Allir sem þekkja okkur Jón Baldvin, vinir og kunningjar, vita, að við erum hvorki ruddar né dónar. Við erum mannvinir, og umgöngumst fólk af virðingu og væntumþykju – kannski forvitni, en aldrei óþarfa ágengni. Hvað þá, ef við þekkjum fólk ekki neitt og höfum aldrei séð áður.
Þannig var það með hana Carmen, sem ég hafði aðeins hitt einu sinni eða tvisvar áður og þekkti lítið. Nú var hún komin í heimsókn til okkar í Salobreña í fylgd móður sinnar, Laufeyjar. Laufeyju hef ég hins vegar þekkt í mörg ár. Ég hafði náin samskipti við hana á árunum okkar á Ísafirði i den. Þá var hún vinkona elstu dóttur okkar, Aldísar.
Litla systir Carmenar var líka með í för, en hún hafði sig lítið í frammi, þessi elska, kannski bara feimin. Það var varla að við sæjum hana þennan eina sólarhring, sem þær mæðgur gistu hjá okkur – var hvorki með okkur á torginu um morguninn, né við borðhaldið á þakinu.
Af hverju? – spurði ég eftir á! Mátti hún kannski ekki vera viðstödd? Var henni ekki treystandi? Var það þess vegna, sem þær keyptu handa henni pitzu á leiðinni, sem hún var svo látin borða inni í herbergi, áður en við hin settumst að borðum? Mátti hún ekki verða vitni að því, sem síðan átti að gerast?
Var þetta allt planlagt, spyr ég eftir á. Dæturnar yrtu varla á okkur hjónin, voru þögular og létu sig hverfa inn í herbergi snemma kvölds. Ég vissi ekki fyrr en eftir á, að þær hefðu aldrei tekið upp úr töskum sínum – við öllu búnar – og að Carmen væri með handbók Metoo í töskunni og gerði það sem þar stóð – hringdi í f.v. sambýlismann, Daníel Ágúst, til þess að segjast (þykjast) vera í áfalli!
Við Laufey höfðum skrifast á í mörg ár, og það hafði lengi staðið til, að hún kæmi í heimsókn. Hún hefur verið búsett á Spáni í nokkur ár, í austurhlutanum, nærri Alicante. Þetta sumar átti ég stórafmæli og ætlaði að halda upp á það hjá vini okkar hinum megin á hnettinum, svo að nú var lag, áður en við legðum í ´ann. Hún spurði, hvort hundurinn væri líka velkominn. Já, því ekki, svaraði ég – enda kom á daginn, að hann var sá eini, sem sýndi okkur virðingu og kom fram við okkur af kurteisi þennan undarlega dag.
Við búum í ævagömlu Máraþorpi, þar sem þökin eru öll flöt. Heimamenn, sem eru yfirleitt á flótta undan brennheitri sólinni, nota þökin aðallega til þess að hengja upp þvott – eða hugsanlega til þess að þurrka tómata. Við notum okkar þak, þegar gesti ber að garði, og skýlum okkur fyrir sólinni með nokkrum laufléttum strámottum, sem mynda þak yfir þakinu.
Þaðan er útsýni til allra átta. Hafið bláa hafið framundan og Sierra Nevada, hæsta fjall Spánar, rís upp úr eyðimörkinni í nokkurra kílómetra fjarlægð. Skvaldrið af götunni, sem rennur saman við tragiskt ástarvæl Sígaunans í næsta húsi, berst upp til okkar, þar sem við sitjum með hlýja goluna í fangið.
Ég hafði lagt hvítan dúk á borðið og tekið fram mín bestu glös. Veisla framundan. Sjaldséðir gestir, Laufey og dætur hennar tvær (reyndar bara ein).
Við vöknuðum snemma þennan dag til að gera allt klárt fyrir veisluna, sem við ætluðum að halda síðdegis að hætti heimamanna. Að venju var það Jón Baldvin, sem sá um að krydda kjúklinginn – hann er snillingur í því, satt að segja! Síðan var kjúklingnum stungið inn í ofn í lokuðum potti á lágum hita. Þar átti hann að dúsa, þar til við snerum heim aftur.
Þar sem við erum ekki með sjónvarp, þá vorum við á leið út á þorpstorgið, sem er steinsnar frá húsinu okkar, til að fylgjast með löndum vorum á stórum skjá berjast við Argentínumenn í HM keppninni. Þar voru allir þorpskallar saman komnir að venju, enda laugardagur og löng helgi framundan. Stórum skermi hafði verið komið fyrir á torginu, svo að allir sáu, þegar Hannes Þór varði vítið frá Messi!
