Afmæliskveðja frá eiginmanni 9. júlí, 2022

Hún á afmæli í dag.
Hversu oft hef ég ekki sagt það:
Ég sá hana fyrst aftanverða í landsprófi í Gaggó Vest, október 1953.
Þá vantar eitt ár í sjötíu ár.
Hún var of sein fyrir. Hún sveif inn fisléttum skrefum. Settist fyrir framan mig, sneri sér við og brosti.
Þessu sama brosi, sem enn yljar mér um hjartarætur. Og svo líður tíminn. Þannig líður tíminn.
Og nú erum við stödd á sólarströnd Salobrena til að halda upp á afmælið.
Það er enn sama sagan. Ég labba á eftir henni. Það er sama sveiflan í göngulaginu. Skvaldrið í kring hljóðnar. Athygli nærstaddra beinist öll að sama púnkti:
Yfirþjónnin hneigir sig djúpt og kyssir á hönd drottningar. Ég sé hana bara aftanverða eins og forðum í Gaggó West.
Yfirþjónninn leiðir okkur að borðinu, þar sem við fögnum afmæli hennar án þess að nefna nokkur ártöl.
Þarna voru tveir eða þrír gamlir kunningjar.
Smám saman spurðist út, hver hún væri.
Að lokum var þetta orðin sameiginleg veisla.
Mér tókst þó að segja: Til hamingju með afmælið.
Og þannig hefur þetta verið í bráðum sjötíu ár.
Það laðast allir að henni, af því að brosið hennar er ekta.
Hún er ekta.
Þess vegna hefur afmælisveislan staðið í bráðum 70 ár.