún farin – veifaði ekki einu sinni.

Var þessi fjarvera yngri dótturinnar af ásettu ráðu? Var henni ekki treystandi? Gæti hún hafa talað af sér, eða hugsanlega vitnað gegn hálfsystur sinni?

Nema hvað – það er annað sem angrar mig núna, fimm árum seinna. Eitthvað sem ég hef aldrei hugleitt áður – og verður mér þó oft hugsað til fósturdóttur minnar, sem áður var, Laufeyju og hennar óhamingju. –

———————————

Mér hefur að vísu aldrei verið strokið um rass af ókunnum manni. En hvernig hefði ég brugðist við, ef það hefði einhvern tíma gerst?

Hefði ég látið eins og ekkert væri – lagt frá mér matföng, eins og ég hafði verið beðin um, gengið að sæti mínu og sest – jafnvel brosandi?

Hefði ég síðan hlustað á stutta ræðu húsfreyju, sem fór fögrum orðum um gleðina á góðum degi, og hefði ég að lokum skálað í göfugu víni, sem gestgjafi hafði hellt í glas mitt skömmu áður? Er það hugsanlegt? Eða er það mögulegt? Konur spyrji sjálfar sig.

Þarna fékk hún sér sæti, sallaróleg, að því er virtist, eins og allir væru góðir vinir.Við vorum varla sest, þegar móðir hennar, Laufey, öskrar upp við eyrað á mér: „Ég hef heyrt svo“ljótar sögur af þér , Jón Baldvin. Nú skalt þú biðjast afsökunar á því að hafa káfað á dóttur minni“ Ég man ekki, hvað hún sagði meira, en hún hélt áfram að ryðja út úr sér óhroðanum – svo að það var ég sem væri í „áfalli“.

Þá loksins stendur dóttirin Carmen upp – ekki lengur brosandi., heldur bálreið. Ekki út í hinn svokallaða „rassstrokumann“, heldur út í móður sína (sem hafði greinilega algerlega klúðrað ætlunarverkinu – verið allt of fljót á sér)

„Ég get alveg talað fyrir mig sjálf, mamma“ öskrar hún og lætur sig hverfa niður tröppurnar. Farin, Við sáum hana ekki aftur, fyrr en hún stóð við bílinn, ferðbúin nokkrum mínútum seinna. Það var greinilegt, að þær höfðu aldrei hugsað sér að stoppa lengur, höfðu aldrei tekið upp úr töskunum – ætlunarverki lokið – en það hafði mistekist.

——————————————

Samkvæmt leiðbeiningabók Stígamóta eiga fórnarlömb kynferðisofbeldis að hringja í einhvern sem þær treysta og tilkynna um glæpinn. Þetta vissi Carmen (var reyndar talskona MeToo) og hringdi í Daníel Ágúst Haraldsson, kenndan við „Nýdönsk“ , en hann er fyrrverandi sambýlismaður hennar. Sú sambúð endaði ekki vel, enda segir Laufey við mig í bréfi til mín, skrifað 13.1.2017: „Ég er svo fegin, að þetta ofbeldisfulla samband með tilheyrandi alkóhólisma er að baki“. Svo mörg voru þau orð.

Bæði Daníel Ágúst og Sturla, sem þær gistu hjá næstu nótt eftir þetta, fullyrða, að þær hafi allar verið í áfalli. Er það nema von? –Ég bara spyr. Aka ofurölvi eftir hraðbrautum Andalúsíu til Torremolinos, sem er í meira en hundrað kílómetra fjarlægð frá Salobrena. Það er enginn leikur, auk þess sem þær hafa verið örþreyttar, bæði með samviskubit og timburmenn.

Eftir þær skammir sem þær fengu frá manninum mínum vorum við öll í áfalli. Ég hafði aldrei upplifað manninn minn svona reiðan áður – enda hef ég aldrei hitt nokkra manneskju, sem hefði haft ástæðu til að koma fram við hann af slíkri ósvífni, ruddaskap og með svo ógeðslegu orðbragði.

Við eigum langan starfsferil að baki, og við höfum haldið margar veislurnar um ævina, bæði hér heima og erlendis. Aldrei hefur borið skugga á, og við höfum aldrei verið borin sökum um kynferðisafbrot eða annan dónaskap við fólk, sem við höfum umgengist.

En núna, um það leyti sem við erum að kveðja þennan heim, þá skyndilega er líf okkar dregið niður í svaðið með illu umtali og mannskemmandi hatri. Við erum niðurlægð og lítisvirt.

Dómurinn fellur á morgun – ég ég kvíði niðurstöðunni.