Allt í einu var svo gaman að vera Íslendingur!
Þegar við snerum heim eftir leikinn, fann ég strax af ilminum í eldhúsinu, að steikin væri tilbúin. Jón Baldvin fór í það að bera borðbúnað, diska og glös, upp á þak, þar sem gestirnir voru að dást að útsýninu. Hann átti síðan að hella hvítvíni í glös og vísa konunum til sætis. Allir áttu að vera sestir, þegar ég kæmi upp með fangið fullt.
Konurnar voru reyndar fjórar, því að ég hafði boðið íslenskri grannkonu okkar, sem hefur verið búsett í Salobreña árum saman, að snæða með okkur. Ég hélt, að hún hefði gaman af því að hitta landa sína.
Hún sagði mér reyndar eftir á, að Laufey hefði orðið mjög hvumsa við að sjá hana, eiginlega reið: „Hvað ert þú að gera hér?“ spurði hún hryssingslega. Vinkonu okkar þóttu þessi viðbrögð strax grunsamleg – og ekki góðs viti. Í stuttu samtali hafði Laufey m.a.s. sagt henni, að hún væri öryrki og á mjög sterkum lyfjum sem hún mætti alls ekki drekka ofan í.
Þennan morgun var barinn hins vegar opinn á torginu í tilefni leiksins, og ég sá, að gestum mínum var borinn hver drykkurinn á fætur öðrum, án þess þó, að ég hefði frekari áhyggjur af því.
Eftir á að hyggja skýrir það samt ýmislegt sem á eftir fór.
Nema hvað, nú var bara eftir að bera matinn upp á þakið. Allt í einu stóð Carmen við hlið mér í eldhúsinu og bauðst til að aðstoða mig. Hún hafði verið að sýsla eitthvað niðri í herbergi sínu. Ég gekk á eftir henni upp tröppurnar með kjúklinginn á stóru fati. Hún bar grjónin og salatið.
Hin þrjú voru sest. Jón Baldvin sat við endann á borðinu, næst okkur, þegar við komum upp tröppurnar. Við miðju borðs, sem er tveir metrar á lengd og einn og hálfur á breidd, (nóg rými fyrir átta manns), sátu Laufey og Hugrún hvor á móti annarri. Sæti húsfreyju var við hinn enda borðsins, beint á móti manni mínum. Carmen átti að sitja við hlið móður sinnar – sem hafði reyndar fært sinn stól nær mér við endann. (Ég veit ekki enn af hverju hún gerði það).
Carmen gekk á undan mér upp stigann. Ég stóð fyrir aftan hana (eiginlega alveg við rassinn á henni) og horfði á hana leggja grjónin og salatið frá sér á mitt borðið. Ég hefði ekki komist hjá því að sjá Jón Baldvin teygja hægri höndina í átt til hennar – og get þess vegna fullyrt, að ekkert slíkt gerðist. Síðan vék hún til hliðar og settist í sæti sitt. Þegar ég hafði lagt kjúklinginn á borðið fyrir framan húsbóndann, sem ætlaði að skammta á diska gestanna, gekk ég að hinum enda borðsins, glöð innra með mér. Allt var eins gott og það gat verið – maturinn kominn á borðið, sólin skein, og allir í góðu skapi – að ég hélt. „Verið hjartanlega velkomnar, elskulegu vinkonur. Það er svo ótrúlega gaman að hafa ykkur með okkur á þessum fallega degi. Verði ykkur að góðu, og njótið matarins“.
Þannig komst ég að orði við gesti mína, áður en ég settist.
Ég hafði ekki fyrr sleppt orðinu en Laufey æpir alveg upp í eyrað á mér: „Ég er búin að heyra svo margar ógeðslegar sögur um þig, Jón Baldvin. Og nú skalt þú biðja dóttur mína afsökunar, því að ég sá, að þú káfaðir á henni“!
Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Þetta var svo óvænt eftir allt sem á undan var gengið. Það fer enn um mig hrollur, þegar ég minnist þessara orða. Illska Laufeyjar kom mér svo á óvart – bæði heiftúðug og nístingsköld. Var þetta sama manneskjan sem hafði talað svo fallega til mín kvöldið áður – dásamað okkur hjónin bæði tvö?
