Með kveðju til Menntaskólans a Ísafirði

Þann 6. október voru liðin 50 ár – hálf öld – frá því að Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður. Fyrsti skólameistarinn var Jón Baldvin Hannibalsson, eiginmaður minn. Þetta haust fyrir 50 árum höfðum við verið lengi fjarri hvort öðru – hann fyrir vestan að undirbúa skólastarfið, og ég ólétt fyrir sunnan að lesa undir BA-próf í HÍ. Ég ætlaði að tryggja, að ég gæti að minnsta kosti orðið að einhverju gagni þarna úti á hjara veraldar. Hann sagði mér sigri hrósandi frá því eitt kvöldið í símann, að hans fyrsta verk hefði verið að kaupa skúringafötu og handy-andy, svo að allt yrði hreint og fínt í gamla barnaskólahúsinu, þegar fyrstu nemendur streymdu að. Þar átti að kenna fyrst um sinn. Ég held meira að segja, að hann hafi skúrað sjálfur, því að enn vantaði bæði ræstitækna og kennara. En hann var alsæll, aftur kominn á sínar heimaslóðir, og allt hafðist þetta að lokum. Ég sá mest eftir því að geta ekki verið viðstödd skólasetningu – en þar sem yngsta dóttir mín, hún Kolfinna, kaus að koma í heiminn í framhaldi af skólasetningu – átti ég ekki heimangengt. Ég var því víðs fjarri, og það leið heil vika, áður en ég komst vestur með börnin í farangrinum  –  og mömmu, mér til halds og trausts.

Lesa meira

Ógleymanleg veisla

Var það ekki Kiljan sem sagði, að fegursta bókarheiti á íslensku væri: „Frá Djúpi og Ströndum“? Þetta rifjaðist upp fyrir mér um seinustu helgi, þegar við leituðum aftur á fornar slóðir. Við, þ.e.a.s. við Kolfinna, Jón Baldvin og bróðursonur hans, Ari – og Urður Ólafsdóttir vinkona okkar.

Og fornar slóðir? Jú – Jón Baldvin sem segist vera fæddur í Alþýðuhúsinu á Ísafirði, var vistaður í sveit hjá móðurbróður sínum, Hafliða í Ögri, fram undir fermingu. Móðurfrændur hans kenna sig við Strandsel, þar sem fyrsti formaður Alþýðuflokks og forseti ASÍ, Jón Baldvinsson, var fæddur. Hannibal faðir hans, er hins vegar ættaður af Norðurströndum en fæddur í Arnardal við Skutulsfjörð. Sumir segja, að Jón Baldvin sé seinasti maðurinn sem enn talar vestfirsku. Þetta er að vísu ekki rétt, því að ég heyri ekki betur en að Kolfinna, dóttir okkar, tali líka óforbetranlega vestfirsku; hún ólst reyndar upp á Ísafirði og er upp á dag jafnaldri Menntaskólans á Ísafirði.

Lesa meira

Smá leikþáttur úr kommentakerfi fésbókar undanfarna daga:

Anna:
Bókin hennar Bryndísar er alveg yndisleg. Ég grét og ég hló, og ég var alveg lömuð af spenningi. Ég ætla að lesa hana aftur. Hvernig stendur á því að Egill Hallgrímsson hefur ekki ennþá boðið henni í Kiljuna? Gæti það verið af ótta við þessa öfgafemínista?

Egill Hallgrímsson:
Komdu sæl, Ingunn. Nafnið hér fyrir ofan hefur misritast. Það er annar Egill, – Egill Helgason – sem getur boðið henni í Kiljuna. Ég er á öðrum vettvangi. En ég hef áhuga á allri umræðu og öllu því sem mannlegt er, þannig að ég væri vís með að verða mér úti um þessa bók og lesa hana eftir að hafa lesið meðmæli þín með henni.

