DRAUMURINN HENNAR MÖMMU

Hátíðarræða flutt þann 9. júní, 2023 á 65 ára stúdentsafmæli skólasystkina úr Menntaskólanum í Reykjavík.

Kæru vinir og skólafélagar.

Þegar ég lít í öll þessi andlit, sem ég er búin að þekkja í meira en hálfa öld, minnist ég þeirra á kveðjustund árið 1958. Við vorum búin að setja upp stúdentshúfurnar og vorum að byrja nýtt líf – á leið út í heim. Eftirvæntingin skein út úr hverju andliti, líka tilhlökkun, forvitni, gleði –   jafnvel kvíði. Og nú erum við hér samankomin 65 árum seinna. Og ég sé þessi sömu andlit. Yfir þeim er værðasvipur,  jafnvel feginleiki, nú þegar þessi langa vegferð er að baki.

Úr þessu getum við engu breytt.

Áður en ég held áfram, langar mig til að nota tækifærið og færa einni konu sérstakar þakkir okkar allra fyrir að hafa stöðugt í öll þessi ár minnt okkur hverja á aðra (eða hvert á annað), haldið þessum sundurleita hópi saman – þannig að við misstum aldrei alveg sjónar hvert af öðru í amstri daganna. Allt er þetta henni Sigríði Dagbjartsdóttur að þakka. Þess vegna er þessi hátíð í kvöld. Hún hefði ekki orðið nema fyrir tilstuðlan Sigríðar. Og innilegar þakkir fyrir það, Sigríður,  og fyrir höfðinglegar móttökur á þínu fallega heimili í dag.

Hafi einhver ykkar gert ráð fyrir því, að ég byði upp á fræðilega greiningu á stöðu og hlutverki skólans okkar í samfélaginu, eiga þau hin sömu eftir að verða fyrir vonbrigðum. Það bíður betri tíma. Kannski eitthvert okkar geri það bara á hundrað ára afmælinu?!

Í staðinn ætla ég að deila með ykkur persónulegum minningum mínum – og vona um leið, að þær veki upp ykkar eigin.

Menntaskólinn í Reykjavík

  Af hverju fór ég í menntaskóla? Það var mér alls ekki efst í huga á þessum árum. Ég ætlaði að verða dansari – ballerína. Var 15 ára komin á launaskrá hjá Þjóðleikhúsinu og sá mína framtíð þar.

Ég er af alþýðufólki komin. Foreldrar mínir fóru hvorugt í menntaskóla – og það er leitun að svo kölluðum menntamönnum í minni ætt. Föðurafi minn, Ellert, var munaðarlaus frá fæðingu –  alinn upp af ókunnugum. Samt fór hann í stýrimannaskólann og varð skútuskipstjóri í hálfa öld. Hann sigldi með „baccalau islandia“ til Miðjarðarhafslanda í nokkra áratugi. Kannski hann hafi jafnvel kunnað að blóta upp á ítölsku?

Móðurafi minn, Brynjólfur, var fátækur bóndasonur undir Eyjafjöllum. Hann og amma hokruðu nokkur ár í sveitinni, en þegar börnunum fjölgaði fluttu þau til Reykjavíkur í von um betra líf. Afi stundaði sjómennsku, þegar færi gafst, og verkamannavinnu, sem var stopul. Oft var enga vinnu að fá. Þá var gott að geta lagt traust sitt á synina þrjá, sem voru enn í heimahúsum og tveir þeirra þegar komnir á sjóinn – Óli og Maddi.

Móðir mín var yngst í hópi níu systkina. Hún var eftirlæti bræðra sinna. Það voru þeir, sem sendu hana í skóla Kaþólsku kirkjunnar, þar sem kennslan fór fram á dönsku og mikið var lagt upp úr stærðfræði –   sem lá einkar vel fyrir mömmu. Þeir voru þá þegar farnir að hugsa til framtíðar litlu systurEflaust hafa þeir haft Menntaskólann í Reykjavík í huga – og kannski talað um hann í hennar áheyrn. Aldís skyldi fá allt það besta, og hún var strax farin að hlakka til – átta ára barnið. Menntaskólinn í Reykjavík fór aldrei úr huga hennar.

Mamma í hópi vinkvenna sinna í Brauns verslun. Hún er þessi með brúnu augun og háu kinnbeinin, lengst til vinstri fremri röð.

Hann var draumurinn hennar mömmu, sem brást – en rættist svo loksins í mér. Og það skýrir ýmislegt í mínu tilfelli.