Þá hafði þessi sama kona setið við hlið mér í sófanum og farið fögrum orðum um mig og manninn minn. Við værum stórkostlegar manneskjur, sem hefðu alltaf reynst henni svo vel, verið henni hlý og ráðagóð. (Og ég á mörg bréf frá henni því til staðfestingar).
Hvernig gat sama konan umhverfst svona?
Þá hafði hún líka trúað mér fyrir því, að hún væri alvarlega veik og gæti ekki lifað af án þess að taka inn lyf á degi hverjum. Hún mætti alls ekki drekka.
En þarna við matarborðið degi seinna horfði ég á allt aðra manneskju. Hvað hafði gerst? Orð hennar voru hatursfull, og ég sat sem lömuð.
„Mamma, ég get alveg séð um mig sjálf“ æpti Carmen, um leið og hún stóð upp og strunsaði niður tröppurnar. En móðir hennar hélt áfram að hella úr skálum reiði sinnar.
Ég var gersamlega ráðþrota.
…………………………
Ég tók eftir því, þegar ég renndi augum yfir lögregluskýrslur frá yfirheyrslum síðar, að Carmen segist þar hafa risið aftur úr sæti sínu til þess að skenkja fólki vín, og þá hafi húsbóndinn notað tækifærið til að „strjúka rass utan klæða“.
Þetta er ekki rétt.
Hún stóð ekki upp aftur til þess að skenkja vín, því að hún var farin – og kom ekki aftur, hvorki hún sjálf, móðir hennar né litla systir.
Ég man, að við snertum ekki matinn, sem við höfðum þó lagt svo mikla alúð við. Borðhaldið var í uppnámi, og innan skamms vorum við öll komin niður. Jón Baldvin var mjög reiður, ég algerlega miður mín – og grannkonan horfði á mig spurnaraugum, gapandi af undrun.
Hún hristi bara höfuðið.
Útidyrnar stóðu opnar, og ég sá systurnar tvær standa úti við bílinn, tilbúnar til brottfarar. Jafnvel hundurinn var kominn í aftursætið. Þær voru að bíða eftir mömmu. Það hvarflaði að mér á þessu augnabliki, að þær hefðu aldrei ætlað að vera lengur – erindinu væri lokið – en hafði mistekist!
Í millitíðinni hafði Jón Baldvin látið sig hverfa inn í svefnherbergið og lokað að sér. Laufey var enn óðamála og ruddist inn til hans, þar sem hún æpti ókvæðisorð að honum. Þegar hér var komið sögu, var Jóni Baldvini gersamlega misboðið. Hann var orðinn öskureiður og skipaði Laufeyju að snauta burt, hypja sig út. Hún hélt áfram að atyrða hann, um leið og hún greip farangur sinn og æddi út í átt að bílnum. Örfáum mínutum seinna voru þær horfnar.
Þær sneru ekki aftur.
Hugrún Auður, nágrannakona okkar og vinur, kvaddi með þeim orðum, „að ég væri allt of gestrisin og ætti að vanda betur valið á gestum mínum.“
Ég hafði hins vegar mestar áhyggjur af því, að þær færu sér að voða á hraðbrautunum, búnar að sitja heilan fótboltaleik á torginu fyrr um daginn, þar sem Laufey hafði – að sögn sjónarvotta – drukkið ótæpilega, þrátt fyrir – að eigin sögn – að mega ekki drekka ofan í lyfin sín.
Kannski það skýri að einhverju leyti þessa ótrúlegu – og satt að segja – óskiljanlegu framkomu.
Bæði Daníel Ágúst og Sturla, mennirnir sem þær mæðgur gistu hjá næstu nótt eftir þetta, fullyrða, að þær hafi verið í áfalli. Var það nema von? Að aka ofurölvi eftir hraðbrautum Andalúsíu til Torremolinos, sem er í meira en hundrað kílómetra fjarlægð frá Salobrena! Það er enginn leikur. Auk þess sem þær hafa verið örþreyttar, bæði með samviskubit og og timburmenn. Eftir þær skammir, sem þær fengu frá manninum mínum, vorum við öll í áfalli. Ég hafði aldrei upplifað manninn svona reiðan áður – enda hef ég aldrei hitt nokkra manneskju, sem hefði haft ástæðu til að koma fram við hann af slíkrí ósvifni, ruddaskap – og með svo ógeðslegu orðbragði.