Anna:
Minn kæri Egill Hallgrímsson,
þarna hefur þú misskilið eitthvað. Auðvitað hefðir þú getað boðið Bryndísi í Kiljuna, ef viljinn hefði verið fyrir hendi. Ég get ekki tekið svona innantómar afsakanir alvarlega.

Lesa meira

Brosað gegnum tárin

BROSAÐ GEGNUM TÁRIN er bók um ástina og hamingjuna og um sorgina og harmleikinn. Ævisaga heitra tilfinninga og dramatískra viðburða. Bók sem enginn leggur frá sér – ósnortinn.

BRYNDÍS var ung að árum þjóðkunn sem ballerína, leikkona og fegurðardrottning. Lífshlaup hennar er ævintýri líkast: kennari og skólameistari, blaðamaður og ritstjóri og  fjöltyngd málamanneskja og leiðsögumaður,  þýðandi og höfundur nokkurra bóka, dagskrárgerðarkona og sjónvarpsstjarna. Stjórnandi Kvikmyndasjóðs og – með hennar eigin orðum – ólaunuð eldabuska í þjónustu ríkisins, m.ö.o. sendiherrafrú.

Frá æskuárum hefur hún verið í órofa bandalagi við mesta ástríðupólitíkus landsins. Saman hafa þau unnið stóra sigra á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Samt hefur hún sjaldan setið á friðarstóli. Hvað eftir annað var hún hrakin úr starfi út af pólitík. Óvægin fjölmiðlagagnrýni – eða voru það pólitískar ofsóknir? – rötuðu jafnvel inn í réttarsali.

Lesa meira

Ríki óttans

Ég átti mér einskis ills von þennan fagra föstudagsmorgun. Sólhvítur himinninn rann saman við hafið bláa, sem bærðist varla í logninu. Við vorum að aka eftir N340, sem er gamla þjóðbrautin með sjónum á milli Malaga og Almeríu. Vegurinn ýmist hangir utan í snarbröttum klettaveggjum eða beygir inn í djúp gljúfur, þar sem jafnvel sólin sjálf nær ekki að skína í morgunsárið. Ég sat undir stýri. Við ætluðum á markaðinn í Almunécar.

Sem ég er að beygja burt undan sólinni og inn í eitt gljúfrið, stendur ekki groddalegur karlmaður, merktur Guardia Civil. Hann stendur við vegkantinn og gefur okkur merki um að nema staðar. – Satt að segja fæ ég alltaf smáhræðslukast, þegar spænska löggan er annars vegar. Og frá því var engin undantekning að þessu sinni, þó svo að ég væri bæði bláedrú, með beltið spennt og glænýtt ökustírteini í töskunni. Maðurinn var merktur Guardia Civil, nota bene – ekki Policia local (staðarlögregla). Þeir eru komnir aftur – falangistarnir – hin sauðtryggu handbendi ógnarstjórnarinnar, sem voru þekkt fyrir algert miskunnarleysi í samskiptum við saklaust fólk.

Lesa meira

Ríki Óttans

Ég átti mér einskis ills von þennan fagra föstudagsmorgun. Sólhvítur himinninn rann saman við hafið bláa, sem bærðist varla í logninu. Við vorum að aka eftir N340, sem er gamla þjóðbrautin með sjónum á milli Malaga og Almeríu. Vegurinn ýmist hangir utan í snarbröttum klettaveggjum eða beygir inn í djúp gljúfur, þar sem jafnvel sólin sjálf nær ekki að skína í morgunsárið. Ég sat undir stýri. Við ætluðum á markaðinn í Almunécar.

Sem ég er að beygja burt undan sólinni og inn í eitt gljúfrið, stendur ekki groddalegur karlmaður, merktur Guardia Civil. Hann stendur við vegkantinn og gefur okkur merki um að nema staðar. – Satt að segja fæ ég alltaf smáhræðslukast, þegar spænska löggan er annars vegar. Og frá því var engin undantekning að þessu sinni, þó svo að ég væri bæði bláedrú, með beltið spennt og glænýtt ökustírteini í töskunni. Maðurinn var merktur Guardia Civil, nota bene – ekki Policia local (staðarlögregla). Þeir eru komnir aftur – falangistarnir – hin sauðtryggu handbendi ógnarstjórnarinnar, sem voru þekkt fyrir algert miskunnarleysi í samskiptum við saklaust fólk.