 Bræður hennar tveir, Óli og Maddi, fórust með Leifi heppna í Halaveðrinu mikla í mars 1925. Þar með breyttist líf mömmu. Þá var hún átta ára. Fjölskyldan varð aldrei söm eftir þann mikla harmleik. Í staðinn fyrir að halda áfram námi, þegar skyldu lauk, fór mamma að vinna –  vinna fyrir fjölskyldunni.

Og hún neyddist til að gefa drauminn um menntaskólanám upp á bátinn.

Það var auglýst eftir afgreiðslustúlkum í Braun´s verslun í Austurstræti. 300 sóttu um, þrjár fengu – mamma var ein af þeim. Og það var yfir búðarborðið í Brauns verslun,sem hún sá pabba, og þar með var hennar framtíð ráðin. – Draumurinn um Menntaskólann í Reykjavík varð bara að bíða  –  bíða eftir mér.

Sem krakki hafði ég  oft ekið framhjá Menntaskólanum við Lækjargötu með mömmu. Og ég skynjaði þá strax, hvað þetta stórfenglega hús, einfalt og stílhreint,  á besta stað í bænum, skipti móður mína miklu máli. Í augnaráði hennar endurspeglaðist virðing og söknuður einhvers, sem aldrei varð. Það lá við, að hún færi að gráta. Hún hægði alltaf á sér.

Þarna hafði blómi íslenskra menntamanna gengið um dyr öldum saman. Við horfðum saman upp að glæsilegri forhlið hússins og biðum þess, að breiðar dyrnar opnuðust og unga fólkið streymdi út. Hún lýsti því stundum fyrir mér, hvernig bæjarbúar hefðu hópast saman á vetrarkvöldum til þess að dást að ungu menntafólki leiðast upp gangstéttina – prúðbúið og glæsilegt á leið á dansleik í skólahúsinu. Seiðandi tónar hefðu borist um allt hverfið.

Já, mamma hafði átt sér draum. Og nú skyldi draumur hennar rætast í mér.

Það var eitthvað á þessum nótum,  sem ég var að hugsa, þegar ég  gekk upp þessa sömu gangstétt fyrsta daginn minn í skólanum haustið 1954. Lotning mín var upptendruð. Allt svo ótrúlega spennandi og framandi. Ég bæði hlakkaði til og kveið fyrir. Ég ætlaði að leggja mig alla fram. Mamma mundi verða stolt af mér – sem var náttúrlega aðalatriðið – allt fyrir mömmu.

Pálmi Hannesson, rektor, tók á móti okkur í anddyrinu. Hann var með snjóhvítt hár og hafði vingjarnlegan augnsvip. Leiddi okkur til stofu. Ég man, að gólfin voru gömul og slitin.Það brakaði í þeim, þegar við gengum inn dimman ganginn. Stofan okkar þetta fyrsta ár var að norðanverðu á neðstu hæð. Sólin náði aldrei að skína þangað inn.

Ég átti engar nánar vinkonur á þessum árum. Kannski var ég einfari.Ég hugsaði aldrei út í það.  Tók dansnámið alvarlega. Á hverjum degi eftir skóla hljóp ég upp í Þjóðleikhús og dansaði fram á kvöld. Leikhúsið var mín töfraveröld – þar var ég með hugann allan. Ekkert jafnaðist á við lífið í leikhúsinu.Ég var sem heilluð.

Af hverju var ég þá komin í menntaskóla? Var það bara fyrir mömmu? Svo að draumurinn hennar gæti loksins ræst?

Eiginlega var það bara mamma, sem tók nám mitt við Menntaskólann í Reykjavík alvarlega. Hún beið með matinn, þegar ég kom heim síðdegis, og tók strax við að glósa dönsku, ensku, þýsku og frönsku. (Latínuna lét hún að vísu eiga sig. Það var mitt eftirlætisfag, og ég sinnti henni sjálf). Svo sökkti hún sér niður í algebruna og rúmfræðina. Vá, hvað hún hafði gaman af þessu  – hún iðaði í skinninu og komst í ham, varð aftur eins og skólastelpa – loksins komin í MR – eftir langa bið.

Það voru bara stelpur í mínum bekk.

Á næsta ári vorum við komnar upp á loft, og þar var allt miklu bjartara og vinalegra. Á þessum árum voru ennþá leyfðar samkomur í hinum virðulega hátíðarsal skólans. Þar var bæði dansað og sungið, hlegið og rifist. Samt minnist ég þess ekki, að ég hafi nokkru sinni séð vín á nokkrum manni, eða hvað þá, að einhver reykti innan veggja skólans. Við Púlli (er hann ekki hér í kvöld?) náðum því hins vegar að hneyksla bæði kennara og rektor, þegar við sýndum Rock´n Role  í fyrsta sinn á Íslandi í sjálfum þjóðfundarsalnum Ég á enn í fórum mínum mynd af rektor, þar sem hann situr gneipur á fremsta bekk og er sýnilega misboðið.