Við eigum langan starfsferil að baki, og við höfum haldið margar veislurnar um ævina, bæði hér heima og erlendis. Aldrei hefur borið skugga á, og við höfum aldrei verið borin sökum kynferðisafbrot eða annan dónaskap við fólk, sem við höfum umgengist.
En núna um það leyti, sem við erum að kveðja þennan heim, þá skyndilega er líf okkar dregið niður í svaðið með illu umtali og mannskemmandi hatri. Við erum niðurlægð og lítilsvirt.
Dómurinn fellur á morgun – ég kvíði niðurstöðunni.
Eftirmáli:
Segjum sem svo, að Jón Baldvin hefði „strokið rass“ ókunnrar konu „utan klæða“, og ég hefði þurft að horfa upp á það með fangið fullt af mat. Þá er gersamlega útilokað, að ég hefði bara sest í sæti mitt eins og ekkert væri og boðið gesti velkomna með bros á vör.
Það er fullomlega óhugsandi.
Ég hefði tryllst – orðið hamslaus af reiði – niðurlægð og auðmýkt fyrir allra augum. Ég hefði kastað fatinu frá mér, jafnvel í smettið á manninum, og látið mig hverfa á svipstundu. Lokað að mér, jafnvel flutt út – og aldrei komið til baka.
En þetta hefði líka verið í fyrsta skipti, sem maðurinn minn hefði auðmýkt mig á þennan hátt fyrir allra augum. Ég hef aldrei þurft að horfa upp á það, að hann kæmi fram við ókunnar konur, eins og lýst er í kærunni, með káfi og rassstrokum. Enda væri ég ekki búin að vera gift honum í meira en sextíu ár, alltaf jafn hamingjusöm og þakklát forsjóninni, ef ég hefði mátt búa við slíka framkomu mannsins. Það er útilokað. Ég er ekki hin meðvirka eiginkona, eins og „metoo“ konur lýsa mér af mikilli fyrirlitningu – og ég „káfa ekki á kynfærum ungra manna“, eins og einhver þeirra orðaði sína lýsingu á mér.
Þessar konur, sem hafa misnotað nafn „metoo“ hreyfingarinnar árum saman, eru haldnar botnlausri kvenfyrirlitningu. Já, þær hata konur eins og mig – og lýsa mér sem hinni skaplausu, heimsku og flissandi eiginkonu. Slík kona er drusla, sem hvorki hefur tilfinningar né sál. Og upp í opið geðið á henni leyfist þeim að segja það, sem þeim sýnist og ljúga eins og þær lystir. Eins og það, að maðurinn minn hafi „strokið rass utanklæða“ að mér viðstaddri!
Mér býður við þessu öllu saman, því að í mínum huga er samband karls og konu fallegt, heilbrigt og heillandi.
Það er eitt af því, sem gerir lífið þess virði að lifa því.
Máttur rógsins.
(Ritað árið 2023)
Mér finnst einhvern veginn, að ég geti ekki sagt skilið við land mitt og þjóð án þess að reyna að gera hreint fyrir mínum dyrum – segja sannleikann.
Auðmýkingin, niðurlægingin er slík, að okkur er ekki vært hér lengur.
Ég trúði því staðfastlega, að réttlætið mundi sigra – að við byggjum við heilbrigt réttarkerfi.
En svo er ekki.
Skólabróðir minn og mikill vinur, Styrmir Gunnarsson, sagði einhvern tíma, að „Ísland væri ógeðslegt þjóðfélag“. Ég skildi ekki alveg þá, hvað hann var að fara.
En núna liggur það ljóst fyrir – og við erum sjálf fórnarlömb spillingarinnar.
————————————-
Innan nokkurra vikna eru liðin fimm ár frá því að skipulögð aðför að mannorði mínu og eiginmanns míns hófst á Íslandi. Það var sumarið sem ég varð áttræð, 2018. Þetta sama sumar vildi svo til, að fyrrverandi nemendur mínir í MÍ, vinkonur og samstarfsmenn, fóru að hringja í mig og vara mig við. Sögðu, að „MeToo“ konur væru að leita að „ljótum sögum“ um manninn minn. Ég gat ekki ímyndað mér, að til væru „ljótar sögur“ af manni mínum og tók ekki mikið mark á þessu.
En það var einmitt þetta sama sumar, sem Laufey Ósk, sem ég hafði þekkt frá því hún var barn á Ísafirði, notaði sömu orð, þegar ég bauð hana velkomna á heimili mitt í Andalúsíu, ásamt tveimur dætrum sínum. „Ég hef heyrt svo margar ljótar sögur um þig, Jón Baldvin“ – ég sá, að þú káfaðir á dóttur minni, og nú skaltu biðjast afsökunar“.
