Hátíðarræða flutt þann 9. júní, 2023 á 65 ára stúdentsafmæli skólasystkina úr Menntaskólanum í Reykjavík.
Kæru vinir og skólafélagar.
Þegar ég lít í öll þessi andlit, sem ég er búin að þekkja í meira en hálfa öld, minnist ég þeirra á kveðjustund árið 1958. Við vorum búin að setja upp stúdentshúfurnar og vorum að byrja nýtt líf – á leið út í heim. Eftirvæntingin skein út úr hverju andliti, líka tilhlökkun, forvitni, gleði – jafnvel kvíði. Og nú erum við hér samankomin 65 árum seinna. Og ég sé þessi sömu andlit. Yfir þeim er værðasvipur, jafnvel feginleiki, nú þegar þessi langa vegferð er að baki.
Úr þessu getum við engu breytt.
Áður en ég held áfram, langar mig til að nota tækifærið og færa einni konu sérstakar þakkir okkar allra fyrir að hafa stöðugt í öll þessi ár minnt okkur hverja á aðra (eða hvert á annað), haldið þessum sundurleita hópi saman – þannig að við misstum aldrei alveg sjónar hvert af öðru í amstri daganna. Allt er þetta henni Sigríði Dagbjartsdóttur að þakka. Þess vegna er þessi hátíð í kvöld. Hún hefði ekki orðið nema fyrir tilstuðlan Sigríðar. Og innilegar þakkir fyrir það, Sigríður, og fyrir höfðinglegar móttökur á þínu fallega heimili í dag.
Hafi einhver ykkar gert ráð fyrir því, að ég byði upp á fræðilega greiningu á stöðu og hlutverki skólans okkar í samfélaginu, eiga þau hin sömu eftir að verða fyrir vonbrigðum. Það bíður betri tíma. Kannski eitthvert okkar geri það bara á hundrað ára afmælinu?!
Lesa meira