Lesa meira

Dóra Jakobsdóttir Guðjohnsen, minning

Dóra kom óvænt inn í líf mitt, þegar ég var bara sextán og nýsloppin inn í MR – Lærða skólann í Reykjavík – feimin og hlédræg. Hún var hávaxin, grannholda, laus við allt tildur og full sjálfstrausts. Hún var satt að segja allt öðruvísi en flestar hinar stelpurnar í bekknum, bæði frumleg í hugsun, skemmtilega sérviskuleg og býsna fyndin þegar vel lá á henni. Og ekki skorti hana sjálfstraustið. Hún leyfði sér jafnvel að sproksetja kennarann, sem gerði því skóna að við værum bara komnar í MR sem biðsal hjónabandsins, í leit að hinum rétta – eða þá til að ná máli sem flugfreyjur í háloftunum!

Ég laðaðist ósjálfrátt að Dóru. Hún var gömul sál í ungum líkama, vitrari en við hinar, æðrulaus þegar eitthvað bjátaði á.

Lesa meira

Að gefnu tilefni

Tengdafaðir minn, Hannibal Valdimarsson, var einhver umdeildasti stjórnmálamaður Íslands, meðan hann lifði. Vestfirðingur í húð og hár, eins og flestir vita. Þegar ég var unglingur í Vesturbæ Reykjavíkur, sá ég oft myndir af honum í Morgunblaðinu. Þessum myndum fylgdi yfirleitt einhver skætingur og níð um persónu hans – en aldrei þó, að hann væri barnaníðingur, merkilegt nokk!

Ég man það ekki núna, hvort ég lagði einhvern trúnað á það sem ég las eða hvort það snerti mig yfirleitt nokkuð. Þó leyni ég því ekki, að mér stóð hálfgerður stuggur af honum, þegar við hittumst í fyrsta sinn. Danasleikja, landráðamaður, laumukommi, uppreisnarseggur, lýðskrumari, kvennabósi, lygari, óþverri – eflaust hafa öll þessi orð komið upp í huga mér. Ég hafði lesið þau í Blaðinu – blaði allra landsmanna – svo oft, svo oft.

Lesa meira

Árin okkar í Ameríku – fáein vel valin orð af gefnu tilefni.

Æran
félagi Orðrómur
félagi Orðrómur
margur hefur það heyrt
sem hefur verið fleygt að…
(Þröstur J. Karlsson í ljóðabókinni: Einn apaköttur sagði þá, afskaplega er gaman)

Í áranna rás höfum við Jón Baldvin vanist því að lesa um okkur – annað hvort eða bæði – allra handa óhróður, oftast nær nafnlaust. Mest af þessu flokkast undir pólitískt skítkast og fylgir starfslýsingu stjórnmálamannsins. Menn læra smám saman að taka því eins og hverju öðru hundsbiti. Stundum er þetta runnið undan rifjum fólks, sem á af einhverjum ástæðum bágt og finnur hjá sér þörf að kenna öðrum um eigin ófarir.

Það er hins vegar nýtt fyrir mér að sjá níðið klætt í viðhafnarbúning fræðimannsins, eins og reynt er að gera í nýlegri bók eftir Björn Jón Bragason. Þar eru gróusögurnar bornar á borð með vísan í ónafngreinda heimildamenn (sjá skrá yfir heimildamenn aftast í bókinni). Með öðrum orðum: rógberarnir þora ekki að standa við orð sín undir nafni. Einstaklingar, sem þannig koma fram gagnvart öðrum, dæma sig sjálfir. Þeir eru ekki svaraverðir. Samt neyðist maður til að leiðrétta gróusögurnar, svo að saklaust fólk glepjist ekki til að trúa þeim.

Lesa meira