Og það voru fleiri sem höfðu safnað – að eigin sögn – „ljótum sögum“ af Jóni Baldvini. Einn af þeim var sjálfur almannatengill formanns Sjálfstæðisflokksins, maður að nafni Friðjón Friðjónsson. Allir skráðir félagar í Sjálfstæðisflokknum fengu í pósti þetta sama haust frásagnir Friðjóns af ósæmilegri hegðan Jóns Baldvins þau ár, sem við dvöldumst í Washington (frá 1998-2003).
Ég get aðeins svarað þessum ósvífna áróðri og lygum með því að vitna í The Washington Times (Oktober, 1999), sem segir um manninn minn: „Icelandic Ambassador, Jón Baldvin Hannibalsson, a man of wit and intelligence, has become a popular diplomat on Embassy Row“…..
Stærsta áfallið varð svo þann 11. janúar, 2019, tíu dögum áður en maðurinn minn ætlaði að halda upp á 80 ára afmæli sitt með útgáfu bókar og umræðum.
Þann dag fórnaði Stundin, blað allra landsmanna, tugum blaðsíðna í illa þefjandi rógssögur um Jón Baldvin og Bryndísi (þó að mitt hlutverk hafi aðallega falist í því að standa hjá og flissa, meðan maðurinn minn þuklaði brjóst kvenna). Þetta er einhver hræðilegasti dagur lífs mins – jafnvel vinir okkar voru skelfingu lostnir – og skíthræddir. Hver var næstur? Líf okkar beggja var í rúst, fortíðin forsmáð með ógeðslegum lygasögum kvenna um mig og minn mann. Ég kannaðist ekkert við þessar vesalings konur, utan nokkrar, sem höfðu mikið smjaðrað fyrir manni mínum á sinum yngri árum og hötuðu mig fyrst og fremst.
Þetta var hatursherferð, sem margir komu að og átti djúpar rætur í okkar samfélagi.
Og því spyr ég núna: Getur verið, að áhrifamáttur rógsagnanna hafi að lokum náð alla leið inn í réttarsalinn – og við goldið þess?
Flestar þessar sögur í Stundinni um manninn minn voru hundgamlar, og það dró úr áhrifamætti þeirra. Það var til dæmis of seint að höfða mál gegn geranda. Voru engar nýlegar sögur til?
Það voru mín mistök að bjóða Laufeyju að koma með þessa Carmen Josefu, dóttur sína í heimsókn þetta sumar. Ég hafði t.d. ekki hugmynd um, að hún væri talsmaður „MeToo“ hreyfingarinnar, að hún ferðaðist með handbók Stígamóta – og að hún væri komin til þess að finna höggstað á manninum mínum?
Eða var það svo?
Þegar við vorum sýknuð af Héraðsdómi haustið 2021, las ég af tilviljun eftirfarandi texta á fésbók nokkrum dögum seinna: „Veistu það, Bryndís, að þú ert versta eintak, sem til er af konu – og eiginlega verri en eiginmaður þinn! Kona sem horfir í hina áttina, á meðan eiginmaðurinn níðist á eigin niðjum og börnum annarra, þ.m.t. nemendum sínum á barnsaldri…… Reyndu að klóra í bakkann, gamla, þið eruð ekkert nema útbrunnið níðingspakk, og flestum er drullusama, nema þeim sem nú þurfa að líða fyrir illverk ykkar og lygar…..“
Undir þetta skrifar Carmen Josefa Jóhannsdóttir.
Þá voru liðin þrjú ár frá því hún kom í heimsókn til okkar í Andalúsíu ásamt móður sinni og litlu systur. Var hún þá þegar farin að leggja á mig slíkt hatur, sem birtist þarna í orðum hennar? Getur það verið?
„Ógeðslegt þjóðfélag“ sagði Styrmir.
Ég hafði aldrei verið í dómsal áður, aðeins horft á vitnaleiðslur í sjónvarpskvikmyndum og séð hvernig menn studdu hönd á bíblíuna og sóru við hana, að þeir segðu sannleikann – og ekkert nema sannleikann. Þegar ég sjálf mætti til yfirheyrslu í dómsal, sá ég enga bíblíu, en einhvers staðar var ég minnt á, að mér bæri að segja sannleikann, og „að refsivert væri að ljúga í vitnastúku“.