Flestar héldum við stelpurnar hópinn og settum saman upp stúdentshúfurnar eftir fjögurra ára nám. Allt frábærar stelpur, harðduglegar og samviskusamar. Við áttum lítil samskipti utan skólastofunnar.  Við vorum svo sem ekkert að forvitnast hver um aðra.Ég man til dæmis ekki, hvar þær áttu heima eða hvernig þær klæddust. 

Ég man bara, hvað mér fannst stelpurnar utan af landi bera af. Þær töluðu fegurra mál, skýrmæltar, höfðu mikinn orðaforða og höfpu spakmæli þjóðskáldanna á hraðbergi – og fóru létt með að setja saman stökur. Það var  greinilegt, að íslensk sveitamenning var enn í blóma.

Við borgarbörnin hlustuðum á í forundran og aðdáun.

Á mínu heimili var aldrei talað um stjórnmál. En óneitanlega hreifst ég með á þessum árum í menntaskóla. Sumir voru óðapólitískir. Það var rifist á göngum, inni í skólastofum og úti í Íþöku, þar sem fundir stóðu stundum fram á nótt. Stalín var að vísu dauður, en kommúnisminn hélt enn velli. Ég hvorki gat né þorði að leggja neitt til málanna, en hlustaði af athygli.

Og ég get alveg viðurkennt það núna, að það var bara eiginlega einn þessara stráka, sem heillaði mig gersamlega upp úr skónum. Með leiftrandi blá augu og óstýriláta ljósa lokka. Ég hefði getað hlustað á hann dag og nótt – og hef síðan reyndar ekki komist hjá því.

Menntaskólakennarar á þessum árum voru stórveldi. Þeir höfðu fullkomið vald og héldu uppi ströngum aga – þéruðu nemendur. Þannig sýndu þeir bara á sér eina hlið. Gerðust aldrei persónulegir. Sköpuðu ákveðinn ótta með framkomu sinni. Það dugði engin linkind. Maður varð að taka á móti og standa sig. Vera á varðbergi. Flestir þeirra voru hámenntaðir og höfðu litla þolinmæði gagnvart bernskubrekum unglinganna.

Sumir kennaranna voru mér kærari en aðrir. T.d. Óli Hans, sem kenndi okkur þýsku upp á níu komma níu. Við vorum líklega allar svolítið skotnar í honum. Svo kenndi hann okkur líka sögu: en það eina sem ég man reyndar úr sögukennslunni er, að Marat Sade dó í baði! Af hverju man ég það svona vel – en fátt annað?

Það kom einstaka sinnum fyrir, að hann brosti út í annað munnvikið –  alveg óvart. En samt held ég honum hafi leiðst að kenna, og fór ekkert dult með það, hvað honum fannst við óttalega vitlausar.

Svo voru þarna menn eins og Ingvar Brynjólfsson, Kristinn Ármannsson og Magnús Jónsson, allir virtir fræðimenn og höfðu samið kennslubækurnar, sem við lásum í þýsku, latínu og frönsku. Það skapaði ómælda virðingu, og maður lagði sig allan fram.

Ekki má gleyma Jóni Guðmundssyni, íslenskukennara. Hann kenndi okkur svo fullkomna stafsetningu, að enn þann dag í dag get ég varla hugsað mér að sleppa zetunni – hvað þá kommunum, sem eru auðvitað bráðnauðsynlegar, ef maður á að skilja okkar mál til hlítar.

Jón Júlíusson kenndi okkur latínu síðasta veturinn, sem var mín eftirlætisgrein  – sannkallað móðurmál. Hann var yngri en hinir og hafði sinn  eiginn kennslustíl‚ ögn nútímalegri og fljótvirkari, að mér fannst.

Einar Magnússon var eini kennarinn, sem ekki þéraði okkur. Samband hans við nemendur var því á öðrum nótum – miklu persónulegra. Hann fór gjarnan út fyrir námsefnið, var  forvitnn um fólk.  Hverra manna ert þú, spurði hann gjarnan?

Það sem skipti kannski mestu varðandi kennara og kennsluhætti á þessum árum, var hin mikla virðing, sem kennararnir sjálfir báru fyrir viðfangsefni sínu. Þeir voru flestallir fræðimenn, hver á sínu sviði.  Voru reiðubúnir að miðla okkur af viskubrunni sínum, gefa okkur innsýn í framandi veröld bókmennta og lista. Þetta skynjuðum við nemendur, tókum það alvarlega og reyndum að fylgjast með, svo að við misstum ekki af neinu.  

