Um hvað er þetta eiginlega? Háðsádeila – já, á síbylju rétttrúnaðarins, sem dynur á vitum okkar viðstöðulaust, daginn út og inn, ár eftir ár, á miðlunum og netinu. Án umhugsunar utan við gagnrýna hugsun. Þetta snýst allt um kyn. Kyngervi, kynvitund, kynskipti og annað kynlegt. En það er ekki allt sem sýnist bak við Blæ-vanginn. Hans Blær er hvorki hann né hún – eða er hann kannski bæði og? Úr þessu gervi getur hán – eins og það heitir – haft allt að háði og spotti. Bókstaflega allt. Meira að segja Me-too-hreyfinguna líka. Herskarar kvenna „stíga fram“ í hundrað þúsund fréttatímum og bera vitni sem brotaþolar og fórnarlömb karlkynsins. Þetta er svo yfirþyrmandi, að það sækir að manni efi um, að samskipti kynjanna geti nokkurn tíma orðið með eðlilegum hætti hér eftir.
FRÆGÐARFRÍKIÐ OG HIÐ FORBOÐNA
Bryndís Schram skrifar um leikhús:
HANS BLÆR eftir Eirík Örn Norðdahl
Leikhópurinn Óskabörn ógæfunnar í Tjarnarbíói, miðvikudaginn 11. Apríl, 2018
Leikstjóri: Vignir Rafn Valþórsson
Leikmynd, búningar og gervi: Brynja Björnsdóttir
Hljóð: Áslákur Ingvarsson
Lýsing: Arnþór Þórsteinsson og Kjartan Darri Kristjánsson
Vídeó: Roland Hamilton
Búningar: Enóla Ríkey
Guðssending: Sveinn Óskar Ásbjörnsson
Leikarar: Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Jörundur Ragnarsson, Sara Marti Guðmundsdóttir, Kjartan Darri Kjartansson
Eiríkur Örn Norðdahl er sér á parti. Engum líkur. Hann hefur sýnt það í fyrri verkum sínum – jafnt í sögum sem ljóðum – að hann þorir, þegar aðrir þegja. Hann skirrist einskis, hlífir engu. Afhjúpar og ögrar með stæl. Ef þér er auðveldlega ofboðið, er kannski best að halda sig fjarri. Höfundinum er nefnilega ekkert heilagt. Venjuviska og vanahugsun eru fyrstu fórnarlömb háðfuglsins. Ef það er í lagi þín vegna, þá skaltu láta slag standa og hlusta á það sem frægðarfríkið (nýyrði fyrir „media celebrity“) Hans Blær, hefur að segja við áhorfendur í Tjarnarbíói. Þetta er ósvikin skemmtun.