Það var líklega þess vegna, sem ég hafði biblíuna meðferðis, þegar ég var kölluð í annað sinn til að bera vitni í „rassstrokumálinu“ svokallaða. Og það var þess vegna, sem ég lagði hönd á hina helgu bók, þegar ég hafði lokið máli mínu og sór við nafn föður míns og móður, að ég hefði sagt sannleikann – og ekkert nema sannleikann – og horfði beint í augun á dómurunum þremur, sem sátu í hinum enda salarins og voru greinilega ekki að hlusta á það, sem ég var að segja.
Að vera „heppin með dómara“ var okkur sagt, að skipti mestu máli. Við vorum ekki heppin með dómara. Mál okkar fór tvisvar sinnum fyrir rétt. Í fyrra skiptið vorum við sýknuð (nóv. 2022). en í því síðara var maðurinn minn dæmdur skilorðsbundið í tveggja mánaða fangelsi og greiðslu sektar upp á nokkrar milljónir. Dómarinn með viðurnefnið „hinn grimmi“ er aðallega þekktur fyrir það að hafa aðeins tvisvar sinnum á sínum langa ferli sýknað sakborning.
Niðurlægingin fullkomnuð – lygarinn hafði betur.
(Ritað vorið 2023)
Ég er satt að segja búin að fá mig fullsadda af viðbjóðslegum lygasögum um manninn minn, Jón Baldvin Hannibalsson – alltaf ljótari og hatursfyllri með hverju árinu. Ég hef verið gift þessum manni í 64 ár og veit, hvern mann hann hefur að geyma. Sá maður á ekkert skylt við þá lýsingu, sem dregin er upp af honum af hatursfullu fólki á samfélagsmiðlum. Þess vegna geri ég orð dóttur okkar, Aldísar, að mínum, en hún sagði í viðtali einhvern tíma: “ ….má hann aldrei njóta sannmælis?“
Og áður en lengra er haldið, langar mig til að segja við ykkur, lesendur góðir, að ég hef heldur aldrei – ég endurtek, aldrei – heyrt manninn minn, tala af slíkri óvirðingu, heift og hatri um nokkra manneskju, eins og ég hef orðið vitni að í íslenskum fjölmiðlum um hann.
Og þegar jafnvel Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsir manninum mínum sem rándýri, sem situr um ungar stúlkur eins og villidýr um bráð, þá var mér allri lokið. Þessi orð lýsa botnlausu hatri og hefndarhug. Hvað hefur maðurinn gert á hennar hlut? Hann dró sig í hlé út úr íslenskri pólitík til þess að draumurinn um sameiningu jafnaðarmanna sem valkost við fjármálaöflin, gæti rætst. Hún er konan sem öðrum fremur ber ábyrgð á því, að draumurinn rættist ekki – að tilraunin mistókst. Og hefur síðan hlaupist frá allri ábyrgð á þeim óförum. Þar á hatrið sínar rætur. Þess vegna er þessi hefndarhugur. Íslensk pólitík getur að sönnu verið illvíg og óvægin. En er þetta ekki Íslandsmet í rætni?
Gott orðspor
Þegar Jón Baldvin kom heim frá námi með hagfræðipróf upp á vasann, 25 ára að aldri, fékk hann hvergi vinnu á því sviði, verandi sonur Hannibals, sem var trúlega rægðasti maður í íslensku samfélagi á þeim tíma – og sonurinn hlaut að gjalda þess. (Já, það virðist vera stutt í rógberann hjá sumum landa okkar.) Jón Baldvin gerðist þess vegna kennari í gagnfræðaskóla. Það fór fljótlega af honum gott orð, og hann naut mikilla vinsælda. Kenndi íslensku, ensku, sögu og hélt námskeið um íslenskt þjóðfélag, sem þá var nýmæli. Honum var falið það verkefni að kenna í kvennabekk á fjórða ári og tók þá upp nýjar kennsluaðferðir. Hann leyfði þessum ungu stúlkum að hafa með sér prjónles, á meðan hann messaði yfir þeim,. Sú ákvörðun féll í góðan jarðveg. Að þeirra eigin sögn, síðar meir, voru þessar stelpur víst sumar hverjar skotnar í honum og reyndu hvað þær gátu, að ganga í augun á kennaranum unga. Þetta var mér allt sagt seinna, þegar ég kynntist sumum þessara stelpna á vinnumarkaðnum.