Mörgum árum seinna var ég sjálf orðin  kennari vestur á fjörðum. Þá var breyttur tíðarandi. Að mörgu leyti var miklu erfiðara að vera kennari. Manni leyfðist ekki lengur að vera ópersónulegur gagnvart nemendum. Það varð auðvitað að halda uppi aga, en jafnframt að vera félagi nemenda – jafnvel sálusorgari. Mér varð oft hugsað til lærifeðra minna í Menntaskólanum í Reykjavík, þegar í harðbakkann sló. Kannski hefði verið skynsamlegra að halda sig við kennsluhætti þeirra. Halda nemendum frá sér, sökkva sér ekki of djúpt í vandamál, sem mér komu í rauninni ekkert við – eða hvað?

Á lokasprettinum síðustu vikurnar fyrir stúdentspróf gafst okkur nemendum loks færi á að kynnast kennurunum á nýjan og óvæntan hátt. Nú þegar við vorum í þann mund að kveðjast,  urðu þeir skyndilega aðgengilegri, viðmótsþýðari. Þeir virtust allt í einu bera óvænta umhyggju fyrir okkur.  Það var engu líkara en, að þeir vildu nota seinustu mínúturnar til þess að segja  okkur allt, sem ekki hafði gefist tími til öll þessi fjögur ár. Það var jafnvel eins og þeim þætti  örlítið vænt um okkur, þegar öllu var á botninn hvolft.  Þeir urðu skyndilega mannlegir í samskiptum. Og það var sannarlega góð tilfinning.

Á þessum árum var alltaf prófað munnlega á stúdentsprófum. Nemendur biðu þögulir og kvíðnir frammi á gangi. Sumir gátu vart setið kyrrir. Æddu fram og til baka. Voru að reyna að einbeita sér. Hvernig áttu þeir að geta tjáð sig,  þegar þeir sætu augliti til auglitis við kennara sinn, aleinir?

Fæstir höfðu staðið á leiksviði. Aldrei höfðu þeir þurft að tala frá eigin brjósti við kennarann. – Og það var reyndar alveg rétt, hugsið ykkur: Í öll þessi fjögur ár í menntaskóla minnist ég þess ekki, að við höfum nokkurn tíma þurft að standa fyrir máli okkar frammi fyrir kennara og nemendum.  Námið á þessum árum var fólgið í því að hlusta, meðtaka   – og þegja.

Fyrir mér voru stúdentsprófin ein samfelld gleðihátíð. Það var vor í lofti.  Sólargeislarnir flögruðu  um veggi skólans. Ég klæddist mínu fínasta pússi. Var jafn eftirvæntingarfull og fyrsta daginn, sem ég gekk upp skólatröppurnar. Loksins átti ég í vændum  stund með kennaranum mínum – bara ég ein. Að vísu sat prófdómarinn úti við glugga, en hann minnti meir á framandlegan skugga.

Ég var ekki hrædd. Var orðin sviðsvön í leikhúsinu, þegar þarna var komið sögu. Fyrir mér var prófið eins konar uppgjör milli mín og kennarans. Eins konar lokauppfærsla á leikriti, sem við höfðum byrjað að æfa saman fjórum árum fyrr. Hafði honum tekist ætlunarverk sitt? Hafði ég lært rulluna mína?

En eftir að hafa leyft mömmu að leysa úr öllum stærðfræðiþrautum mínum allt fram í fimmta bekk, kveið ég því mest að mæta til prófs hjá öðlingnum, honum Sigurkarli Stefánssyni, þetta vorið. Ég mundi auðvitað fá falleinkunn. Nú mundi mér hefnast fyrir kæruleysið. Hann beið mín inni í stofu og byrjaði á því að biðja mig með brosi á vör að draga upp hring á svarta töflu, sem stóð á miðju gólfi. Og viti menn – mér tókst – á einhver óskiljanlegan hátt –  að draga upp hring, sem var svo fullkominn, að jafnvel cirkillinn gat ekki gert betur. Gott ef ég fékk ekki  8.0 á staðnum – prófi lokið! Og með það fór ég.

Mamma hefði auðvitað staðið sig betur – en allt fyrir mömmu.

