Páskabækurnar 2023

Páskabækurnar 2023, að frátöldu sérhæfðu veðurefni, voru þrjár, Tæpitungulaust eftir Jón Baldvin Hannibalsson, Brosað gegnum tárin eftir Bryndísi Schram og Lög og landsmál eftir Arnar Þór Jónsson. Bók Bryndísar er lipur og skemmtileg frásögn af atburðum á lífsleiðinni, krydduð heimspekilegum vangaveltum. Það lætur Bryndísi vel að hafa marga bolta á lofti og hún ræður fullkomlega við að vera drottning og alþýðustúlka í senn. Ég held að Bryndís sé og verði eilíf.

Það verða karlarnir Jón Baldvin og Arnar Þór kannski líka. Þeir eru svo innihaldsríkir að maður þarf að taka sér hlé til meltingar eftir hvern kafla, því efnið er þess eðlis að það vakna sífellt upp nýjar spurningar. Þessir menn bera í sér aðdáunarverðan kraft sem er til fyrirmyndar og menn leggja við hlustir þegar þeir hefja upp raust sína. Arnar Þór er alvöru, Jón Baldvin er alvöru og Bryndís er alvöru. Ég mæli með þessum ritum.

Haraldur Ólafsson