Ég kynntist þó aldrei Þóru Hreinsdóttur, en ég þekkti listakonuna, móður hennar nokkuð vel, af því að hún var vinkona frænku minnar, sem líka var að norðan. Sú kona átti við alvarleg heilsuvandamál að stríða og gat af þeim sökum lítið sinnt dóttur sinni á unglings aldri. Gott ef það var ekki einmitt ég, sem bað Jón Baldvin um að líta sérstaklega til með þessari stúlku, sem væri hjálparþurfi. Móðir hennar hafði talað við mig einslega um það leyti, sem skólastarf hófst um haustið.
Mig óraði auðvitað ekki fyrir því, að sá vinargreiði yrði notaður gegn honum hálfri öld seinna.
Af manni mínum, Jóni Baldvini, fór svo gott orð sem kennara í Hagaskóla, að vorið 1970 var þriggja manna nefnd komin heim í stofu á Vesturgötunni til að freista þess að fá hann vestur á Ísafjörð til að taka að sér að stofna og stýra nýjum menntaskóla þar. Þetta sama haust vorum við flutt vestur með börn og buru. Er það nú hugsanlegt, að þessi virðulega nefnd úrvalsmanna að vestan hefði verið send suður þetta vor, ef það hefðu farið af honum „ljótar sögur“ um kynferðislegt ofbeldi gagnvart nemendum sínum í Hagaskóla? Útilokað. Jón Baldvin naut slíkra vinsældar meðal nemenda sinna, að landsprófsbekkur – gáfnaljósin – hótuðu að elta hann vestur á firði til að geta notið kennslu hans ögn lengur. Og tveir af öflugustu kennurum Hagaskóla slógust í för með okkur og kenndu nokkur ár við MÍ. Hvað segir það okkur?
Það hefur svo sem verið reynt að sverta níu ára dvöl okkar á Ísafirði líka með „ljótum sögum“. Seinasta vorið sem Jón Baldvin útskrifaði stúdenta átti hann, að sögn eins nemanda (kvenkyns), að hafa káfað á ungum stúlkum í sundlaug Bolungarvíkur. Seinna kom á daginn, að hann var hafður fyrir rangri sök. Sá sem káfaði, var ekki skólameistarinn, heldur ungur maður sem var stundakennari við skólann þennan vetur. Enda hefur Sighvatur Björgvinsson, f.v. þingmaður Vestfirðinga, ítrekað staðfest það við mig, að aldrei hafi hann heyrt „ljótar sögur“ af manni mínum fyrir vestan. Og bætti við: „Pólitískir andstæðingar hefðu áreiðanlega fært sér það í nyt, ef svo hefði verið.“
Ég man líka eftir því, að innvígður allaballi á Vesturgötuárum okkar, sagði við mig: „Maður verður að gera fleira en gott þykir í pólitíkinni, Bryndís mín“. Þá hafði hann látið það berast út, að Jón Baldvin væri“ drykkjusjúklingur á framfæri tengdaföður síns“. Já, fátæk, en hamingjusöm – og við skulduðum engum neitt.
Ég segi líka frá því í bók minni „Brosað gegnum tárin“, þegar ég fékk pabba til að aka mér alla leið upp í Breiðholt, þar sem ég ruddist inn á heimili iðnaðarmanns og húðskammaði hann fyrir að rakka niður manninn minn á matstað í miðbæ Reykjavíkur, þar sem Kolfinna, dóttir okkar, var að vinna og var áheyrandi að „Jón Baldvin væri óreiðumaður, sem skuldaði út um allan bæ og sviki öll loforð“. Ég var svo reið, og hann var svo hræddur við mig, að hann bað mig grátandi afsökunar og lofaði bót og betrun. „Aldrei framar, aldrei framar“, sagði hann bara! Ég var bókstaflega hamslaus af reiði.
Og svo get ég bætt því við, að konur hafa svo sem ekki látið manninn minn í friði heldur, svo ég vitni í bréf, sem Árni heitinn Gunnarsson, góður vinur, sendi okkur nokkru áður en hann kvadddi þennan heim. Þar segir á einum stað:
„Við sem höfum flækst með Jóni Baldvini á framboðsfundi, verið með í veislum og hvers konar samkomum, höfum oft orðið þess varir og séð, hvernig konur hafa leitað á hann og viljað eiga með honum góðar stundir. Þær hafa stundum orðið svo ágengar, að jafnvel gömlum kvennamönnum hefur blöskrað! Þær hafa ekki allar verið kátar, þegar hann hefur vikist undan eða ýtt þeim frá sér. Kannski orðið reiðar og fundist þær niðurlægðar, og viðbrögðin orðið með ýmsum hætti. Um þetta gætum við, nokkrir félagar, borið fyrir rétti.“
Jón Baldvin var formaður Alþýðuflokksins í tólf ár. Á þeim árum voru konur mjög öflugar í flokksstarfinu, sóttu fundi og létu verulega til sín taka. Aldrei hefur nein þessara kvenna stigið fram og kvartað undan kynferðislegri áreitni formannsins.