Mér leið mjög vel í Menntaskólanum í Reykjavík. Öll tungumálin sem ég lærði á þessum fjórum árum, hafa komið sér vel – eiginlega verið sá grunnur, sem samskipti mín við umheiminn byggja á –  á eilífum ferðalögum um heiminn. Ég var að vísu enn bara barn, og lífið lék við mig. Mér fannst mér vera allir vegir færir.

Mamma hafði átt sér draum. Sá draumur hennar rættist með mér. Hún skildi gildi menntunar, þótt henni hefði ekki auðnast sjálfri að ganga menntaveginn.

Og nú var komið að tímamótum. Stúdentshúfan á næsta leiti. Ég var í þann mund að segja skilið við æskuheimili mitt. Á leiðinni út í heim.

Hvernig mundi mér vegna með þetta vegarnesti, sem Lærði skólinn hafði nestað mig með?

Það er reyndar saga að segja frá því. En ég ætla í lokin að láta nægja að rifja upp stutta dæmisögu, sem skýrir hvað við er átt:

Það var í desember 1988 – utanríkisráðherrafundur NATO í Brussel. Aldrei þessu vant fylgdi ég manni mínum til Brussel, af því að í beinu framhaldi var opinber heimsókn til Póllands. Skyldan bauð, að maki væri með í för.

Þegar ráðherrafundum í NATO lauk, var efnt til mikillar beislu.Tilefnið var, að George Schultz, utanríkisráðherra Reagans, var að hætta. NATO-ráðherrarnir höfðu skotið saman í kveðjugjöf handa Schultz, að hans eigin vali – eða réttara sagt, konunnar hans. Hún valdi rafknúna járnbrautarlest –  leikfang handa stórum strákum.

Ekki veit ég, hvaða siðareglur réðu því, að mér var valið sæti við borðsendann, þar sem sátu framkvæmdastjóri NATO, Þjóðverjinn, Manfred Woerner, afmælisbarnið, Schultz, og utanríkisráðherra hennar hátignar, Sir Geoffrey Howe.

Mín megin á hægri hönd var franski utanríkisráðherrann, Dumas (ég hafði heyrt, að hann hefði á stúdentsárunum brunað á mótorhjóli alla leið til Svíþjóðar til að elta sænska jósku, sem hafði litið við í Sorbonne). Ég vissi ekki þá, að löngu seinna mundi önnur norræn ljóska, Eva Jolie, reyna að koma honum á bak við lás og slá fyrir spillingu. Þaðan af síður vissi ég, að hjákona hans mundi síðar gefa út æviminningar sínar undir nafninu „Hóra lýðveldisins“.

Mér á vinstri hönd sat dularfullur maður, Giulio Andreotti, utanríkisráðherra Ítala. Nú kom sér vel að hafa verið samviskusamur nemandi í Lærða skólanum í Reykjavík í gamla daga. Þýskan var við borðsendann, franska mér á hægri hönd, en latínan til vinstri. Talaði ég latínu við Andreotti? Nei, en ég hafði fylgt latínunni eftir með því að læra eitthvað í ítölsku, þegar ég var fararstjóri á Ítalíu forðum daga. Nema hvað – það dugði til þess að blása lífi í sessunaut minn, sem talaði ekkert „erlent“ tungumál. Og hvorugur kunni brúklega ensku.

Fyrr en varði voru  „stóru strákarnir“, framkvæmdastjóri NATO og herskari af utanríkisráðherrum, komnir á fjóra fætur í að reyna að hemja leikfangalestina, sem var óþekk og lét ekki að stjórn – brunaði bara hring eftir hring.

Við sem sátum mín megin við borðsendann, létum sem við tækjum ekki eftir þessum strákapörum. Ég notaði tækifærið og sagði kaþólikkanum, Andreotti, söguna af víðförlustu konu heims – Guðríði Þorbjarnardóttur – sem hefði numið land í Ameríku hálfu árþúsundi á undan Kolumbusi, og fætt þar fyrsta Ameríkanann af evrópskum uppruna. Lærðir menn segðu mér – og nú horfði ég beint í augun á Andreotti – að kardínálar Vatikansins hefðu tekið nákvæma skýrslu af Guðríði um „nýja heiminn“. Seinna hefði Kolumbus komist í þau gögn, að sögn. Kannski hefði hann aldrei fundið Ameríku, ef Guðríðar hefði ekki notið við.

Andreotti varð svo uppveðraður af sögu Guðríðar, að hann ætlaði að biðja vini sína í Vatikaninu að kanna, hvort Kolumbus hefði fengið vitneskju um hina nýju heimsálfu af frásögnum Guðríðar, sem nú rykféllu í hvelfingum Vatikansins.

Segið þið svo, að Lærði skólinn hafi ekki risið undir nafni!