Að nærast á hatri
Þið takið kannski líka eftir því, að í allri þessari rógsherferð og lygum um JBH er mitt nafn sjaldan nefnt. Í augum hataranna er ég bara skaplaus „drusla“, sem stend til hliðar og læt mig engu skipta, þegar maðurinn minn er með kynferðislega áreitni við börn og ungar konur. Horfi bara á „sljóum augum, oftast fordrukkin, meðvirk og subbuleg“. Mér er sýnd alger fyrirlitning – eða hvernig lýst ykkur á þessa mannlýsingu á mér, sem er höfð eftir einu Metoo-vitninu?:„Hún er alveg eins og hann. Grípur utan um kinfæri (sic) ungra manna á filliríum“ (sic). Kona, sem bullar svona um aðra konu, sem hún þekkir ekki neitt, er augljóslega ekki þungt haldin af sómakennd. Samt telst hún vera stjörnuvitni hjá MeToo.Trúir einhver svona vitnisburði?
Sannleikurinn er nefnilega sá, að þessar konur, sem nú láta gamminn geysa og ata manninn auri, hata mig miklu meira en hann. Það er ég, sem er skotmark þeirra. Það er ég, sem þær þola ekki.
Rógur og níð – nútildags kallað hatursorðræða – vellur upp úr skolpræsum sorpmiðlanna út um allt. Hvað segir það okkur um sálarástand samfélagsins? Og hvað segir það okkur um réttarfarið í landinu okkar?
Ég leyfði mér að trúa því, að réttlætið myndi sigra í þessu svokallaða „rassstrokumáli“. Ég bar svo mikla virðingu fyrir réttarkerfinu, að ég trúði því, að sannleikurinn hlyti að skera úr um niðurstöðuna. Og þar að auki staðfestu ákærendur (Laufey og Carmen), að þær hefðu látið sig hverfa úr veislunni strax í upphafi, án þess að snerta mat né vín – og án þess að vera snertar.
Sem sagt, það var aldrei nein veisla. Þetta „seinna“ var aldrei. Það er bara skáldskapur – lygi – eitthvað sem þær mæðgur spunnu upp í örvæntingu sinni.
Og það merkilega er, að dómarinn í málinu trúði lyginni betur en sannleikanum. Og það jafnvel þótt þær mæðgur hafi orðið tvísaga og ekki munað, hverju þær ætluðu að ljúga. Að mati ákæruvaldsins (Hrafnhildar Gunnarsdóttur), er framburður brotaþola „skýr og stöðugur um meint brot….. að hún hefði staðið hægra megin við ákærða og hefði hann þá byrjað að strjúka ákaft upp og niður eftir rassi hennar“. Og ákæruvaldið bætir við: að „eiginkona og vinkona hafi líklega bara verið að spjalla og ekki tekið eftir neinu óvenjulegu“!!
Það er greinilegt, að í augum ákæruvaldsins, erum við hjónin, ég og Jón Baldvin, algert pakk – ruddar og dónar, sem kunna enga mannasiði, hvað þá í umgengni við konur. Og það er eiginlega það, sem ég svo erfitt með að sætta mig við – að við séum fyrirlitin af þessu samfélagi okkar og niðurlægð og auðmýkt að ósekju. Eða var það kannski einmitt ætlunarverk dómaranna? Þeir höfðu heyrt svo margar „ljótar sögur“, trúðu róginum og létu fordómana ráða – dæmdu okkur sek.
En við erum saklaus.
Eg lagði hönd á hina helgu bók og sór við nafn hennar og foreldra minna, að ég segði sannleikann – og ekkert nema sannleikann. En það dugði ekki til. Dómarinn var augljóslega fyrirfram staðráðinn í að dæma okkur sek – sama hvað við segðum.
„Ljótar sögur“ hafa augljóslega skilað árangri, og við áttum aldrei möguleika á að vera sýknuð.